Sala á lambakjöti

Miðvikudaginn 20. nóvember 1996, kl. 14:10:03 (1449)

1996-11-20 14:10:03# 121. lþ. 29.1 fundur 117. mál: #A sala á lambakjöti# fsp. (til munnl.) frá landbrh., landbrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur

[14:10]

Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir hefur borið fram fyrirspurn til landbrh. í tveimur töluliðum. Vegna fyrri töluliðar vil ég segja að samkvæmt 1. mgr. 7. gr. búvörulaganna er verðlagsnefnd búvöru, svokallaðri sexmannanefnd, skylt að ákveða afurðaverð til búvöruframleiðenda eins og reyndar kom fram í máli hv. þm. áðan. Verð búvöru til framleiðenda er ákveðið með svonefndum verðlagsgrundvelli meðalbús í nautgripa- og sauðfjárrækt. Í 2. mgr. 8. gr. búvörulaganna er sérstaklega tekið fram að sé sauðfé slátrað utan tímabilsins 1. sept. til 30. nóv. geti Bændasamtök Íslands og samtök framleiðenda, þ.e. í þessu tilviki Landssamtök sauðfjárbænda, óskað eftir því við verðlagsnefnd að nefndin ákveði sérstakt verð til framleiðenda. Skal nefndin þá ákveða slíkt verð er gildi fram til næstu reglulegrar verðlagningar.

Samkvæmt áðurnefndu ákvæði 2. mgr. 8. gr. búvörulaganna er unnt að leita eftir öðru og hærra verði á sauðfjárafurðum heldur en kveðið er á um í verðlagsgrundvelli. Sú leið mun ekki hafa verið farin í því tilviki sem hér um ræðir og því er ekki hægt að segja að samningar sláturleyfishafa og verslana við einstaka framleiðendur eða félög þeirra í einstökum landshlutum, þar sem mun vera kveðið á um reglubundna afhendingu kjöts gegn greiðslu hærra verðs en skráð er, séu lögmætir.

Virðulegi forseti. Ég sé að tími minn er nú þegar að renna út. Getur verið að ég eigi eitthvað lengri tíma en sett var inn á klukkuna í upphafi? (Gripið fram í.) Já, það er líka beðið um það að ráðherrar svari mjög ítarlega fyrirspurnum. Það hefur sérstaklega verið tekið fram í umræðum hér á undan.

(Forseti (StB): Forseti getur upplýst að hæstv. ráðherra á enn þá þrjár mínútur.)

Takk fyrir. Verðlagsnefnd landbúnaðarins tók þetta mál fyrir á fundi þann 18. júlí sl. Samkvæmt upplýsingum fjölmiðla var um að ræða fjóra samninga um sumarslátrun. Fulltrúar bænda í nefndinni gerðu ekki tillögu um að sumarverðlagning færi fram sem er þó heimilt. Nefndin ræddi hins vegar möguleika á því að gefa sumarverðlagningu frjálsa. Niðurstaða þess varð sú að til þess vantaði heimildir samkvæmt búvörulögunum.

Sumarverðlagning hefur átt sér stað í allmörgum tilvikum, þó ekki nokkur seinustu ár. Sú verðlagning hefur ávallt verið nokkru hærri en hin reglulega verðlagning þar sem við verðákvörðun er tekið tillit til þess að dilkar eiga eftir að þyngjast um 10--20% frá sumarslátrun og fram að haustslátrun. Telja verður að það verð, sem samið var um og engin athugasemd var gerð við, hvorki af hálfu einstakra bænda, samtaka þeirra né fulltrúum bænda í verðlagsnefnd, hafi verið ásættanlegt og í samræmi við það sem ætla má að orðið hefði ef verðlagsnefnd hefði ákveðið það.

Varðandi síðari töluliðinn, um viðhorf eða afstöðu ráðherra til málsins, vil ég segja að samkvæmt ákvæðum samningsins um framleiðslu sauðfjárafurða frá 1. okt. 1995 verður verðlagning sauðfjárafurða til bænda gefin frjáls frá og með 1. sept. 1998 þannig að við erum á nokkuð hraðri leið til þess forms sem hv. fyrirspyrjandi sagði í máli sínu áðan að væri það sem við öll vildum, hvort sem hún hefur fullkomið umboð til að tala fyrir hönd allra, (SvanJ: Flest.) en flest, við skulum hafa það þannig hafi ég tekið skakkt eftir, en á þeirri leið erum við. Telja verður að samningar sem gerðir eru fram að þeim tíma og hljóta ekki staðfestingu verðlagsnefndar landbúnaðarins séu í ósamræmi við ákvæði búvörulaganna. Þannig eiga bændur ekki lögvarða kröfu til að fá hærra verð greitt en verðlagsnefnd hefur ákveðið þó svo að þeir telji sig hafa gert samning við afurðastöðvar eða verslanir um hærra verð.

Hins vegar er rétt að minna á að ekki er um opinbera verðskráningu að ræða í smásölu á dilkakjöti. Því er verslun heimilt að taka það verð fyrir einstaka hluta kjöts sem hún telur að markaðurinn vilji greiða. Af því leiðir að ekki er unnt að sjá í hvaða mæli umræddar verslanir hafa velt hærra innkaupsverði á sumarslátruðu kindakjöti yfir á neytendur.

Af því sem að framan er rakið verður að telja að ekki hafi verið farið að lögum við þá samningsgerð sem spurt er um. Þar sem á hinn bóginn komu engar athugasemdir, kvartanir eða kærur vegna málsmeðferðar þessarar, svo sem áður er getið, og ætla má bændur hafi fengið ívilnandi samninga en ekki íþyngjandi miðað við lögbundna verðákvörðun mun ég ekki hafa afskipti af þessum samningum. Hins vegar tel ég að sömu niðurstöðu hefði mátt fá fyrir framleiðendur sauðfjárafurða og neytendur innan ramma laganna sem sé sú leið sem tvímælalaust bar að fara lögum samkvæmt.