Rekstur bankakerfisins í alþjóðlegum samanburði

Miðvikudaginn 20. nóvember 1996, kl. 16:18:33 (1496)

1996-11-20 16:18:33# 121. lþ. 29.95 fundur 107#B rekstur bankakerfisins í alþjóðlegum samanburði# (umræður utan dagskrár), Flm. ÁE
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur

[16:18]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svör hans, sérstaklega hvað varðar undirtektir um hinn háa rekstrarkostnað í íslensku bankakerfi, 13 milljarðar, sem er miklu hærri en í nágrannalöndunum. Við skulum átta okkur á því hvað umræðan snýst um. Hún snýst um að Íslendingar hafa borgað mun meira í vaxtamun og greiða mun hærri þjónustugjöld en gert er í nágrannalöndunum. Þetta er vegna slaks reksturs íslenskra banka þótt tekið sé út fyrir sviga, eins og ég gat um, smæð kerfisins, húsnæðismálin, afskriftirnar, jafnvel bankakreppan og annað slíkt, þá stendur eftir og menn þurfa að vita það að íslenskt bankakerfi hefur um mjög langan tíma verið illa rekið og neytendur hafa þurft að borga. Og ég vil benda á að það er almenningur í landinu sem á bæði Landsbankann, Búnaðarbankann, og sparisjóðina svona óbeint, þeir eiga sig sjálfir. Það er reyndar athyglisvert sem ráðherra svaraði raunverulega: Úrbæturnar verða að koma í gegnum hlutafjárvæðinguna. Ég er hlutafjárvæðingarmaður. Ég er hins vegar ekkert viss um að það leysi þennan rekstrarvanda sem við erum að tala um því hægt er að benda á að Íslandsbanki hf. sem er bæði hf. og einkabanki er með þriðja hæsta rekstrarkostnaðinn af fjórum. Vandamálið er fyrst og fremst fákeppni og við þurfum að taka á því. Við höfum þetta mjög víða. Það er stjórnunarvandi í bönkunum. Það er ekki tekið á honum og ég nefndi töluna. Það vita allir um hvað verið er að tala og þó svo bankaráðsmennirnir í Búnaðarbanka hv. þm. Árni Mathiesen og Guðni Ágústsson vilji taka til varnar fyrir sínar stofnanir, þá er það gott og blessað. Staðreyndin er samt sem áður sú að íslenskir þegnar eru að borga miklu meira en þeim ber. Það er alvarlegt mál þegar íslensk fyrirtæki eru að fara til útlanda með kaup á bankaþjónustu og almenningur, sem á ekki tök á því, er skilinn hér eftir. Það er alvarlegast í þessari stöðu og menn eiga að ræða þetta á þeim grunni. Ég hef margoft brýnt fyrir íslenskum bönkum að hagræða í rekstri sínum. Það er aðalniðurstaðan í þessari skýrslu. Þó maður setji alla fyrirvarana um fámennið er einungis eitt eftir til að ná tökum á þessu. Það er að hagræða og endurbæta bæði stjórnun og skipulag í íslenska bankakerfinu og ef menn gera það ekki, þá höldum við einfaldlega áfram að borga hér hærri gjöld og hærri skatta en nágrannaþjóðirnar gera.