Landsvirkjun

Fimmtudaginn 21. nóvember 1996, kl. 18:42:09 (1584)

1996-11-21 18:42:09# 121. lþ. 30.4 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur

[18:42]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Þannig er í þessu máli að við höfum báðir rétt fyrir okkur vegna þess að við erum sammála um að nauðsynlegt sé að innleiða samkeppni í orkugeirann. Það hins vegar þarf að gerast í ákveðnum áföngum.

Eins og kemur fram í frv. er gert ráð fyrir því að eignaraðilar Landsvirkjunar hafi endurskoðað rekstrarfyrirkomulag fyrirtækisins fyrir 1. janúar árið 2004. Það kann að vera að sú niðurstaða og sú endurskoðun leiði til þess að opnað verði fyrir fleiri aðila til að koma inn í fyrirtækið. Einmitt á þeim tíma er líka sá möguleiki að búið verði að afnema einkarétt þann sem fyrirtækið hefur í dag til þess að virkja og hleypa fleiri aðilum að til þess að auka samkeppnina. Og ef við erum sammála um að skynsamlegt sé að draga samkeppnina inn í orkugeirann og að það leiði til þess að verð geti lækkað sem ég er sannfærður um, þá erum við sammála um að þetta sé skynsmaleg leið. En þrátt fyrir að ekki sé búið að innleiða samkeppnina, er framlag Landsvirkjunar núna strax um aldamót, verulegt framlag til lífskjarabótar á íslandi.