Landsvirkjun

Fimmtudaginn 21. nóvember 1996, kl. 21:56:20 (1604)

1996-11-21 21:56:20# 121. lþ. 30.4 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur

[21:56]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef setið og hlustað á umræðuna eins og hv. þm. Staðreyndin er sú og það er rétt að hér hafa menn verið með varnaðarorð og spurningar sem ég tel að hér hafi verið svarað og þau varnaðarorð hafa snúið að því að menn hafa haft áhyggjur af að verðjöfnunin sem slík væri í hættu og að verðlækkunaráformin næðust ekki fram út af því að eigendur ætluðu sér að greiða sér arð út úr fyrirtækinu. Ég tel að hvort tveggja sé tryggt einfaldlega vegna þess að eignaraðilar munu ekki greiða arð út úr fyrirtæki sem er ekki rekið með hagnaði. Þau hljóta á hverjum tíma að hafa verðlækkunarsjónarmiðin að leiðarljósi og verðjöfnunin er tryggð. Það voru þessi varnaðarorð sem komu fram hjá einstökum þingmönnum sem hafa talað við umræðuna í kvöld.

Reyndar vildi einn þingmaður ganga miklu lengra en þetta frv. gerði ráð fyrir og innleiða strax samkeppni í orkugeirann sem ég tel að sé ekki framkvæmanlegt að gera með mjög skjótvirkum hætti en þegar fram líða stundir held ég að það sé sú staða sem uppi muni verða að samkeppni mun verða innleidd í orkumálin og það mun leiða til þess að mínu viti að orkuverð mun fara lækkandi.