Landsvirkjun

Fimmtudaginn 21. nóvember 1996, kl. 17:41:45 (1572)

1996-11-21 17:41:45# 121. lþ. 30.4 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., StB
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur

[17:41]

Sturla Böðvarsson:

Virðulegi forseti. Það frv. sem er til umræðu varðar eitt af okkar allra mikilvægustu fyrirtækjum, þ.e. Landsvirkjun. Ég byrja á því í umræðunni að þakka hæstv. iðnrh. fyrir ágæta framsögu fyrir þessu frv. og vasklega framgöngu eins og hans er von og vísa við að vinna að þeim málum sem stjórnarflokkarnir leggja áherslu á, m.a. að efla orkufyrirtækin og styrkja stöðu okkar á þeim vettvangi. Á það höfum við vissulega lagt ríka áherslu.

Það frv. sem er til umfjöllunar er út af fyrir sig með þeim hætti að ég geri ekki athugasemdir við frv. Ég tel að þær breytingar sem frv. gerir ráð fyrir á skipulagi Landsvirkjunar séu liður í þeim breytingum sem eru nauðsynlegar og ásættanlegar þó að aðdragandi og undirbúningur þessa frv. og það samkomulag eignaraðila sem það byggir á sé með þeim hætti að ég hef gagnrýnt það nokkuð og er út af fyrir sig ekkert um það að segja. Ég vil samt taka fram vegna þess sem hæstv. ráðherra sagði undir lok ræðu sinnar þegar hann talaði um að ekki hefði verið haft samráð við stjórn Landsvirkjunar um þær breytingar sem hér er verið að leggja til og að út af fyrir sig þurfi ekki á því að halda að ég get tekið undir það. Það er allt saman eðlilegt. Stjórn Landvirkjunar hefur ekkert sérstaklega með þessi skipulagsmál að gera en ég vil samt segja að ég tel að það skipti hins vegar geysilega miklu máli að bærilega sé haldið á spilum í stjórn Landsvirkjunar, bæði varðandi það að halda fram hagsmunum fyrirtækisins í erfiðum viðskiptaheimi orkumálanna en ekki síður að standa þannig að málum að sátt geti ríkt um þetta fyrirtæki.

Þá er komið að mjög mikilvægum þætti sem er verðlagning og möguleikar fyrirtækisins til þess að lækka orkuverðið til innanlandsneyslunnar sem er það deiluefni sem hefur verið og verður væntanlega og er út af fyrir sig ekkert óeðlilegt þó að deilt sé um verðlagningu á þeirri afurð, sem er raforkan, eins og öðru. Ég tel samt að það skipti út af fyrir sig ekki mjög miklu máli hvernig stjórn fyrirtækisins er skipuð, hvort hún er kosin hér á Alþingi eða hvort iðnrh. skipi stjórnina. Aðalatriðið er að þarna sé vel unnið. Ég vil undirstrika að ég styð það frv. sem hér er til umfjöllunar.

[17:45]

Landsvirkjun var stofnuð 1965 og er ekkert óeðlilegt þó að nú sé kominn tími til að huga að einhverjum breytingum. Hlutum hefur verið breytt á skemmri tíma en það. Fyrirtækið var stofnað með það fyrir augum að koma á fót öflugu raforkufyrirtæki allra landsmanna þannig að hægt væri að standa bærilega í fæturna við það erfiða og vandasama og mikilvæga viðfangsefni sem er að nýta okkar vatnsorkulindir og reyna að ná samningum til þess að selja þá orku til iðnaðar, byggja þannig upp okkar atvinnulíf og efla hagsæld í landinu. Þetta hefur verið viðfangsefnið og hlýtur að verða viðfangsefni þess fyrirtækis.

Eins og ég sagði fyrr skiptir á hinn bóginn geysilega miklu máli að um þetta fyrirtæki geti ríkt bærileg sátt í landinu. Hvers vegna getur ríkt ósátt? Það er fyrst og fremst ef okkur tekst ekki að halda þannig á málum að orkuverðið í landinu sé viðunandi eftir svæðum. Lítum nú aðeins á það hvernig þetta er í dag.

Það er ekkert óeðlilegt að orka til húshitunar sé mjög mismunandi. Mesti munurinn liggur í því að sums staðar hafa byggðarlög verið svo lánsöm að búa nærri jarðhita þannig að virkjanlegur sé og þar með hægt að ná orku til byggðanna á mjög hagstæðu verði. Hins vegar liggur vandi margra byggða í því að eiga ekki annarra kosta völ en kaupa raforku m.a. til húshitunar. Og ef við lítum á hvað er verið að tala um þarna og hvers vegna menn eru að deila þá getum við nefnt tölur. Ef hæstv. iðnrh. byggi nú í sinni gömlu byggð, Vík í Mýrdal, og væri í 300 rúmmetra íbúðarhúsi þar, þá þyrfti hann að greiða, miðað við það að hann keypti raforku frá Rafmagnsveitum ríkisins, 70% hærri orkureikning af sambærilegu húsi en gert er í höfuðborgarsvæðinu. Auðvitað er það Hitaveitu Reykjavíkur og þeirri framsýni sem Reykvíkingar sýndu að þakka, en engu að síður er það þannig að stjórnendur orkumála, stjórnendur Landsvirkjunar og dreifiveitnanna verða að taka tillit til þessara staðreynda. Ef á hinn bóginn litið er til almennrar raforkunotkunar heimilanna þá er þessi munur hjá hæstv. iðnrh., ef hann byggi í sinni gömlu byggð en ekki í borginni, þyrfti hann að greiða 14% hærra raforkuverð til þess að sjóða sínar kartöflur, eins og margir þurfa að gera, en íbúar hér á höfuðborgarsvæðinu. Þetta er það umhverfi sem við búum við og þetta eru þær staðreyndir sem valda áhyggjum margra þegar verið er að gera breytingar á skipulagi Landsvirkjunar. Þetta eru þau atriði sem kjósendur mínir a.m.k. lýsa fyrir mér sem mikilvægu hagsmunamáli sem við þingmenn hljótum að líta til þegar verið er að fjalla um Landsvirkjun.

Ég nefndi það áðan að auðvitað þurfum við að endurskoða löggjöf sem varðar Landsvirkjun, löggjöf sem varðar orkuvinnslu, dreifingu og það allt saman og líta til þess með hvaða hætti má betur gera. Stór og mikil nefnd hefur starfað á vegum hæstv. iðnrh. og unnið prýðilegt starf. Hún hefur horft til framtíðar, reynt að meta hvernig þessir hlutir hafa best gerst annars staðar og ég tel að þær tillögur sem þar koma fram í ágætri skýrslu séu með þeim hætti að við hljótum að líta til þeirra og ég lít svo á að það frv. sem hér er til umfjöllunar sé fyrsta skrefið á þeirri leið okkar að nýta markaðskerfið á sviði orkumála eins og best hefur gerst annars staðar. Við hljótum að gera það.

Hins vegar megum við ekki bara ganga til þess verks til þess eins að breyta. Við verðum að stíga hvert skref varlega og vera sannfærð um að árangur verði af breytingunum sem við göngum til. Þess vegna er þetta frv. m.a. til umfjöllunar en e.t.v. fyrst og fremst vegna þess að það komu fram kröfur frá Reykjavíkurborg og frá bæjarstjórn Akureyrar um að teknar yrðu upp viðræður milli eignaraðila. Það sem hér hefur verið að gerast síðan á þessu sviði má segja að séu afleiðingar þeirrar kröfu borgarstjórnarmeirihlutans í Reykjavík að auka arð sinn af eign í Landsvirkjun en selja hlut sinn ella.

Viðbrögð hæstv. iðnrh. voru eðlileg að efna til viðræðna við þessa eignaraðila en ég tel að þrátt fyrir það að miklir ágætismenn hafi verið tilnefndir af hálfu ríkisstjórnarinnar til þess að ganga í þetta erfiða verk þá er það mín skoðun með fullri virðingu fyrir þeim ágætu mönnum sem iðnrh. og fjmrh. tefldu fram að það hefði verið nauðsynlegt að í þessari viðræðunefnd af hálfu ríkisins væru aðilar sem bæru pólitíska ábyrgð. Þessir ágætu embættismenn sem fengu þetta erfiða viðfangsefni voru að ganga inn í viðræður við fjóra einhverja harðsnúnustu talsmenn sveitarfélaga sem um getur og mín niðurstaða þegar ég lít til þessa samkomulags er sú að fulltrúar ríkisvaldsins hafi orðið undir í þessum viðræðum. Hvers vegna segi ég það? Jú, ég met það þannig að þegar ég lít á niðurstöðu af þessu samkomulagi sem frv. byggist á og ég geri ráð fyrir að hæstv. iðnrh. leggi mikið upp úr að nái fram að ganga, þá er það þannig að stöðugt hefur verið rætt um það, m.a. í stjórn Landsvirkjunar, svo ég leyfi mér að nefna þá ágætu stjórn, að frá og með árinu 2001 beri að stefna að 3% lækkun á raforkuverði til almenningsrafveitna. Hver er niðurstaðan af þessu samkomulagi þegar búið er að ná samkomulagi um það að greiddur skuli 5,5% arður eftir frekari ákvörðun stjórnarinnar? Niðurstaðan er að það skuli slegið af þessum fyrirætlunum, það skuli slegið af þeirri stefnu að lækka raforkuverðið um 3%, í 2--3%. Og í þessu sambandi skiptir geysilega miklu máli hvort raforkuverðið lækkar um 2% eða 3% eins og hér hefur komið fram fyrr í þessari umræðu. Þess vegna tel ég að fulltrúar sveitarfélaganna, þeirra eignaraðila sem leggja mjög mikið kapp á að ná auknum arði út úr þessu fyrirtæki, hafi náð þessum árangri.

Auðvitað hlýt ég að vekja athygli á þessu jafnframt því að segja að ég styð það frv. til breytinga á skipulagi Landsvirkjunar sem hér er verið að fjalla um. Það er tvennt ólíkt. Það er ekki sami hluturinn og ég tel að þrátt fyrir þetta samkomulag þurfi að ganga til þess verks með einum eða öðrum hætti að tryggja að það markmið að lækka raforkuverðið um 3% en ekki 2--3% náist. Það er grundvallaratriði í mínum huga. Hvernig það verði gert verður væntanlega að ná samkomulagi um hér.

Annað sem ég vil nefna í þessu sambandi og gerir þessa stöðu alla erfiðari er samningurinn sem gerður var við Reykjavíkurborg um virkjun á Nesjavöllum. Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um hann. Hann er ekki til umræðu út af fyrir sig en ég tel að framganga meiri hlutans hjá Reykjavíkurborg í þeim samningum hafi verið með þeim hætti að mjög erfitt var um vik hjá samningamönnum Landsvirkjunar vegna þeirrar stöðu sem þar var staðið í. Þeir samningar, sem þýðir ekki að fást um úr því sem komið er, auðvelda þetta verk ekki og gera það erfiðara fyrir Landsvirkjun að ná þessu marki um lækkun á raforkuverðinu. En nú þurfum við auðvitað að vera bjartsýn og horfa til þess að okkur takist að virkja meira, að selja meira af raforku þrátt fyrir þá stöðu sem við höfum verið í, stöðugri vörn.

Ég tek undir það með hæstv. iðnrh. að kyrrstaðan er rofin, sem betur fer, og hann er mikill lukkunnar pamfíll að fá það ánægjulega verkefni að fást við iðnaðarmálin þegar betur árar og vissulega hefur hann allan minn stuðning til þeirra verka sem hann þarf að vinna á þessum vettvangi svo að hagsæld okkar megi verða betri. (ÖS: Er þetta ekki honum að þakka?) En til þess að það megi verða, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, þá þarf að tryggja það að meðeigandi ríkisins í Landsvirkjun, þ.e. m.a. Reykjavíkurborg gangi ekki allt of harkalega fram í því að njóta betri og meiri réttinda en aðrir. Og það er auðvitað mergurinn málsins, við þurfum að ná sátt, við þurfum að ná samkomulagi um þessi mál og ég treysti hæstv. iðnrh. til að hugleiða þessi mál rækilega eftir þá umræðu sem hér hefur farið fram og sjá til þess að svo verði.