Landsvirkjun

Fimmtudaginn 21. nóvember 1996, kl. 17:57:24 (1573)

1996-11-21 17:57:24# 121. lþ. 30.4 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur

[17:57]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég deili að vissu leyti áhyggjum mínum með hv. þm. Sturlu Böðvarssyni í þeim efnum að okkur þarf að miða betur fram á við til að ná fullkominni jöfnun orkuverðs í landinu öllu. Tilgangurinn með skipun orkulaganefndarinnar var einmitt sá að ná fram aukinni jöfnun á orkuverði í landinu og ég tel að uppi séu tillögur um það frá nefndinni og þegar fram líða stundir muni okkur takast það. En ég tel líka að við séum með þeim tillögum sem hér liggja fyrir að stíga rétt skref í þá átt.

Það eru lagðar ákveðnar forsendur fyrir því að hægt sé að þetta samkomulag ríkisins, Reykjavíkurborgar og Akureyrar gangi eftir. Að því stefnt að halda óbreyttu orkuverði að raungildi fram til ársins 2000. Að því stefnt að lækka orkuverð um 3% að raungildi frá 2001--2010. Við það er miðað að um 2% árleg eftirspurnaraukning verði á almenna markaðnum. Gengið er út frá því að verðbólga verði 3% og að þeir stóriðjusamningar sem nú eru í gildi skili ákveðnum tekjum miðað við ákveðnar forsendur.

Nú kann auðvitað svo að fara að þessar forsendur breytist og það fór ég rækilega yfir í minni ræðu áðan. Álverð breytist, verðlagsbreytingar verði aðrar en gert er ráð fyrir, gengisbreytingar verði sem hafi áhrif á rekstur fyrirtækisins. Þá þýðir þetta einfaldlega það að þegar eigendur fyrirtækisins þurfa að taka ákvörðun um útgreiðslu á arði hjá fyrirtækinu á ársfundi hverju sinni þá verður að taka tillit til afkomu fyrirtækisins á hverjum tíma. (Forseti hringir.) Og hafi þessar forsendur allar breyst þá er auðvitað ekki hægt að gera ráð fyrir því að greiddur verði arður úr fyrirtæki sem er verulega að tapa.

Það er hins vegar rétt að ef arðurinn er greiddur út munu Reykjavíkurborg og Reykvíkingar njóta, Akureyringar munu njóta. (Forseti hringir.) Ég er þeirrar skoðunar að það eigi þess vegna að ráðstafa arði Landsvirkjunar eða sambærilegri upphæð til aðgerða á þeim stöðum í landinu sem ekki munu njóta arðgreiðslnanna frá Landsvirkjun.