Landsvirkjun

Fimmtudaginn 21. nóvember 1996, kl. 18:49:56 (1590)

1996-11-21 18:49:56# 121. lþ. 30.4 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., ÁMM
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur

[18:49]

Árni M. Mathiesen:

Herra forseti. Það frv. sem hér er til umræðu er lagt fram í framhaldi af samkomulagi sem eigendur Landsvirkjunar gerðu sín á milli um arðsemi og verðlag á raforku fram á næstu öld og um hvernig stjórnskipan fyrirtækisins skyldi vera. Að mínu mati þarf að samþykkja einungis hluta af þessu frv. til að skilyrðum samkomulagsins verði fullnægt. Þá á ég við þann hluta sem varðar stjórnskipan fyrirtækisins. Eins og lögum er háttað í dag getur stjórn fyrirtækisins ákveðið þann arð sem eigendum er útgreiddur og það eru engin sérstök takmörk á það sett nema hvað sá arður skal reiknaður frá stofni þeirra eiginfjárframlaga sem eigendur hafa lagt inn í fyrirtækið. Það framlag er ekki mjög hátt miðað við þær tölur sem hér hafa verið til umræðu í dag, þannig að ef þær upphæðir sem fyrirhugað er að greiða sem arð á næstu árum væru reiknaðar af þeim stofni þá eru það háar prósentutölur.

Það hefur verið látið að því liggja að þetta frv. væri eitthvað í ætt við einkavæðingu. Svo er ekki, því miður. Það gæti hins vegar verið ef vel tekst til að þetta gæti að einhverju leyti undirbúið það að fyrirtækið yrði einkavætt, gert auðveldara að einkavæða fyrirtækið í framtíðinni, en einkavæðingarfrumvarp er frumvarpið ekki. Það fyrirkomulag á stjórnskipan, sem lagt er til í frv. hefur þær breytingar í för með sér að það eykur til muna áhrif framkvæmdarvaldsins á stjórn fyrirtækisins, þ.e. áhrif iðnaðar- og orkuráðherra. Það dregur að sama skapi úr áhrifum annarra eigenda þeirra sveitarstjórna sem aðild eiga að fyrirtækinu, Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar. Jafnframt dregur það úr áhrifum löggjafarvaldsins, Alþingis, á stjórn fyrirtækisins. Um það má auðvitað deila hvaða fyrirkomulag sé heppilegast á stjórn fyrirtækisins og ég gæti vel ímyndað mér að ef þetta fyrirkomulag hefði verið á stjórn fyrirtækisins á síðustu áratugum hefði því ekki farnast eins vel og því virðist samkvæmt þeim tölum sem fram koma í fskj. með frv. En þessar breytingar eru hins vegar nokkurn veginn í takt við þær breytingar sem verið er að gera á stjórnarfyrirkomulagi annarra þeirra fyrirtækja, sem ríkið á stóra aðild að. Því ætla ég ekki að þessu sinni að gera miklar athugasemdir að öðru leyti en því að óska þess að þetta stjórnskipulag reynist eins farsælt, eins og tölur í fskj. virðast benda til að hið fyrra stjórnskipulag hafi reynst.

(Forseti (GÁ): Ég bið hv. þm. að fækka fundum í salnum.)

Það sem ég vil gera að aðalumræðuefni eru arðgreiðslurnar. Það má hins vegar enginn skilja það svo að ég sé á móti því að eigendur fái greiddan arð af því fé sem þeir hafa lagt í eða eiga í tilteknum fyrirtækjum. Það skiptir hins vegar máli hvernig það eigið fé myndaðist. Forsaga fyrirtækisins Landsvirkjunar skiptir því máli í þessu sambandi.

Það má segja að saga fyrirtækisins nái allt aftur til ársins 1937 þegar Ljósafossvirkjun var tekin í notkun. En Ljósafossvirkjun, Írafossvirkjun og Steingrímsstöð ásamt því starfi sem hafði verið unnið í Búrfellsvirkjun var grunnurinn að Landsvirkjun í upphafi. Allar þessar stöðvar sem ég nefndi á undan sem og Landsvirkjun hafa verið reknar sem svokölluð ,,public utilities`` eða almenningsveitur eða almenningsþjónustuveitur. Slík fyrirtæki eru ekki rekin eða hafa ekki verið rekin eins og hlutafélög. Þau hafa í flestum tilfellum verið rekin nánast á þeim grunni að jafnvægi væri í sjóðstreymi inn og út hjá fyrirtækjunum á hverjum og einum tíma. Enda var það svo og hefur verið svo að öll þessi stóru orkumannvirki hafa nánast eingöngu verið fjármögnuð með lánum. Eigið fé hefur verið sáralítill hluti í fjármögnun þessara bygginga. Síðan hafa lánin verið greidd niður með raforkugjöldum sem neytendur hafa greitt. Því hefur jafnframt verið haldið fram að nauðsynlegt væri að greiða lánin niður hratt og að raforkugjöldin yrðu að vera há til að byrja með, því þegar lánin væru greidd upp þá mundu neytendur njóta mjög lágra orkugjalda um ókomna framtíð því að vatnsaflsvirkjanir væru það næsta við eilífðarvélina. Þær gætu enst áratugi ef ekki árhundruðum saman með réttu viðhaldi. Því skýtur það skökku við að nú ætli menn að krefjast arðs af þessum fyrirtækjum og þeirri eignamyndun sem þar hefur átt sér stað. Mér finnst það vera nánast eins og neytendur væru látnir greiða, ekki bara einu sinni fyrir raforkuna heldur tvisvar sinnum. Fyrst við uppbyggingu mannvirkjana og síðan sem arð af þeirri eiginfjármyndun sem þeir hafa sjálfir greitt með raforkugjöldunum. Ég vil hins vegar ekki segja að ekki sé hægt að breyta almenningsveitu í hlutafélag. Það getur meira að segja verið bæði rétt og skynsamlegt, það sé nútímalegra og passi betur í okkar markaðsbúskap. En þá er grundvallaratriðið að það sé gert á réttan hátt og að gerð sé grein fyrir eiginfjármynduninni sem nákvæmast og að þeir sem eiga rétt á að njóta ávaxtanna geri það en ekki einhverjir aðrir.

Þetta er kannski í flestum tilfellum tiltölulega auðvelt þar sem það eru sömu aðilar sem eiga almenningsveiturnar og hafa greitt notendagjöldin fyrir raforkuna eða heita vatnið, svo dæmi sé tekið úr aðeins öðrum geira. En í tilfelli Landsvirkjunar er það ekki svo. Það eru ekki nákvæmlega sömu eigendur að Landsvirkjun og notendur raforkunnar. Ekki á öll þjóðin hlutfallslega jafnmikið í Landsvirkjun. Þess vegna finnst mér það vera grundvallaratriði að hv. iðnn. sem væntanlega á að fara yfir þetta mál skoði mjög gaumgæfilega hvernig eigið fé hefur myndast og hvernig hægt sé að breyta þessu fyrirtæki í það að skila arði til þeirra sem eru skráðir eigendur á réttlátan og skynsamlegan hátt. Því samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef getað aflað mér þá eru eiginfjárframlögin einungis um 2 milljarðar kr., uppreiknaðir. Eigendaframlögin eru hins vegar 7 milljarðar kr. Þá eru virkjanirnar sem lagðar voru til í upphafi taldar með en þær var búið að greiða niður með raforkugjöldum notenda. Ef reiknaður er síðan arður af 7 milljörðum fæst hinn títtnefndi arðstofn, 14 milljarðar kr. Þá þarf að reikna sjóðstreymið 15 ár fram í tímann eða nota einhverja enn þá flóknari aðferð sem lesa má um í fskj. til að reikna eigið fé Landsvirkjunar upp á 24--26 milljarða. Mér er reyndar sagt af vísum mönnum að ef raforkuverð í Evrópu væri lagt til grundvallar rekstri Landsvirkjunar mundi eigið fé Landsvirkjunar vera á núlli. Vera nákvæmlega eins og ég var að lýsa að almenningsveitur væru tíðast reknar, að jafna innstreymi og útstreymi úr sjóðsbókinni. Ég legg á það ríka áherslu við hv. iðnn. að hún skoði þetta gaumgæfilega og hafi þá jafnframt í huga að fyrirtækið hefur alla tíð búið við de facto einokunar- og einkaleyfisaðstöðu.

[19:00]

Eins og fram hefur komið þá skiptir gjaldskrá fyrirtækisins í framtíðinni gríðarlega miklu máli bæði fyrir afkomu fyrirtækisins og þær tölur sem hægt er að leggja til grundvallar á útreikningi á arði og þess vegna held ég að það þurfi að fara mjög varlega í það að gera breytingar á því hvernig gjaldskrá fyrirtækisins er ákveðin. Eins og það er í dag þá þarf tillögu Þjóðhagsstofnunar eða þjóðhagsstjóra til þess að ákvörðun geti farið fram innan stjórnar Landsvirkjunar en samkvæmt frv. á stjórn Landsvirkjunar að ákveða raforkuverðið einhliða. Ég tel að það sé fullkomlega eðlilegt að það sé verðlagseftirlit með verðlagningu fyrirtækja sem hafa einkaleyfi og einokunaraðstöðu. Það getur vel verið að í hinni nýju hugmynd að stjórnskipun Landsvirkjunar felist þetta verðlagseftirlit og að framkvæmdarvaldið, ráðherrann, ætli sér að beita sínum fulltrúum þremur með fjögur atkvæði til þess að stjórna verðlaginu því eins og fram hefur komið í umræðunum í dag þá mynda þeir með fjórum atkvæðum neitunarvald í stjórn fyrirtækisins. Ef sú er raunin þá þyrfti það að koma fram en þetta væri ekki æskilegasta verðlagseftirlit sem ég gæti hugsað mér. Ég tel jafnframt að ef þetta frv. nær fram að ganga og að arðgreiðslur verða þær í framtíðinni sem samkomulagið segir til um, það þarf að vísu ekki að vera tengt eins og ég sagði áðan, þá verði breytingar á fyrirkomulagi orkuframleiðslu og orkudreifingu í landinu, ekki einhver tímann á næstu öld heldur mjög fljótt. Það eru fleiri fyrirtæki í landinu sem framleiða og dreifa orku en Landsvirkjun og þau hafa verið eins og mýs undir fjalaketti vegna hinar yfirgnæfandi stöðu Landsvirkjunar á markaðinum. Það verður þá að losa um þessi fyrirtæki og gefa þeim frekari heimildir til virkjunar og til dreifingar. Ég vil spyrja hæstv. iðnrh. hvort hann telji að þetta frv. leggi nokkrar hömlur á það að tillögur nefndarinnar, um endurskipulagningu raforkumarkaðar, geti náð fram að ganga fljótt og vel.

Ég held líka að það sé vert að íhuga, fyrir þá sem standa að Landsvirkjun, hvaða áhrif þessar breytingar á arðgreiðslum hafa á afstöðu þjóðarinnar til fyrirtækisins. Ég fór nýlega um hálendið norðan Vatnajökuls til þess að skoða þar hugsanleg virkjunarstæði. Virkjun á þessum slóðum mundi hafa í för með sér gríðarlegan umhverfiskostnað. Ég efast stórlega um að íbúar Austurlands mundu nokkurn tímann sætta sig við að það yrði virkjað á þessum slóðum af fyrirtæki sem á að greiða arð að helmingi til til Reykvíkinga og Akureyringa og ég tali nú ekki um ef orkan væri síðan seld til útlanda með kapli. Ég held að það sé skynsamlegt fyrir forsvarsmenn fyrirtækisins að íhuga framtíð þess út frá þessu sjónarmiði.

Ég ætla ekki að orðlengja þetta meira, herra forseti, en ég vil ítreka óskir mínar til hv. iðnn. og ég sé að hv. form. nefndarinnar, Stefán Guðmundsson, hefur hlustað hér gaumgæfilega á, að það verði farið ofan í það hver og hvernig eiginfjármyndun fyrirtækisins hefur verið og hvort og hvernig sé hægt að haga þessum breytingum þannig að það sé gert á réttlátan hátt fyrir alla landsmenn, ekki bara þá sem hafa lagt inn í fyrirtækið afskrifaðar eignir á sínum tíma.