Jafnréttisfræðsla í grunn- og framhaldsskólum

Miðvikudaginn 20. nóvember 1996, kl. 15:08:19 (1467)

1996-11-20 15:08:19# 121. lþ. 29.5 fundur 153. mál: #A jafnréttisfræðsla í grunn- og framhaldsskólum# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur

[15:08]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir þessa fyrirspurn og ráðherra fyrir skýr svör. Sú könnun sem hér er gerð að umtalsefni var send til 263 skóla og svörun var um 75%. Það er dálítið undarlegt við niðurstöðurnar, eins og fram kom reyndar í svari ráðherra, að þó að meiri hluti kennara eða svarenda segist sinna jafnréttisfræðslu --- reyndar segja um 30% að það sé mjög lítil eða engin fræðsla í sínum skóla --- þá segja samt yfir 85% grunnskólakennara og tæp 90% framhaldsskólakennara að jafnréttisfræðslan sé ekkert skipulögð. Hvorki virðast skólanámskrár né jafnréttisáætlanir vera mikið notaðar í þessum tilgangi.

Sú sem hér stendur hefur kynnt sér þessi mál mjög vel og staðið að því að fræða kennara um þau og mér er alveg ljóst að það gengur mjög erfiðlega að koma þessu inn í skólana. Eins og fram kom í svari ráðherra er aðallega nefnt þrennt sem kennarar telja að komi í veg fyrir að þessum málum sé sinnt, þ.e. tímaskortur, skortur á fræðsluefni og ónóg fræðsla. Mér sýnist að þar sem mál grunnskólans hafa færst yfir til sveitarstjórna þá verði mikið átak að eiga sér stað þar og ég er mjög bjartsýn á að svo verði gert, samanber nýlega ráðstefnu um þessi mál í Keflavík og öflugt starf jafnréttisfulltrúa í Reykjavík og á Akureyri. En mér sýnist að í framhaldsskólunum verði að eiga sér stað sérstakt átak af hálfu ráðuneytisins þar sem ríkið rekur framhaldsskólana og vil því hvetja og spyrja hæstv. ráðherra hvort hann muni reyna að fylgja þessu eftir betur, sérstaklega með tilliti til framhaldsskólanna. Ég er sammála honum um að það að senda skýrsluna út til skólanna ætti að ýta á eftir þessu máli, en ég tel að það þurfi meira að koma til og þá ekkert minna en átak frá ráðherra sjálfum sem ekki síst þarf að beinast að skólastjórnendum framhaldsskólanna.