Landsvirkjun

Fimmtudaginn 21. nóvember 1996, kl. 16:57:17 (1567)

1996-11-21 16:57:17# 121. lþ. 30.4 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., SvG
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur

[16:57]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að víkja aðeins að þeim ræðum sem hér hafa síðast verið haldnar, þ.e. fyrst ræðu hv. þm. Sighvats Björgvinssonar og síðan ræðu hæstv. iðnrh. en síðar mun ég víkja aðeins að almennum atriðum þessa frv. og almennri stöðu mála og almennri stöðu Landsvirkjunar sérstaklega.

Ég verð að segja alveg eins og er að mér fannst ekki koma fram hjá hv. 4. þm. Vestf. mikill skilningur á þeim vanda sem ég tel að Landsvirkjun og orkuiðnaðurinn á Íslandi sé í. Sá vandi stafar m.a. af því að í seinni tíð og síðustu mánuðum og missirum hafa menn í vaxandi mæli sett spurningarmerki við það sem kalla má hugmyndaleg grundvallaratriði fyrir rekstri Landsvirkjunar. Hvað er það? Það er verðjöfnun og sátt með öllum landsmönnum. Og mér fannst hv. þm. gera allt of mikið úr því að hér væri verið að breyta rekstri þessa fyrirtækis í grundvallaratriðum. Í raun og veru er ekki um það að ræða. Þvert á móti má halda því fram að það sé verið að taka ákvörðun um að hafa reksturinn að nokkru leyti, þýðingarmiklu leyti, fyrir utan arðgreiðslurnar óbreyttan um nokkurra ára skeið. Ég tel að ekki sé hægt að halda því fram að í þessu frv. séu menn að opna orkugeirann fyrir fjölbreyttri eignaraðild til frambúðar.

Ég held hins vegar, hæstv. forseti, að fari svo að frv. fari óbreytt í gegn, fari svo að menn haldi áfram að hrista undirstöðurnar undir raforkumálum á Íslandi með þeim hætti sem menn eru að gera núna með því að tefla verðjöfnuninni í tvísýnu, þá geti farið svo að menn telji óhjákvæmilegt ekki aðeins hér heldur líka víðar í landinu að kljúfa orkugeirann á Íslandi í hluta og menn segi sem svo: Við skiptum ekki einasta orkugeiranum í tvennt eftir framleiðslu annars vegar og dreifingu hins vegar, heldur skiptum við orkugeiranum í landshluta, landshlutaveitur og landshlutaframleiðslufyrirtæki. Og ég segi alveg eins og er, hæstv. forseti, að ég tel að málið liggi þannig að núna verði Alþingi og hv. iðnn. að taka afstöðu til þess hvort það á að gerast að landshlutarnir telji sig nauðbeygða til þess að segja: Við stofnum hér okkar eigið orkuframleiðslufyrirtæki af því að verðjöfnunin sem Landsvirkjun byggðist á heldur ekki.

Ég sé hér ekki fjarri mér hv. þm. Egil Jónsson. Ég bendi á að t.d. á Austurlandi hafa menn verið að tala um gríðarlega miklar virkjanir. Halda menn að það muni ganga að sá landshluti sem við erum stödd á lækki hjá sér orkuverð en aðrir landshlutar framleiði handa okkur orku sem er seld á sama verði en viðkomandi landshluti njóti einskis í því? Ætlar jafnaðarmannaflokkur Íslands að ganga gegn verðjöfnunarstefnu á raforku? Ég trúi því ekki að það sé svo. En það er það sem ríkisstjórn Framsfl. í orkumálum er að gera og ég segi Framsfl. af því að ég er sannfærður um að það eru aðallega þeir framsóknarmenn sem beita sér í þessu máli eins og mér sýnist staðan vera. Við jafnaðarmenn erum ekki á móti verðjöfnun, við erum með verðjöfnun eins og fram kemur í bókinni Sjónarrönd sem áður var vitnað í.

[17:00]

Ég held að það sé líka nauðsynlegt, hæstv. forseti, að svara hæstv. iðnrh. áður en ég kem að meginmáli mínu nokkrum orðum. Hann sagði: Þetta er að frumkvæði Reykjavíkur og Akureyrar. Ráðherrann nefnir þetta vegna þess að hann er að skjóta sér á bak við það og hann veit að ég er afar traustur stuðningsmaður meiri hlutans í Reykjavíkurborg og hæstv. ráðherra er að vona að þessi orð hans verði til þess að veikja málflutning minn. Þetta er málefnalegt innlegg hans í umræðuna. Það er ekki mjög drengilegt og ekki mikið ris á því, hæstv. forseti.

Veruleikinn er auðvitað sá að auðvitað hlutu Reykjavík og Akureyri að óska eftir skoðun á eignarhlut sínum og hvernig mætti tryggja arð af honum. Auðvitað hlutu þessir aðilar að gera það. Það er ekki þar með sagt að niðurstaðan hafi átt að vera nákvæmlega sú sem hér liggur fyrir og mér sýnist vera aðallega skrifuð niður af ráðherra Framsfl.

Hæstv. ráðherra sagði að ekki verði annað ráðið af umræðunni en víðtækt pólitískt samkomulag sé um málið. Það eru veruleg spurningarmerki við þetta mál. Af hverju er ráðherrann að blekkja sig í þessu máli? Til hvers er hann að því? Af hverju er hann að reyna að gera lítið úr þeim sem gagnrýna þetta mál á málefnalegum forsendum? Af hverju spyr hann menn spurningar eins og þeirrar: Í umboði hvers eru slíkir þingmenn að tala? Þingmenn tala í umboði samvisku sinnar, hæstv. ráðherra. Það ættu allir þingmenn að vita.

Hæstv. ráðherra lagði á það megináherslu sem fyrsta atriðið í skjalinu að um væri að ræða 3% verðlækkun eftir aldamót sem höfuðatriði og fremsta atriðið. Slík uppsetning mála er, með leyfi forseta fölsun af því að fyrsta atriðið í þessu samkomulagi eins og það liggur fyrir eru arðgreiðslur til eignaraðila. Svo kemur hitt. Það liggur fyrir, hæstv. forseti, í öllum skjölum málsins að sveigjanleikinn er aðallega í verðinu. Ég fékk upplýsingar frá Landsvirkjun í dag um hvaða munur er á því hvort verðið lækkar um 2% frá aldamótum eða 3%. Það er gríðarlegur munur á því í verðinu sjálfu hvenær það fer að skila sér niður á það stig sem má kalla eðlilegt og auðvitað munar það gríðarlega miklu líka að því er varðar skuldsetningu fyrirtækisins. Það er því augljóst mál, hæstv. forseti, að þegar hæstv. ráðherra dregur þessa 3% verðlækkun fram er hann að reyna að gefa aðra mynd af málinu en raunverulega er. Hann er að reyna að selja málið á fölskum forsendum.

Hver er veruleikinn í þessu efni, t.d. ef við skoðum þetta tímabil sem er um að ræða til ársins 2010? Hann er sá að ef farin er 2% raunlækkunarleiðin er verðið á kwst. um 2,30 kr. í lok tímabilsins en 2 kr. ef farin er 3% verðlækkunarleiðin. Það er geysilegur munur á þessu tvennu. Það er líka ljóst að ef farin er sú leið sem gert er ráð fyrir í hugmyndum eignaraðilanna að miðað er við að skuldin í lok tímabilsins verði 17,5 milljarðar, en ef farin er 2% leiðin er það 14,4 milljarðar. Þetta er aldrei sagt. Það er aldrei sagt að með því að fara þá leið sem hæstv. ráðherra er að tala um eru menn líka að taka ákvörðun um það að skuldirnar geti orðið hærri en ella.

Hæstv. ráðherra leggur á það áherslu í máli sínu að þessar spár byggi allar á ýmsum forsendum sem hann rakti eftir manni sem heitir í þessum íslenska ræðustól ,,Djei Pí`` Morgan en ég hélt að héti J.P. Morgan og samkvæmt því er gert ráð fyrir því að verðið á tonni á áli sé 1.750 dollarar. Hvaða fréttir eru að koma núna um þau efni? Hvaða fréttir birtast í dag í Financial Times um verð á áli? Það eru fréttir um að verðhrun kunni að verða á áli innan fjögurra ára þegar aukin álframleiðsla þrýstir verðinu niður. Í fréttum Ríkisútvarpsins í hádeginu í dag segir svo, með leyfi forseta:

,,Í fjármálaviðskiptablaðinu Financial Times er bent á að gangi allar fyrirætlanir um nýjar álbræðslur eftir megi búast við miklu verðhruni á áli á heimsmarkaðnum um aldamótin.``

Nú er ég ekki, hæstv. forseti, að segja að þetta verði svona. En ég er að segja: Mér finnst ekki heiðarlegt gagnvart Alþingi á sama tíma og svona fréttir birtast í Financial Times og er sagt frá í öllum fréttum útvarpsstöðvanna á Íslandi í dag að þess skuli ekki getið. Hér er greinilega um að ræða kaflaskil í þessum málum og menn hljóta að velta því fyrir sér hvort skynsamlegt sé að hafa öll eggin í sömu körfunni og miða verðlag á orku eingöngu við heimsmarkaðsverð á áli. Ég segi þess vegna, hæstv. forseti: Mér fannst málflutningur hæstv. iðnrh. ekki vera þannig að hann vildi ná þessu máli í samkomulagi í gegnum þingið. Mér fannst hann vera að reyna að storka, bæði með persónulegum skotum og almennum pólitískum skotum af ýmsu tagi. Það er mjög sérkennilegt ef ráðherrar vilja endilega efna til illinda um mál sem þeir flytja inn í þessa stofnun. Þá er ég ekki að tala um þá gagnrýni sem hann hefur uppi á mig heldur einnig á gagnrýni samstarfsmanna hans sem ég hélt að styddu núverandi ríkisstjórn. Það er sérkennilegt að hann skuli beita sér gegn einstökum þingmönnum stjórnarflokkanna með þeim hætti sem hann gerði í ræðu sinni áðan.

Virðulegi forseti. Ég held að nauðsynlegt sé að hafa það í huga í þessu máli að mjög miklar breytingar standa yfir og geta orðið á orkumálum í landinu. Við höfum verið að fara yfir breytingar á Orkustofnun. Mjög umdeildar hugmyndir ráðherra voru uppi í þeim efnum en þær hafa verið settar til hliðar og unnið er eftir öðrum leiðum. Það var skipuð mjög fjölmenn orkumálanefnd og engin sátt var um niðurstöðu hennar. Í rauninni skrifaði enginn undir álit nefndarinnar og fyrirvarar voru hjá þeim sem þá skrifuðu undir um svo að segja alla hluti. Í þriðja lagi er greinilegt að Landsvirkjun er að ganga í gegnum talsverð tíðindi, sérstaklega ef það gerist að samningar náist við erlend stórfyrirtæki um stofnun álvera hér á landi. Þá getur það haft í för með sér miklar breytingar að því er varðar Landsvirkjun. Það er t.d. verið að tala um það, herra forseti, að Nesjavallavirkjun verði nýtt í þessu skyni og að um það hafi verið gerð samningsdrög og á þeim forsendum eru menn farnir að undirbúa framkvæmdir þar.

Ég bendi á, hæstv. forseti, að það er mikilvægt að hafa það í huga að með samningnum um Nesjavallavirkjun er verið að breyta verðjöfnunarstefnunni sem hefur verið hrygglengjan í orkupólitíkinni á Íslandi. Þetta segi ég verandi þingmaður Reykvíkinga vegna þess að Reykvíkingar hafa vanið sig á það að reyna að horfa til landsins alls og það eiga þingmenn Reykvíkinga að gera.

Ég held að veruleikinn sé sá, hæstv. forseti, að þessi mál séu öll á mjög mikilli hreyfingu. En til viðbótar koma svo þau tíðindi, sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson vitnaði þráfaldlega til hér áðan, að verið er að undirbúa aðild Íslands að orkutilskipun Evrópu sem getur haft einhverjar breytingar í för með sér en þó miklu minni en hv. þm. Sighvatur Björgvinsson ræddi áðan og hæstv. iðnrh. hefur einnig gert á opinberum vettvangi. Þess vegna hefði ég talið, hæstv. forseti, að skynsamlegt væri að vinna þannig að málinu að um það skapaðist sem best og víðtækust sátt í þjóðfélaginu meðal flokkanna og annarra aðila en það hefur ekki verið gert.

Kem ég þá að þessu frv. sem hér liggur fyrir og efni þess og segi í fyrsta lagi: Ég tel að nefndin sem vann að þessu máli fyrir eignaraðilana með ágætum einstaklingum innan borðs hafi ekki verið hyggilega skipuð miðað við það að menn ætluðu að ná samstöðu. Í þeim efnum geta menn gagnrýnt bæði ríki, Reykjavíkurborg og Akureyri en ég tel að það hafi ekki verið hyggilega að þeim málum staðið og það viðurkenna allir sem koma að þessu málum og þekkja til þeirra, bæði hjá borg, ríki og Akureyri að það hefði þurft að standa öðruvísi að málinu. Ráðherrann kaus hins vegar að keyra þetta í þrengsta farvegi stjórnarflokkanna þrátt fyrir að boðið væri upp á annað og ég harma það því að þetta er alvörumál sem við erum að tala um.

Efni niðurstöðunnar er svo það, hæstv. forseti, að Reykjavík vill fá það á hreint hvað eignarhlutur Reykjavíkur gefur í þessu fyrirtæki. Ég tel eðlilegt að Reykjavík vilji fá það á hreint. Það er farið af stað með tiltekna vinnu og niðurstaðan verður sú að stefnt er að arðgjöf og að arðgjöf eigin fjár verði að jafnaði milli 5--6% á ári. Það er stefnt að því að gjaldskráin verði svo óbreytt til ársins 2000 og lækki svo um 2--3% á ári frá 2001--2010. Síðan eru settar tilteknar reglur um útreikning arðs og forsendur hans og settar eru tilteknar reglur og sérreglur um Akureyri. Ég hefði viljað spyrja hæstv. ráðherra í leiðinni: Hvaða rök eru fyrir sérreglum um Akureyri í þessum drögum? Um þessi mál ætla ég að fjalla aðeins seinna í ræðu minni en segja við hæstv. ráðherra: Ef hann hefði viljað vinna þannig að málum hygg ég að hægt hefði verið að komast alllangt með þessa hluti ef hann hefði viljað án þess að breyta lögum. Það hefði verið hægt að nálgast þær breytingar sem hæstv. ráðherra er að gera tillögur um varðandi arð, verðlag og fleira án þess að breyta lögum. Það er mikið umhugsunarefni og ég hlýt að spyrja hæstv. ráðherra, af hverju kannaði hann a.m.k. ekki fyrst hvort unnt var að ná samstöðu um eitthvað í líkingu við þetta á vettvangi stjórnar fyrirtækisins áður en hann kom með málið inn í þingið með þeim hætti sem hann gerði.

Nú er ég ekki að segja að hægt hefði verið að samþykkja þessa hluti nákvæmlega eins og þeir liggja fyrir. En það er alveg ljóst að miðað við núgildandi lög og það vald sem stjórnin hefur í dag hefði verið hægt að ná þessu að óbreyttum lögum. Ég ætla að spyrja ráðherrann: Vantreystir hann fulltrúum stjórnarflokkanna eða úr stjórnarflokkunum í stjórn Landsvirkjunar? Vantreystir hann þeim? Treystir hann þeim ekki til þess að fylgja fram þeirri stefnu sem hann vill greinilega fylgja fram vegna þess að það þarf engar lagabreytingar til þess að taka á þessum málum eins og hann er að gera?

Herra forseti. Til hvers er þá þetta frv.? Ég bið ráðherrann að rökstyðja nauðsyn þess að flytja frv. að því er þetta varðar. Til hvers er þá frv.? Er það bara til að breyta stjórninni? Er það bara til þess að breyta stjórn Landsvirkjunar af því að þar sé um að ræða aðila sem eru honum óþægir ljáir í þúfu? Ég vil spyrja hæstv. ráðherra um þetta: Hver er ástæðan til þess að hann kýs að fara þessa lagaleið í þeim átökum (Iðnrh.: Hvaða átökum?) sem hann vill efna til í trausti þess (Iðnrh.: Hvaða átökum?) að á öðrum vettvangi sýni menn meiri sanngirni en hann hefur tamið sér að gera? Hæstv. ráðherra. Ég vil aðeins nefna það, auk þess sem það er ljóst, að ég hef orðið. Þá munu vera einir 6--8 menn á mælendaskrá þannig að ég geri ekki ráð fyrir því að þeir ætli allir bara að syngja hallelúja en kannski veit ráðherrann það betur en ég.

[17:15]

Í öðru lagi ætla ég síðan, hæstv. forseti, að víkja að skýrslunni sjálfri og þá fyrst því sem fram kemur á bls. 8 um forsendur eiginfjárútreikningsins. Í skýrslunni stendur efst á bls. 8, með leyfi forseta:

,,Með því að beita þeim aðferðum sem hér hefur verið lýst á þær sjóðstreymisáætlanir sem Landsvirkjun hefur látið honum [þ.e. J.P. Morgan] í té kemst bankinn að þeirri niðurstöðu að heildarvirði fyrirtækisins sé 71,8 milljarðar kr. og að virði eigin fjár sé því 24,3 milljarðar kr. þegar búið er að taka tillit til heildarskulda sem eru að fjárhæð 47,5 milljarðar kr.``

Að eiginfjárstaða fyrirtækisins sé 24,3 milljarðar kr. Síðan segir, með leyfi forseta, í skýrslu eignaraðilanna:

,,Ofangreint mat byggist á þeirri forsendu að gjaldskrá fyrirtækisins verði nægilega há til þess að leyfa viðunandi arðsemi eigin fjár að meðaltali til 2010. Þetta þýðir að Landsvirkjun verður að skila mjög hárri arðsemi á árunum eftir 2005 til þess að vega upp á móti lágri arðsemi sem fyrirsjáanleg er á næstu árum miðað við þær gjaldskrárforsendur sem þegar er lýst.``

Ég spyr hæstv. ráðherra: Hver er þessi mjög háa arðsemi? Og ég spyr hann líka: Er hann tilbúinn til þess að leggja fram þær sjóðstreymisáætlanir sem þessar áætlanir eru byggðar á og vitnað er til í upphafi skýrslunnar? Því að það er algerlega óþolandi að svona mikilvægar grunnforsendur málsins séu lokaðar inni í skjóli trúnaðar.

Ég bendi einnig á það, hæstv. forseti, að á síðu 12 í skýrslunni segir svo:

,,Ekki hefur verið gerð nákvæm athugun á því hvernig eigið fé skiptist á milli ofangreindra þátta. Hins vegar hefur endurskoðandinn reiknað út að eigendaframlögin hafi numið um 7,2 milljörðum kr. á árslokaverðlagi 1995 metin með byggingarvísitölu og að árleg raunávöxtun eigin fjár eigenda Landsvirkjunar hafi því verið 5,42% ef miðað er við að unnt sé að selja fyrirtækið fyrir upphæð sem jafngildir bókfærðu eigin fé.``

Hvað segir svo endurskoðandinn um þetta? Hann segir, með leyfi forseta:

,,Að mati endurskoðandans er unnt að leiða rök að því að ofangreind meðaltalsávöxtun sé fullhá miðað við rekstrarafkomu fyrirtækisins á undanförnum áratugum.``

Fullhá miðað við hvað? Ég segi, hæstv. forseti: Hvaða vísindi eru nú þetta? Hvaða vísindi eru nú þetta sem eru þannig að annars vegar kemur það út úr bókum fyrirtækisins og sjóðstreymisáætlunum að eignin sé 25 milljarðar en hins vegar kemst hann að þeirri niðurstöðu að hún hljóti að vera í kringum 14 milljarðar eftir að menn hafa bætt 3% vöxtum ofan á byggingarvísitöluhækkun eiginfjárframlaganna frá upphafi og stofnun fyrirtækisins? Ég segi: Undirstaðan undir þessum arðsemisútreikningum sem hér er verið að gera tillögu um er slumpreikningur sem er ólíðandi af því að hér eru menn að hreyfa til milljarða kr.

Ég tek fram, hæstv. forseti, að ég byggi m.a. á viðtölum sem ég hef átt við fjölda endurskoðenda sem telja að þessi vinnubrögð séu ekki nægilega fagleg af hálfu þeirra sem unnu fyrir eigendanefndina.

Ég held að það sé líka nauðsynlegt í þessu sambandi að gera kröfu til þess að við meðferð málsins í hv. iðnn. verði farið mjög rækilega yfir eignamyndun í Landsvirkjun frá upphafi, alla eignamyndun, virkjanirnar, hver átti hvað og hver lagði hvað fram. Það verður að vera alveg skýrt hvað menn eru þar að tala um. Ég held með öðrum orðum að það sé mikið starf sem bíður hv. iðnn. ef hún á að vinna þessa hluti eðlilega og málefnalega eins og henni er skylt að gera.

Ég vil síðan í þriðja lagi, hæstv. forseti, víkja aðeins að stjórn fyrirtækisins og segja: Hér er gerð tillaga um að breyta henni. Mér þykir slæmt að hér skuli ekki vera hv. 1. þm. Reykn., hæstv. forseti Alþingis, því að fyrir nokkrum dögum flutti hann ræðu um nauðsyn þess að Alþingi hefði eftirlitsvald með ríkisfyrirtækjum. (Gripið fram í: Þeim sem eru í eigu.) Að Alþingi hefði eftirlitsvald með ríkisfyrirtækjum (Gripið fram í: Ekki með sjálfu sér?) Að Alþingi hefði eftirlitsvald með ríkisfyrirtækjum og benti á að á tímum þeirra breytinga sem eru að ganga yfir hjá einstökum aðilum, ríkisfyrirtækjum, þá sé nauðsynlegt að setja um þetta skýr ákvæði. Og það fóru mjög margir hv. þm. upp í ræðustólinn á eftir hæstv. forseta og lýstu stuðningi við þetta sjónarmið hans. Ég ætla að benda á það, hæstv. forseti, að í fyrsta lagi er verið að taka beina fulltrúa Alþingis út úr stjórninni. Það kann að hafa sín rök. Ég hef ekki langa reynslu af því að sitja í stjórn Landsvirkjunar, en ég segi það alveg eins og er að ég óttast að þeir sem koma þarna inn sem fulltrúar eignaraðilanna eins og þeir væru af hálfu framkvæmdarvaldsins, borgarinnar og Akureyrar, mundu líta á það sem höfuðskyldu sína að dæla arði út úr fyrirtækinu. Ég óttast að það verði enginn á vakt fyrir hina almennu raforkunotendur í landinu ef Alþingi væri tekið út í þessu dæmi. Ég óttast það. Og ég spyr hæstv. ráðherra, hvort hann eigi einhver önnur svör við þessu máli en glottið því það skiptir máli að þarna séu einhverjir sem tala máli hins almenna raforkunotanda.

Í öðru lagi bendi ég á að fyrir utan það að breyta stjórninni --- látum það nú vera að menn ætli að fella stjórnina undir þetta tækniræði sem er að yfirtaka þjóðfélagið, látum það vera --- er það svo ótrúlegt að heimild til þess að eignaraðilarnir tilnefni endurskoðendur til að endurskoða reikningana er felld út líka. Í 7. gr. frv. er lögð til breyting á 12. gr. laganna þannig að þessi ákvæði fari út: ,,Enn fremur er eignaraðilum hverjum um sig heimilt að tilnefna endurskoðanda til að endurskoða reikningana.`` Þessi málsliður er ekki í frv. Af hverju er verið að taka Ríkisendurskoðun og hugsanlega Borgarendurskoðun út úr frv.? Hvaða hugsun er á bak við það? Að manni læðist sá grunur að menn vilji ekki hafa yfir höfði sér þá krítísku endurskoðun sem gæti hugsanlega falist í því að hafa þessar stofnanir þarna inni. Ég tel reyndar að ef það verður niðurstaða þingsins að taka stjórnina út, að því er varðar kosningu Alþingis, þá eigi jafnframt að setja inn ákvæði um beina heimild fyrir Ríkisendurskoðun til að skoða þetta fyrirtæki. Ríkisendurskoðun á að hafa beinan aðgang að fyrirtækjum af þessu tagi þar sem ríkið á svona stóran hlut.

Nú geta menn sagt sem svo: ,,Það er þannig að Ríkisendurskoðun hefur samkvæmt sínum lögum þessa almennu heimild eins og sakir standa.`` Já, það hefur hún þegar um er að ræða endurskoðun sem leiðir af endurskoðun á öðrum ríkisfyrirtækjum. Það er ekki um það að ræða að Ríkisendurskoðun geti í dag farið beint inn í fyrirtæki eins og t.d. Landsvirkjun og ákveðið að endurskoða hana, hvorki ein né í samvinnu við borgarendurskoðun. Ég tel að ef menn ætla að létta eftirliti Alþingis af þessu með því að breyta stjórnarkjörinu, þá eigi menn að vera með Ríkisendurskoðun þarna inni.

Í þriðja lagi varðandi breytingar á stjórninni þá óttast ég það eins og ég sagði áðan að arðgreiðslan verði aðalatriðið en hagsmunir raforkukaupenda aukaatriði.

Í fjórða lagi segi ég líka, hæstv. forseti, í sambandi við þessa breytingu og spyr hæstv. ráðherra: Hver eru rökin fyrir fækkun ríkisfulltrúanna eða breytingunni á ríkisfulltrúum? Hver eru rökin? Ég vil fá einhver rök önnur en þau að það eigi að breyta þessari stofnun í eitthvert hlutafélagalíki. Ég vil fá einhver önnur rök en þau. Það eru engin önnur rök sem liggja hér fyrir. Hvaða rök eru það? Ég er tilbúinn til að hlusta á þau þó þau hefðu ekki komið hér áðan sem þau hefðu náttúrlega átt að gera.

Í fimmta lagi verð ég að segja það alveg eins og er að ég óttast að ef menn breyta stjórnskipulagi fyrirtækisins, eins og verið er að tala um hér, geti það haft í för með sér að minni friður verði um Landsvirkjun en verið hefur. Ég ætla að benda á eitt dæmi, hæstv. forseti. Á síðasta þingi var samþykkt frv. til laga um orkusölu til stækkaðs álvers í Straumsvík. Við þær umræður létu menn sig hafa það að orkuverðið til fyrirtækisins kæmi ekki upp á borðið hér í umræðum m.a. með þeim rökum að Alþingi ætti aðgang að þeim annars staðar, t.d. í stjórn Landsvirkjunar. Ég segi, hæstv. forseti: Verði sú leið farin sem hér er gerð tillaga um er algerlega óhjákvæmilegt, þegar að því kæmi að gera þyrfti nýja stóriðjusamninga, að gerðar yrðu stífar kröfur um að orkuverð til nýrrar stóriðju kæmi til meðferðar á Alþingi með algerlega opnum hætti. Þegar svo er að Alþingi er ekki lengur treyst til þess að kjósa fulltrúa þarna inn, Alþingi er ekki lengur treyst til þess að láta Ríkisendurskoðun skoða fyrirtækið, þá er það algert lágmark að þannig verði á hlutunum haldið, þ.e. að verð til stóriðju yrði opið og það yrði opnað fyrir það hér.

Ég held, hæstv. forseti, að þessi breyting á stjórninni orki tvímælis, en það er mál sem ég út af fyrir sig er alveg tilbúinn til þess að skoða og mér finnst alls ekkert aðalatriði í þessu máli. Þó segi ég að það má ekki svipta Alþingi eftirlitsmöguleikum sínum. Ég mundi leggjast gegn þessari breytingu nema menn féllust á að taka Ríkisendurskoðun þarna inn sem eftirlitsaðila.

Að lokum, hæstv. forseti, af minni hálfu. Spurningin er þessi: Hvað á að gera við Landsvirkjun? Ég get tekið undir það með hv. þm. Sighvati Björgvinssyni að ég væri tilbúinn til að standa að því að setja inn bráðabirgðaákvæði í þetta frv. við meðferð málsins í hv. iðnn. um að skoða þessi mál mikið nánar en þegar hefur verið gert. Mér finnst reynslan af þeirri skoðun sem fram hefur farið ekki vera góð og mér finnst ágæt hugmynd hjá hv. þm. að kanna hvort hægt er að ná samstöðu um einhverjar formúlur í þeim efnum um iðnn.

Ég tel að þetta frv. taki ekki á vanda Landsvirkjunar. Það leysir engan vanda í sjálfu sér. Ég óttast að það skapi vanda. Ég held að það þurfi hins vegar að skoða nýjar leiðir. Ég tel ekki að í þeim efnum eigi menn að horfa einvörðungu á hlutafélagavæðingu sem ég útiloka þó ekkert fyrir mitt leyti. Ég tel að deilan um eignarhald á fyrirtækjum af þessu tagi eigi ekki að snúast um form heldur um markmið fyrirtækisins. Niðurstaðan núna er sú að ekki sé skynsamlegt að reyna að selja ríkishlutann eða borgarhlutann af því að enginn sé til að kaupa hann. Það er eiginlega niðurstaðan og þá eiga menn auðvitað að horfast í augu við það eins og það er.

En hvað á þá að gera, af því að það er ekki sátt um fyrirtækið eins og það er? Hvað á þá að gera? Eitt atriði hefur ekki verið nefnt hér svo ótrúlegt sem það nú er og það er sú staðreynd að Landsvirkjun hefur sjálf þegar tekið ákvörðun um að aðskilja algerlega bókhaldslega framleiðslu og dreifingu. Það er gríðarlega mikilvægur þáttur þannig að Landsvirkjun hefur sjálf ákveðið að laga sig að nýju rekstrarumhverfi og það gerir Landsvirkjun án þess að fá um það fyrirskipun ofan úr iðnrn. Það er ákvörðun sem fyrirtækið tekur sjálft.

En í annan stað eiga menn að velta því fyrir sér, hæstv. forseti, hvernig á að vera háttað í framtíðinni samskiptum Landsvirkjunar og t.d. Rafmagnsveitna ríkisins. Er það svo að þau mál eigi að vera eins og þau eru? Á að skilja þar öðruvísi á milli, t.d. með því að verðjöfnunin fari í gegnum stofnlínukerfi sem verði í eigu sjálfstæðs fyrirtækis, eða hvað? Eða á að sameina Landsvirkjun og Rafmagnsveitur ríkisins og halda þannig á málum að þar verði algerlega aðskilið bókhald, en að öðru leyti verði fyrirtækin kannski að einhverju leyti sameinuð?

[17:30]

Í þriðja lagi hljóta menn að velta því fyrir sér hvort skynsamlegt er að vera með svona stóra neytendur í fyrirtækinu eins og Reykjavík og Akureyri. Menn hljóta að velta því fyrir sér hvort það gæti ekki verið alveg eins skynsamlegt fyrir Landsvirkjun, fyrir þjóðina, Reykjavík og Akureyri og ríkið að þetta væri þannig að ríkið eitt eða einhverjir á þess vegum, hverjir sem það væru, hefðu með þetta fyrirtæki að gera og ættu það. Vandi Reykjavíkur í því að reka svona fyrirtæki er mjög mikill. Reykjavík er svo stór neytandi og þess vegna getur verið erfitt fyrir Reykjavík að taka þátt í þessu fyrirtæki með venjulegum hætti og þess vegna skil ég alveg þau sjónarmið sem hafa komið fram hjá Reykjavíkurborg að það geti verið eðlilegt að Reykjavík losi sig út úr fyrirtæki af þessu tagi, selji það jafnvel í hendur ríkisins og hið sama eigi við um Akureyri.

Herra forseti. Ég held satt best að segja að staðan núna bjóði upp á flækju og vesen og ég gagnrýni ráðuneytið fyrir það að hafa ekki tekið á því máli.

Ég spyr mig líka, hæstv. forseti, ef menn eru engu að síður þeirrar skoðunar að þessir hlutir eigi að vera áfram óbreyttir, þ.e. að borgin eigi að vera þarna inni, Akureyri eigi að vera inni, hvort ekki geti komið til greina að breyta fyrirtækinu enn þá meira. Það sem ég er með í huga er að hafa stofnlínurnar sér og láta verðjöfnunina ganga þar í gegn, vera með almenningsveiturnar sér, almenningsraforkusöluna algerlega sér í sjálfstæðu fyrirtæki og stóriðjusöluna í sjálfstæðu fyrirtæki. Rök mín fyrir þessu eru þau að það að vera með stóriðjusöluna og almenningsrafveiturnar í einu fyrirtæki getur haft það í för með sér að hlutirnir séu ekki nægilega gagnsæir og menn rugli saman hagsmunum almennings og hagsmunum stóriðjufyrirtækjanna. Það valdi tortryggni og leiðindum á milli aðila og þess vegna tel ég að mál eins og þetta eigi að skoða.

Herra forseti. Ég hef farið yfir allmörg efnisatriði málsins. Ég hef farið aðeins yfir stjórnarbreytinguna og hlut Alþingis að þessu fyrirtæki. Ég hef farið yfir hvað ég teldi rétt að gera í sambandi við þessi mál og ég tek fram að þetta eru mínar eigin hugleiðingar sem við höfum út af fyrir sig verið að ræða á vettvangi flokks okkar en við höfum ekki mótað endanlegar hugmyndir um en erum opin fyrir að ræða og teljum þörf á að ræða.

Niðurstaða mín er þess vegna sú, hæstv. forseti, að málið þurfið miklu betri skoðunar við og ég get lýst því yfir fyrir hönd þingflokks okkar að við erum tilbúin til þess að taka þátt í þeirri skoðun.