Hússtjórnarskólinn á Hallormsstað

Miðvikudaginn 20. nóvember 1996, kl. 15:31:32 (1477)

1996-11-20 15:31:32# 121. lþ. 29.6 fundur 155. mál: #A Hússtjórnarskólinn á Hallormsstað# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., ÁÞ
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur

[15:31]

Ásta B. Þorsteinsdóttir:

Herra forseti. Á hinu háa Alþingi voru í gær miklar umræður um frv. um atvinnuleysisbætur. Í þeirri umræðu kom glöggt fram að hv. alþm. höfðu af því verulegar áhyggjur að þær breytingar sem boðaðar eru í frv. með tilliti til hækkunar á aldri þeirra sem eiga rétt á bótum upp í 18 ár næðu fram að ganga. Áhyggjur manna beindust fyrst og fremst að þeirri staðreynd að hvorki menntakerfið né félagslega kerfið hér á landi væri jafn vel í stakk búið og í okkar næstu nágrannalöndum til þess að aðstoða fólk í atvinnuleysi og var einmitt vitnað til þessara næstu nágranna okkar af hálfu flutningsmanna og fulltrúa meiri hlutans í gær.

Nú er hér til umræðu áform hæstv. menntmrh. um að starfsemi Hússtjórnarskólans á Hallormsstað verði hætt í núverandi mynd. Þessi skóli er einn af fáum slíkum skólum á landinu og annar ekki eftirspurn. Enn fremur hefur komið fram í máli formanns skólanefndar að það hefur verið einlægur vilji skólayfirvalda þar til að taka inn í skólann nemendur sem á einhvern hátt mega sín minna í þjóðfélaginu og með núverandi fyrirkomulagi hefur verið hægt að hlúa að þeim nemendum, t.d. þroskaheftum nemendum eða öðrum sem hafa flosnað upp úr námi. Einnig hefur komið fram að þetta nám nýtist mjög vel sem undirbúningur í annað stafstengt nám.

Herra forseti. Nágrannaþjóðir okkar hafa lagt mikla áherslu á það þrátt fyrir fjárhagsþrengingar, sem þær hafa gengið í gegnum, að standa vörð um ólík námsframboð, m.a. lýðháskóla og hússtjórnarskóla og það er viðurkennt að slíkt gagnist mörgum nemendum sem höllum fæti standa. Því vil ég beina þeirri fyrirspurn minni til hæstv. menntmrh. hvort hann telji ráðlegt í ljósi hins háa brottfalls nemenda úr framhaldsskólum landsins að leggja niður námsframboð af þessari tegund.