Landsvirkjun

Fimmtudaginn 21. nóvember 1996, kl. 18:11:16 (1580)

1996-11-21 18:11:16# 121. lþ. 30.4 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., StB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur

[18:11]

Sturla Böðvarsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Vegna orða hv. 4. þm. Austurl. vil ég taka fram að ég tel að ekki hefði verið neitt sérstaklega skynsamlegt að ganga til viðræðna t.d. við höfuðborgina og bjóðast til að kaupa eignarhlut borgarinnar í Landsvirkjun. Afstaða mín byggist á því að ég tel ekkert óeðlilegt að höfuðborgin, með allt sitt uppsetta afl, svo við tölum nú eins og rætt er um í orkugeiranum, sé svo stór þátttakandi í uppbyggingu orkufyrirtækjanna. Á meðan Sjálfstfl. réð hjá Reykjavíkurborg með meiri hluta, sem vonandi gerist fljótt aftur, var metnaður forustumanna borgarinnar sá að standa þannig að málum að borgin væri í forustusveit og þannig gekk það fyrir sig. Það hafa orðið miklar breytingar eftir að R-listinn tók þar við. Þetta er staðreynd máls. Ég tek alls ekki undir að eðlilegt sé að ríkið kaupi höfuðborgina, svo sterk sem hún er og öflug, út úr þessu samstarfi. Reykvíkingar hafa sýnt mikla fyrirhyggju í sambandi við orkumál og ég tel að þeir eigi að njóta þess að sjálfsögðu en þeir eiga líka að átta sig á því að þeir hafa forustuhlutverki að gegna á þessu sviði sem öðrum og eiga að leggja sitt til og sjá til þess að þjóðin klofni ekki upp út af orkumálunum. Og það á vera metnaðarmál höfuðborgarinnar að standa þannig að málum að þátttaka þeirra í Landsvirkjun sé styrkur Landsvirkjunar en ekki veikleiki.