Landsvirkjun

Fimmtudaginn 21. nóvember 1996, kl. 16:47:55 (1562)

1996-11-21 16:47:55# 121. lþ. 30.4 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur

[16:47]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Herra forseti. Þegar um er að ræða í þessu tilviki útgreiðslu úr fyrirtæki sem ríkið á fyrir nýtingu réttinda þá heitir það arðgreiðsla, 5,5% af eignfærðum réttindum vegna nýtingar vatnsréttinda. Þegar slíkt er greitt af fyrirtæki sem ríkið á ekki en nýtir sömu verðmæti þá er það ekki arðgreiðsla til ríkisins heldur auðlindaskattur eða gjald fyrir nýtingarrétt, eða hvaða heiti sem hv. þm. velur á því. En það breytir ekki því að menn eru að fara að taka gjald fyrir nýtingarréttindi af sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar í orkubúskap landsmanna. Menn eru að fara að innleiða það með atkvæði hv. þm. sem hér var að tala og ég óska honum til hamingju með sinnaskiptin og vona að þau nái til hinnar auðlindarinnar líka fyrr en seinna.