Landsvirkjun

Fimmtudaginn 21. nóvember 1996, kl. 17:33:17 (1568)

1996-11-21 17:33:17# 121. lþ. 30.4 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur

[17:33]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Málflutningur hv. þm. Svavars Gestssonar í umræðunni dæmir sig að nokkru leyti sjálfur eða þá það að hv. þm. var ekki viðstaddur þá framsögu sem ég flutti með málinu og ætla ég að fara yfir nokkur atriði.

Allar þær forsendur sem eru lagðar til grundvallar við þetta mat byggja á því að breytingar geti átt sér stað eins og á álverði og á gengi og verðlagsþróun verði önnur. Þetta kom allt saman fram í framsögu minni. Ég held að hv. þm. hafi ekki gert það að gamni sínu, en hann reyndi að gera þessa hluti tortryggilega, en gert er ráð fyrir þessu öllu til að breytingarnar geti átt sér stað. Þess vegna byggja þær ákvarðanir sem eigendur fyrirtækisins munu taka um útgreiðslu arðs á því að þær forsendur séu til staðar og á þeim hafi ekki orðið breyting því árlega er tekin ákvörðun um hvort arður skuli greiddur út eða ekki og það hlýtur að byggja á því hver afkoma fyrirtækisins er á hverjum tíma.

Hv. þm. gerði mikið úr því að mikil átök væru í orkumálunum og dró til nokkur sérstök mál. Hann byrjaði á Orkustofnun, þar hefðu verið mikil átök. Það er rangt, hv. þm. Það var nefndarálit sem kom fram um að hugsanlega mætti breyta Orkustofnun. Það var kannað hjá orkufyrirtækjunum hvort menn vildu standa að slíku. Eftir miklar samningaviðræður og umfjöllun á réttum stöðum var niðurstaða mín að rétt væri að gera tillögu um að koma fyrirtækinu, sem er Orkustofnun í dag, í þann farveg sem nú er verið að endurskipuleggja. Það bréf og þær tillögur ritaði ég til stjórnar Landsvirkjunar og það veit ég að hv. þm. veit.

Hv. þm. gerði orkulaganefndina að umtalsefni og ég heyrði það í lok máls hans að hann er sammála meginniðurstöðunni í tillögum orkulaganefndarinnar. Að því var staðið með þeim hætti að í henni eru 20 nefndarmenn valdir frá ýmsum hagsmunaaðilum, allir sammála um meginniðurstöðuna og ég heyri á hv. þm. að hann er líka sammála um meginniðurstöðuna. Það koma athugasemdir frá fjórum aðilum í orkulaganefndinni sem sendar eru iðnrn. en meginniðurstöðuna skrifa allir upp á.