Landsvirkjun

Fimmtudaginn 21. nóvember 1996, kl. 21:13:46 (1596)

1996-11-21 21:13:46# 121. lþ. 30.4 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur

[21:13]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Ég hef nú svarað nokkrum þeirra spurninga hér í andsvörum sem beint hefur verið til mín við þessa umræðu en hv. þm. Sighvatur Björgvinsson spurði beinnar spurningar sem sneri að því hvernig ég liti á neitunarvald ríkisins í stjórn Landsvirkjunar ef þessi áform gengju eftir sem í frv. eru, það er að segja að af raunverulega átta stjórnarmönnum þ.e. ef formaður er talinn tvisvar að þá geti atkvæði fallið á jöfnu. Eignarhlutar í fyrirtækinu eru þannig að Reykjavíkurborg á 44,5% og Akureyrarbær 5,5% en ríkið á 50%. Þannig að ríkið á akkúrat helminginn og það hlýtur því að teljast eðlilegt að eignaraðili sem á helminginn hafi möguleika á því að nýta atkvæðisrétt sinn í samræmi við það. Í raun hefur þetta verið með sama hætti eins og stjórn Landsvirkjunar er skipuð í dag vegna þess að formaður stjórnarinnar er sameiginlega valinn af eigendum, iðnrh., borgarstjóra og bæjarstjóranum á Akureyri. Þannig að þarna er í raun og veru ekki um neina breytingu að ræða að öðru leyti en því að það er fækkað um þrjá stjórnarmenn samkvæmt þessari tillögu vegna þess að ríkið hefur átt þarna inni áheyrnarfulltrúa frá 1983. Fyrir utan það að það er ekki sjálfgefið að sveitarfélögin þurfi endilega að mynda blokk gegn ríkinu. Það er ekki alltaf víst að hagsmunir sveitarfélaganna fari nákvæmlega saman innan stjórnar fyrirtækisins. Það getur alveg eins verið að hagsmunir ríkisins og annars sveitarfélagsins fari saman eða eins og oftast er nú sem betur fer að hagsmunir allra fari saman í þessum efnum. Þarna er því ekki um neina efnisbreytingu að ræða.

[21:15]

Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson kom inn á jöfnun orkuverðs og setti fram þá skoðun sína að ekki væri um að ræða neina breytingu með þessu samkomulagi á jöfnun orkuverðs. Það er rétt hjá hv. þm. Þetta samkomulag hefur engin áhrif á það hlutverk sem Landsvirkjun hefur haft til þess að jafna orkuverð í landinu og það er engin breyting fyrirhuguð í þeim efnum. Hv. þm. spurði líka hvað liði því atriði sem fram kemur í lögum um Landsvirkjun að það þurfi að bera stóriðjusamninga sem gerðir eru fyrir fyrirtækið undir iðnrh. til að tryggja að ekki væri um að ræða að stóriðjusamningar leiddu til hækkunar á verði til almennings. Aðalatriðið í þessu sambandi er að það á ekki að gera stóriðjusamninga af hálfu Landsvirkjunar sem leiða til hækkunar á orkuverði til almennings. Þannig hefur verið haldið á að undanförnu að slíkir samningar hafa ekki verið gerðir. Þarna er því engin hætta, fyrir utan það að þetta ákvæði í 13. gr. laganna stendur.

Hv. þm. lýsti áhyggjum sínum yfir því að einstakir verktakar sem væru að vinna fyrir Landsvirkjun gætu selt þá þekkingu sem þeir öðluðust í starfi fyrir fyrirtækið og selt upplýsingar sem þeir kæmust að í rekstri fyrirtækisins þegar þeir væru að vinna fyrir fyrirtækið. Það er skýrt tekið fyrir að slíkt geti gerst í samningum sem Landsvirkjun gerir við þessa verktaka. Ég tel að fyrir það hafi verið girt hafi sú hætta einhvern tímann verið til staðar.

Varðandi arðgreiðslurnar og að arður skuli reiknaður af eigendaframlögum þá skiptast eigendaframlögin í þrennt. Í fyrsta lagi er um ákveðin vatnsréttindi að ræða, eins og hv. þm. kom inn á, sem gætu verið að núvirði í kringum 300 millj. kr. Í öðru lagi eru það bein peningaframlög frá eignaraðilum og í þriðja lagi fasteignir sem eignaraðilar lögðu inn í fyrirtækið.

Vatnsréttindin er hægt að meta á 300 millj. kr. að núvirði. Það var hins vegar svo að þegar ríkið lagði þessi vatnsréttindi inn í fyrirtækið, var það orðið eigandi að þessum vatnsréttindum. Það hafði keypt þau af fyrirtækinu. Ég er ekki með framreiknaðar tölur um þessi eigendaframlög nákvæmlega hver þau eru, ekki á núvirði. En eins og þau stóðu í reikningum 1. jan. 1966, þegar skiptin fóru fram var eigendaframlag ríkisins og Reykjavíkurborgar í Sogsvirkjununum, endurmetnar eignir á verðlagi þess tíma, 101 millj. kr. Það skiptist til helminga á milli Reykjavíkurborgar og ríkisins sem voru helmingseignaraðilar að Sogsvirkjuninni. Sú eign er ekki þannig tilkomin að þar hafi einhverjir styrkir legið að baki. Fyrirtækið varð til vegna þess að aðilar tóku lán og fengu lán með hagstæðum kjörum sjálfsagt á þeim tíma til að byggja upp fyrirtækið en ábyrgð eigenda, þ.e. ríkisins og Reykjavíkurborgar var að baki þessum lánum. (Gripið fram í: Marshall-aðstoðin.) Marshall-aðstoðin fólst í því að þeir fengu lán á hagstæðum kjörum til að byggja upp fyrirtækin. En ábyrgð beggja aðila var á þeim lánum sem tekin voru. Síðan var framlag Reykjavíkurborgar 20 millj., síðan voru ákveðnar fasteignir upp á 80 millj. kr., framlag ríkisins í peningum var 20 millj. kr., undirbúningskostnaður upp á 39 millj. og vatnsréttindi metin þá á 42 millj. kr. sem núna eru uppreiknuð upp á 300 millj. kr. Þannig féllu þessi eigendaframlög til. Auðvitað verða öll þessi gögn opin fyrir iðnn. til að skoða þegar hún fer yfir málið.

Ef ég hef skilið hv. þm. Sighvat Björgvinsson rétt þá hefði hann kannski viljað ganga lengra en gengið er í þessu samkomulagi milli eignaraðila. Ýmsum hugmyndum var velt upp eins og lýst er í greinargerð frv. og skýrslu nefndarinnar sem ég ætla ekki að fara að tíunda hér frekar. Meðal annars var velt upp þeirri hugmynd að gera félagið strax að hlutafélagi og hugsanlega fá nýja eignaraðila inn. Þetta varð hins vegar niðurstaðan. Menn töldu að þetta væri gott skref í fyrsta áfanga og ákveðið var að endurskoða samkomulagið fyrir 1. jan. árið 2004.

Það er hins vegar full ástæða til að fylgjast með hvað er að gerast. Það eru mjög hraðar breytingar í orkugeiranum. Menn hafa gert talsvert að umræðuefni þá tilskipun sem í undirbúningi er hjá Evrópusambandinu og þær kröfur sem hugsanlega munu koma á okkur þaðan. Hún mun að mínu viti ekki setja þær kröfur á okkur að við þurfum að skipta fyrirtækinu upp. Það mun verða nóg, að ég hygg, að skipta rekstri fyrirtækisins upp bókhaldslega séð, þ.e. að greina skýrt á milli vinnslu, flutnings og dreifingar. Og eins og fram kom hjá stjórnarmanni fyrirtækisins fyrr við þessa umræðu þá skilst mér að hann sé búinn að undirbúa þetta allt hjá fyrirtækinu. Þannig að það er sjálfsagt í mjög góðum höndum eins og flest annað hjá því ágæta fyrirtæki.

Ráðstöfun á arðinum. Lagðar eru ákveðnar forsendur til grundvallar því hvernig arður er útreiknaður. Hann er reiknaður af eigendaframlögum og síðan er honum skipt með ákveðnum hætti. Hluti af honum er greiddur út og hluti af honum fer til þess að hækka eigendaframlög fyrirtækisins.

Hv. þm. Svavar Gestsson fullyrti að sú breyting sem þarna væri um að ræða leiddi til þess að jöfnun orkuverðs væri í hættu. Ég fullyrði hins vegar að svo er ekki. Samningurinn á ekki að leiða til þess. Ekki nema þá að hv. þm. fari að beita sér fyrir því í stjórn Landsvirkjunar að farið verði að draga úr jöfnun orkuverðs. Það er auðvitað leið sem hv. þm. hefur ef þær fyrirætlanir eru uppi. (SvG: Ráðherrann ... að setja mig af.) Ég veit ekki hversu forspár hv. þm. er (SvG: Mjög forspár.) en það mun auðvitað koma í ljós (Gripið fram í.) þegar fram líða stundir. Ég veit ekki hvernig ég á að skilja hv. þm. í þessum efnum. En vafalítið á hv. þm. eftir að sitja einhvern tíma enn í stjórn Landsvirkjunar. Hann getur enn beitt áhrifum sínum í þessa veru hafi hann áhuga á því en ég trúi nú að svo sé ekki. En samningurinn sem slíkur, þessi samningur, mun engin áhrif hafa á jöfnun orkuverðs, ekki nokkur, hv. þm.

Enn ætla ég að koma að því sem hv. þm. Svavar Gestsson gerði einna mest úr í umræðunni hér fyrr í dag og það var hvernig að málinu var staðið. Það er reyndar leiðinlegt að þurfa hvað eftir annað að vera að tyggja upp það sama af því ég veit líka að hv. þm. veit miklu betur en hann vill vera láta. Sú beiðni kom frá Akureyri og Reykjavíkurborg sameiginlega til iðnrh. að þessi nefnd yrði skipuð til að endurskoða fyrirkomulag fyrirtækisins. Niðurstaðan af því varð sú að þessir eignaraðilar hver um sig tilnefndu sína fulltrúa. Iðnrh. hafði engin áhrif á það hvernig fulltrúar Reykjavíkurborgar voru valdir. Og ég er ekki frá því að ef þar hefði verið uppi ágreiningur, að hv. þm. Svavar Gestsson hefði haft meiri möguleika á að beita áhrifum sínum á það hvernig fulltrúar Reykjavíkurlistans í þessari endurskoðun voru valdir heldur en sá sem hér stendur, hafi hann haft sérstakan áhuga fyrir því að beita áhrifum sínum í þeim efnum. (SvG: Málefnalegt að vanda.) Hins vegar varð niðurstaðan sú að Reykjavíkurlistinn og Sjálfstfl. komust að samkomulagi um það í borgarstjórn að það væri skynsamlegt og það væri lýðræðislegt að skipta fulltrúum á milli sín í þessari nefnd til endurskoðunar á verkum fyrirtækisins og stjórnskipulagi fyrirtækisins þannig að minni hlutinn hefði einn fulltrúa og meiri hlutinn einn. Sama regla var í gildi þegar valið var í hópinn af hálfu Akureyrarbæjar.

Hv. þm. sagði að það væri algjört aukaatriði, ef ég man rétt, hvernig stjórn fyrirtækisins væri valin og hver veldi. En drýgstur hluti ræðu hans fór í þá umfjöllun samt og vitnaði hann þar í forseta þingsins, að ég hygg, þar sem hann taldi vera afskaplega mikilvægt að eftirlitshlutverk Alþingis með fyrirtækjum í eigu ríkisins væri mikið. Undir þessi orð tek ég alveg heils hugar. En til þess að eftirlitshlutverk þingsins geti verið mjög virkt og trúverðugt þá hlýtur það líka að vera svo að þingið eigi ekki að kjósa í stjórn fyrirtækisins. Við höfum mjög gott dæmi fyrir framan okkur núna um það hvaða hættur eru þarna á ferðinni. Hv. þm. Svavar Gestsson er kosinn af Alþingi í stjórn Landsvirkjunar. (KHG: Og Stefán Guðmundsson í stjórn Byggðastofnunar.) Nú erum við, hv. þm., að tala um Landsvirkjun sérstaklega og ég tek þetta dæmi af því að hv. þm. Svavar Gestsson vitnaði í orð forseta þingsins um mikilvægi þess að hafa eftirlit með fyrirtækjum í eigu ríkisins. Það gildir allt annað um Byggðastofnun. Hún er ekki fyrirtæki í eigu ríkisins. Hún er stofnun sem gegnir ákveðnu hlutverki og er mikill munur þar á. Hv. þm. hefur verið kosinn af Alþingi í stjórn fyrirtækisins og á þar af leiðandi að bera ábyrgð á rekstri fyrirtækisins. En komi nú eitthvað upp í þeim efnum sem gerir það að verkum að Alþingi finnist vera sérstök þörf á að rannsaka það sem gerist í fyrirtækinu, væri þá trúverðugt að Alþingi kysi síðan þennan sama Svavar Gestsson til að fylgjast með því hvað hefði raunverulega gerst? Þetta eru hætturnar ef Alþingi og alþingismenn eiga að hafa eftirlit með sjálfum sér eins og ég skildi að hv. þm. væri að leggja til.

Staðreyndin er sú að á undanförnum tíu árum, í öllum þeim formbreytingum sem hafa verið að eiga sér stað á stjórnum í fyrirtækjum sem ríkið hefur verið að breyta formi á --- dæmi eru til og nærtækust er kannski Sementsverksmiðja ríkisins --- hefur framkvæmdarvaldinu verið falið það hlutverk að fara með eignarhaldið og þar af leiðandi að tilnefna stjórnarmenn í fyrirtækið. Nú kann auðvitað svo að vera að þeir sem eru í stjórnarandstöðu vantreysti ráðherra sem fer með þetta vald á hverjum tíma alveg sérstaklega. Við því er ekkert að segja. En ég held að Alþb. þurfi ekki að hafa sérstaka vantrú á þeim sem hér stendur af þeirri reynslu sem af hans störfum eru fenginn í þessum efnum þar sem að hv. þm. Hjörleifur Guttormsson vitnaði í alla þá framsóknarmenn, sem ég hef nú ekki enn þá komið auga á, sem settir hafa verið í stjórnir, nefndir og ráð í orkugeiranum á vegum iðnrh. (Gripið fram í: Ég hélt það væru laumukommar.)

[21:30]

Þegar síðast var valin stjórn fyrir Sementsverksmiðju ríkisins sátu þar tveir kratar sem skipaðir voru af fyrrv. iðnrh. En til þess að fullkomið jafnvægi væri milli allra pólitískra flokka sem sæti eiga á Alþingi, af því að fyrirtækið er 100% í eigu ríkisins, þá fannst mér eðlilegt að gera breytingu þar á því að Alþb. hafði verið útilokað áður og inn í stjórn fyrirtækisins á síðasta aðalfundi fyrir mína tilstuðlan var settur alþýðubandalagsmaður, fyrrv. alþm. Alþb. í Vesturl. Ég held því að ekki sé bein ástæða til mikillar hræðslu hjá hv. þm. sem mér fannst kristallast í orðum hans áðan að hann væri hræddur um að verða settur út úr stjórn Landsvirkjunar. Auðvitað er ekki hægt að gefa neinar slíkar yfirlýsingar um það hverjir muni sitja í stjórn Landsvirkjunar eftir næsta ársfund.

Hv. þm. Svavar Gestsson hafði áhyggjur af því að endurskoðendur yrðu ekki lengur kjörnir. Nú væri það tekið út. Ef hv. þm. hefði kynnt sér all rækilega þau þingskjöl sem liggja að baki þessu máli ætti hann að sjá að gert er ráð fyrir að endurskoðendur Landsvirkjunar séu kjörnir á aðalfundi eins og í hlutafélögum. Það er breytingin. Við höfum verið að reyna að segja það eiginlega í allan dag að það er verið að færa fyrirtækið úr þeim farvegi sem það er í í dag í áttina að því hvernig hlutafélög starfa. Ríkið á 50% í fyrirtækinu og það er ekkert sem bannar Ríkisendurskoðun að fylgjast með starfsemi þess fyrirtækis sem ríkið á svo stóran hlut í.

Eins og ég sagði áðan voru ákveðnar forsendur lagðar til grundvallar því hvernig menn gætu náð fram þeirri orkuverðslækkun sem áætlað er að ná fram frá árinu 2001 til ársins 2010. Það eru líka sömu forsendur sem liggja til grundvallar því hvernig arður verður greiddur út. Og allar ákvarðanir um arðgreiðslur verða teknar á ársfundi fyrirtækisins hverju sinni. Eins og ég hef margoft ítrekað við þessa umræðu eru engar forsendur fyrir því í þessu fyrirtæki né öðrum að greiða út arð ef fyrirtækið er að tapa peningum. Það hlýtur að vera ákvörðun eigenda hverju sinni þegar komið er til ársfundar. Menn þurfa að takast á um hvort vegur þyngra arðgreiðslur til eigenda eða lækkun orkuverðs. Að minnsta kosti er alveg klárt í mínum huga að lækkun orkuverðs, séu forsendur til þess í rekstri fyrirtækisins, vegur mun þyngra en útgreiðsla á orkuverði vegna þess að lækkun orkuverðs kemur öllum landsmönnum til góða. Það hlýtur að vera markmið númer eitt.

Hitt er svo annað mál að allar þessar áætlanir og þau markmið sem menn eru að setja sér núna um hvernig arður skuli greiddur út og hvernig orkuverð geti hugsanlega lækkað í framtíðinni geta auðvitað brugðist. Hv. þm. Svavar Gestsson minntist áðan á eina af ástæðunum fyrir því að ef álverð lækkar mjög hefur það skaðleg áhrif á rekstur fyrirtækisins vegna þess að stór hluti af tekjum Landsvirkjunar er tengdur álverði. Ef verðbólga fer af stað og verður meiri en 3% hefur það skaðleg áhrif á rekstur fyrirtækisins. Ef gengisbreytingar verða og menn ná ekki að halda stöðugu gengi eða gengisfellingar ríða hér yfir þá hefur það áhrif á rekstur fyrirtækisins. Þá hefur öllum þessum forsendum sem menn eru að setja sér, með því samkomulagi sem var gert milli eignaraðila, verið kippt burtu. En samkomulagið milli eignaraðila er stefnumótun sem sett hefur verið á blað þar sem þessum verkefnum er raðað í forgangsröð. Og það er það sem skiptir höfuðmáli.

Hv. þm. spurði hvers vegna Akureyri fengi sérstaka 10 millj. kr. viðbót á ári. Það skal viðurkennt að þarna liggja ekki að baki neinir útreikningar upp á prósentubrot heldur er þarna um ákveðna samningsniðurstöðu að ræða milli eignaraðila en hún er tilkomin vegna þess að frá árinu 1983 hefur arður í fyrirtækinu verið minni en árin þar á undan. Það var erfitt að áætla nákvæmlega hvernig ætti að reikna út þessa upphæð en þetta varð samningsniðurstaða. Ég þykist viss um að hv. þm. Svavar Gestsson kannast mjög vel við samningsniðurstöður.

Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson minntist á og sagði reyndar að formið væri nákvæmlega það sama nú og árið 1983. Ekki veit ég hvort hv. þm. gerði það viljandi að vitna í röng bréf eða öllu heldur bréf sem tengdust ekki endurskoðun á lögunum 1983 heldur miklu frekar sameiningu Landsvirkjunar og Laxárvirkjunar 1980 af þeirri nefnd sem þá var skipuð. Þarna er mikill munur á, það er alveg ljóst. En staðreyndin er sú að nákvæmlega eins er til verka gengið nú og var árið 1983. Fyrirmyndin að því sem við erum að gera núna, hvernig nefndin var skipuð, er fengin frá árinu 1983. Ekki bara að formi til heldur er að flestu leyti valið með svipuðum hætti. Það er og var mjög náið samstarf við Landsvirkjun í þessum viðræðum eignaraðilanna vegna þess að forstjóri fyrirtækisins og einn af framkvæmdastjórum fyrirtækisins unnu allan tímann með nefndinni. Landsvirkjun vissi nákvæmlega hvað um var að vera. Og hefði maður tekið formann stjórnar Landsvirkjunar inn í þessar viðræður þá væru þær umræður uppi núna, að ég hygg, að það hefði auðvitað ekki verið nóg, það hefði átt að taka einhvern annan stjórnarmann, einhvern úr minni hlutanum. (SvG: Minni hlutanum í...?) Í Landsvirkjun. Minni hlutinn á Alþingi á fulltrúa í stjórn Landsvirkjunar, já. Ég vonast til að hv. þm. þekki þann mann.

Hins vegar var nefndin, sem skipuð var 12. maí 1980, til að fjalla um sameiningu Landsvirkjunar og Laxárvirkjunar skipuð Helga Bergs bankastjóra, Tryggva Sigurbjarnarsyni verkfræðingi og Pálma Jónssyni ráðherra. Það var ekki fulltrúi Sjálfstfl., hv. þm. Hjörleifur Guttormsson. Pálmi Jónsson var ráðherra í ríkisstjórn þeirri sömu og hv. þm. Hjörleifur Guttormsson var í sem iðnrh. Hann var í þeirri ríkisstjórn og enginn fulltrúi stjórnarandstöðunnar á Alþingi var í þessari nefnd. En síðan í maí 1980 finnst þáv. iðnrh. nauðsynlegt að fjölga í nefndinni og þá setur hann embættismenn í nefndina, m.a. Pál Flygenring ráðuneytisstjóra. Síðan 1983 eru í nefndinni Tryggvi Sigurbjarnarson, Helgi Bergs og Kristján Jónsson rafmagnsveitustjóri. Ég held að þeir menn hafi skilað alveg gríðarlega góðu verki. Ég heyrði að hv. þm. lofaði það áðan og ég held að það sé hárrétt. En einn var til viðbótar í þeirri nefnd og það var Halldór J. Kristjánsson, lögfræðingur í iðnrn. á þeim tíma. Mér fannst því sjálfgefið að setja þann mann núna sem formann þessarar nefndar þannig að svipuðum vinnubrögðum væri haldið og 1983. Það var ástæðan fyrir því að hann var valinn sem formaður þessarar nefndar nú.

Það er hins vegar fróðlegt að vitna í það bréf sem þáv. iðnrh. skrifaði bæjarstjórninni á Akureyri til að leggja línurnar um hvernig þetta skyldi nú vera. (SvG: Hver var ráðherra?) Iðnrh. var núv. hv. þm. Hjörleifur Guttormsson. Þegar hann var að tilkynna bæjarstjórninni á Akureyri hverjir væru í nefndinni, þá væri nú rétt að leggja línurnar um hvernig hann vildi hafa þetta. Með leyfi forseta ætla ég að fá að vitna í það bréf:

,,Ráðuneytið telur því nauðsynlegt að rekstrarleg tengsl Landsvirkjunar við yfirstjórn orkumála í landinu verði sem traustust. Slík tengsl mætti styrkja með breyttu fyrirkomulagi stjórnarkjörs frá því sem nú er. Til dæmis með því að ráðherra orkumála tilnefni stjórnarformann og einn eða fleiri fulltrúa ríkisins í stjórnina. Eðlilegt virðist einnig að auka tengsl stjórnar fyrirtækisins við handhafa eignaraðila hverju sinni. Skref í þá átt væri að stytta kjörtímabil stjórnar, jafnvel að velja stjórn árlega. Slíkt fyrirkomulag stjórnarkjörs er einnig meira í samræmi við almennar reglur og venjur um fyrirtæki í eigu fleiri en tveggja aðila. Mikilvægt atriði í framtíðarskipulagi Landsvirkjunar eru möguleikar annarra sveitarfélaga en Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar til að verða eignaraðilar sem gera þarf ráð fyrir við nýja lagasetningu þó þannig að ríkið sé áfram helmingseigandi.``

Þannig lagði þáv. hæstv. iðnrh. línurnar ekki bara fyrir þá fulltrúa sem hann setti í þá nefnd sem fór í að endurskoða hlutverk og rekstrarfyrirkomulag fyrirtækisins heldur var hann líka að segja hinum eignaraðilunum hvernig þetta ætti allt að vera. Það var ekki gert núna, hv. þm.

Deilur við Sjálfstfl. voru miklar 1983, eins og fram kom hjá hv. þm. áðan. Hann sagði: Þær voru ekki óskemmtilegar. Þær deilur sneru að því hvernig eignaraðilar í Landsvirkjun vildu fara með sinn hlut. Deilur iðnrh. þá voru við Sjálfstfl. í meiri hluta Reykjavíkurborgar. Það voru ekki deilur hér innan dyra. (Gripið fram í: Eins og nú.) Eins og núna. Hins vegar er það svo að nú eru engar deilur, hv. þm., milli eignaraðila um hvernig þetta skuli vera. (Forseti hringir.) Nú eru eignaraðilar sammála um að hverju skuli stefnt með rekstri fyrirtækisins, hver sé framtíðarsýn eigenda á fyrirtækinu og koma því í þann farveg.