Landsvirkjun

Fimmtudaginn 21. nóvember 1996, kl. 16:42:13 (1558)

1996-11-21 16:42:13# 121. lþ. 30.4 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur

[16:42]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er náttúrlega mjög eðlilegt að eigendur fyrirtækja hvort sem þeir eru í opinberum rekstri eða einkarekstri geri kröfu um að eigandinn fái einhvern arð af rekstrinum hvernig svo sem hann er fenginn. Ég held að allir flokkar þingsins hafi komið að slíkum málum. Við gerðum á sínum tíma, þegar ég var formaður fjárveitinganefndar í ágætri ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar, kröfu um að Póstur og sími greiddi arð til ríkisins. Um það var full samstaða okkar allra sem studdum þá ríkisstjórn þó svo við vissum að sú krafa gæti orðið til þess að Póstur og sími þyrfti ef til vill að hækka gjaldskrá sína. En það varð samt ekki til þess að við hyrfum frá þeirri kröfu og slík krafa um arðgreiðslur ríkisfyrirtækja hefur verið rauði þráðurinn í ríkisbúskapnum allar götur síðan. Ég veit ekki til að nokkur stjórnmálaflokkanna sem hefur átt sæti í Stjórnarráðinu frá þeim tíma að sú krafa var innleidd hafi beitt sér fyrir því að fella arðgreiðslukröfuna niður.