Landsvirkjun

Fimmtudaginn 21. nóvember 1996, kl. 17:35:53 (1569)

1996-11-21 17:35:53# 121. lþ. 30.4 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur

[17:35]

Svavar Gestsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Því miður er ekki kostur á því að fara yfir einstök atriði varðandi forsendur málsins í andsvaratíma en það var alveg greinilegt að hæstv. ráðherra gerði allt sem hann gat til að fegra málið og hann dró aldrei fram þau tíðindi sem eru að gerast t.d. einmitt þessa dagana varðandi hrun á álverði svo ég nefni dæmi. Ég tel að heiðarlegra hefði verið af hæstv. ráðherra að gera grein fyrir málunum öðruvísi en hann gerði en ég hlustaði af athygli á ræðu hans þó að hugsanlegt sé að eitthvað af henni hafi farið fram hjá mér. Ég held þó að svo hafi ekki verið því að ég reyndi að leggja mig eftir því að fylgjast vel með.

Varðandi það, hæstv. forseti, hvort mikil átök eru í orkumálunum held ég að það verði að viðurkenna að svo sé og ég tel að staðan sé þannig að mikil ókyrrð sé í kringum orkubúskapinn á Íslandi. Það eru miklar áhyggjur af þeim málum, sérstaklega á landsbyggðinni en einnig miklu víðar. Ég gæti t.d. nefnt í því sambandi þá ókyrrð sem er í sambandi við Hitaveitu Suðurnesja, ég get nefnt í því sambandi þá ókyrrð sem var bersýnilega í kringum orkulaganefndina og ég gæti nefnt þá ókyrrð sem var í kringum Orkustofnun. Ég held því að ekki sé nokkur leið önnur en að halda því fram, hæstv. forseti, að hæstv. iðnrh. hefði mátt vanda sig aðeins betur í þessum málum. Ég held að það sé þannig.