Landsvirkjun

Fimmtudaginn 21. nóvember 1996, kl. 18:00:08 (1574)

1996-11-21 18:00:08# 121. lþ. 30.4 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., StB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur

[18:00]

Sturla Böðvarsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er sammála hæstv. iðnrh. um allt sem hann sagði og það er vissulega rétt að hafa þarf allan fyrirvara. Forsendur þurfa að standast sem gefnar eru þegar lagt er af stað. Ég vil sérstaklega fagna þeirri yfirlýsingu hans að það beri að nýta þann arð sem ríkissjóður kann að fá til sérstakra aðgerða á þeim svæðum sem ekki njóta arðs frá sveitarfélögunum. En ég óttast hins vegar að þetta verði mjög harðsótt leið. Ég óttast það vegna þess að margar eru matarholurnar hjá blessuðum ríkissjóði en vissulega fagna ég þeirri yfirlýsingu engu að síður og er reiðubúinn til, eins og kom fram í ræðu minni, að standa við bakið á hæstv. ráðherra um þær aðgerðir hans og ríkisstjórnarinnar að ná fram þessum markmiðum.