Landsvirkjun

Fimmtudaginn 21. nóvember 1996, kl. 16:55:39 (1566)

1996-11-21 16:55:39# 121. lþ. 30.4 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur

[16:55]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Herra forseti. Það læddist að mér sú hugsun áðan þegar hv. þm. var að tala hvort það gæti virkilega verið að afstaða þessa sjálfstæðismanns væri sú að það væri í lagi að greiða arð ef ríkið ætti fyrirtæki aleitt. Þeim mun minna sem ríkið ætti í því, þeim mun óeðlilegra væri að arðs yrði krafist af rekstri viðkomandi fyrirtækis. Til allrar hamingju leiðrétti hann sig í lokin og sagði að ekkert væri óeðlilegt að krefjast arðgreiðslu af Landsvirkjun. Ég er honum sammála um það. Það er ekkert óeðlilegt. Það er eðlilegra að krefjast greiðslu arðs af fyrirtæki eins og Landsvirkjun en af þjónustufyrirtæki eins og Pósti og síma, það er miklu eðlilegra. Og ef ég ætti að velja á milli hvort væri betra fyrir kjósendur mína og hv. þm. á Vesturlandi og Vestfjörðum, að greiða ekki arð af þjónustu Landsvirkjunar eða vera ekki krafðir um arð af þjónustu Pósts og síma, þá er ég þeirrar skoðunar að það síðarnefnda væri betra.