Landsvirkjun

Fimmtudaginn 21. nóvember 1996, kl. 16:45:16 (1560)

1996-11-21 16:45:16# 121. lþ. 30.4 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur

[16:45]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Herra forseti. Hvað síðara atriðið varðaði í spurningum hv. þm. þá vakti ég einfaldlega athygli á því að þessi skipan mála væri öðruvísi en gerist og gengur í því rekstrarumhverfi hlutafélaga sem verið er að búa þessu fyrirtæki þó skrefið sé ekki stigið alla leið. Ég spurði hæstv. iðnrh. einfaldlega þeirrar spurningar hver væru hans viðhorf til þess framgangsmáta að eignaraðilar gætu í raun beitt neitunarvaldi gagnvart ákvörðunum, þ.e. að stjórnin væri þess ekki bær að skera úr með venjulegri atkvæðagreiðslu eins og stjórn hlutafélags gæti gert um slík mál því það er alveg ljóst að ef um hlutafélagavæðingu væri að ræða þá mundi þessi staða tæpast koma upp. Ég spurði hæstv. ráðherra að því og gerði ekki aðrar athugasemdir en það.

Um fyrra atriðið í hans málflutningi liggur það ljóst fyrir að vatnsréttindi, virkjunarréttindi, eru nú eignfærð og gerð krafa um arðgreiðslu af þeim og það er ríkið sem það gerir. Með sama hætti mun ríkið væntanlega gera kröfu um vatnsréttindi vegna Blönduvirkjunar sem munu væntanlega falla í hlut ríkisins að lokinni dómsmeðferð sem nú stendur yfir. Og það sem ég sagði var einfaldlega þetta:

Ríkið hefur markað þessa stefnu hvað varðar nýtingu vatnsréttinda í fyrirtækjum sem ríkið á hlutdeild að: Að eignfæra það framlag sitt og krefjast arðgreiðslu fyrir. Þá er eðlilegt þegar þær breytingar verða gerðar sem fyrir dyrum standa og í skipulagi orkumála að ríkið marki þá almennu stefnu að hver sá sem fær réttindi til að virkja vatn þar sem ríkið á vatnsréttindi og virkjunarréttindi skuli greiða fyrir það greiðslur í sameiginlega sjóði. Það heitir auðlindaskattur.