Hússtjórnarskólinn á Hallormsstað

Miðvikudaginn 20. nóvember 1996, kl. 15:43:17 (1484)

1996-11-20 15:43:17# 121. lþ. 29.6 fundur 155. mál: #A Hússtjórnarskólinn á Hallormsstað# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur

[15:43]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Mér finnst nauðsynlegt að láta þess getið fyrir þá sem vita ekki nákvæmlega um þá hluti að við erum að tala um skóla sem eru með 21--25 nemendur. Við erum ekki að tala um stærri stofnun í sjálfu sér og þess vegna hafa menn rætt um það hvort þessi stofnun geti ekki dafnað betur í samvinnu við stærri skólastofnun. Það eru hugmyndir um hagræðingu, sem hafa verið á döfinni, sem menn hafa verið að velta fyrir sér hvernig að þessu skuli staðið með ekki stærri stofnun.

Í Reykjavík hefur verið starfandi hússtjórnarskóli sem hefur óskað eftir því að taka upp nánara samstarf við Menntaskólann í Kópavogi, m.a. af því að skólinn telur að það sé til þess að styrkja starfsemi sína. Örlög hússtjórnarskólanna sem voru rakin eru sögulegar staðreyndir sem eiga rætur að rekja til þess að menn töldu á tímabili að hússtjórnarnámið væri ekki mjög eftirsóknarvert og væri næsta ámælisvert af mörgum að leggja stund á slíkt nám og það væri ekki í tísku að fara í slíka skóla og þeir flosnuðu upp og heyra sögunni til. Komið hefur í ljós í umræðunum um Hússtjórnarskólann á Hallormsstað að mikill áhugi er á því að hann fái að starfa áfram og það starf sem þar hefur þróast frá 1930 verði ekki rifið upp með rótum. Ég tel að í tillögum menntmrn. hafi ekkert komið fram sem stefni að því að rífa það starf upp með rótum. Hins vegar eru þar hugmyndir um að laga það að breyttum aðstæðum á Héraði en málið verður áfram til athugunar. Ég hef sagt að núna væri æskilegast að ráðuneytið og skólarnir tveir gerðu með sér samkomulag um framtíðarstarfsemi á þeim forsendum sem fellur að fjárheimildum og menn skoðuðu einnig hugmyndir um hvort það væri stofnuninni til framdráttar til lengri tíma að hún yrði sjálfseignarstofnun eins og hún var á sínum tíma.