Landsvirkjun

Fimmtudaginn 21. nóvember 1996, kl. 18:04:22 (1577)

1996-11-21 18:04:22# 121. lþ. 30.4 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur

[18:04]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Það var um margt athyglisvert að hlusta á hv. þm. Sturlu Böðvarsson frá Vesturl. og ég skil vel þær áhyggjur sem hann túlkaði í sínu máli. Mér finnst hins vegar að hann dragi kannski ekki af þessu þær ályktanir sem eðlilegt væri miðað við þær áhyggjur sem hann viðraði. Hann fann að því að hæstv. ráðherra hefði sett embættismenn sem ekki hefðu gætt til allra átta, ekki horft til veðurs þegar þeir voru að glíma við hina harðdrægu fulltrúa sveitarfélaganna. Það er mjög alvarlegt mál og mjög alvarleg ásökun sem kemur fram í þessu. En mér sýnist að hv. þm. hafi nokkuð til síns máls um það miðað við niðurstöðuna. Og hann nefnir það, virðulegur forseti, að ríkið hafi staðið frammi fyrir tveimur kostum: Að sveitarfélögin seldu hlut sinn eða fallist yrði á kröfu þeirra um tilteknar arðgreiðslur. Ég vil spyrja hv. þm.: Hvarflaði ekki að honum að það gæti verið hin rétta leið í málinu? Að bregðast við þessari kröfu með því að ríkið byðist til að leysa inn eignarhlut þessara fyrirtækja til að styrkja stöðu almennra fyrirtækja, sem sagt Landsvirkjunar og þau almennu sjónarmið sem gæta ber? Það væri fróðlegt að heyra svar við því, sem og hitt: Hvernig telur hv. þm. að í raun verði tryggt, með samþykkt þessa frv. og þeirri stefnu sem uppi er að öðru leyti, að hægt verði að ná frekari verðjöfnun í landinu en að málin þróist ekki til verri vegar eins og mér sýnist allt benda til?