Landsvirkjun

Fimmtudaginn 21. nóvember 1996, kl. 22:26:51 (1608)

1996-11-21 22:26:51# 121. lþ. 30.4 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., KHG
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur

[22:26]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Mér finnst rétt að fara aðeins fleiri orðum um þetta mál en ég gat komið að áðan í andsvari við ræðu hæstv. iðnrh. Ég vil fyrst árétta skoðun mína almennt á þessu þingmáli sem við erum að ræða. Ég verð að segja að í raun er ákaflega skýrt hvað er í þessu þingmáli og það er ekki viðamikið mál. Það er aðeins eitt atriði sem gerir það að verkum að það er lagt fram. Það eru peningar til eigenda fyrirtækisins. Það er eina atriðið sem veldur því að þetta þingmál er lagt fram. Það snýst um að hluti eigendanna, þ.e. sveitarfélög, gera meiri kröfur um að fá meiri peninga til sín. Síðan snúast aðrar tillögur í málinu einfaldlega um útfærslu til að koma því í kring. Það er verið að breyta ákvæðum til að gera stjórninni kleift að setja þá gjaldskrá sem þarf svo hún geti rukkað inn þá peninga sem þarf til að mæta þessum kröfum. Síðan er breytt ákvæðum um stjórnina þannig að tryggt sé að stjórnin framfylgi þessu markmiði að rukka inn peninga. Annað er það ekki, virðulegi forseti, sem er í þessu frv. nema sett er í 2. gr. frv. reikniregluákvæði til að tryggja að hægt sé að búa til eigendaframlög sem kölluð eru, sem eru bara reikniæfingar. Það er hægt búa til alls konar formúlur til að reikna út alls konar niðurstöður. Ef þjóðin væri svo gæfusöm að eiga einhvers staðar fulltrúa til að láta reikna út fyrir sig hvað hún ætti í þessu fyrirtæki þá hefði ekki verið nokkurt vandamál fyrir þjóðina að fá þessa fulltrúa sína til að reikna út að þjóðin ætti þetta allt saman og sveitarfélögin ekki neitt. Annað er ekki í þessu þingmáli. Þetta er einfaldlega rukkarafrumvarp fyrir þá sem vilja meiri penginga fyrir sig. Ég legg áherslu á það, virðulegur forseti, að um þetta snýst málið og annað ekki. Og til að árétta þetta þá er þetta rækilega skrifað inn í athugasemdir við 2. gr. frv. Það er rækilega tekið fram að áhersluatriði númer eitt eru arðgreiðslurnar. Það er ekki orkuverðsjöfnunin sem er áhersluatriðið. Það eru ekki framfarir í þessum málaflokki eða breytingar á skipulagsmálum sem er aðalatriðið. Það er bara eitt atriði --- arðgreiðslur og aftur arðgreiðslur.

[22:30]

Ég vil benda þingheimi á upphaf athugasemda um 2. gr. frv. en hún er svohljóðandi, með leyfi forseta: ,,Í grein þessari er lögð til sú breyting að greiða beri eigendum Landsvirkjunar arð af öllum framlögum sem þeir hafa lagt og munu leggja Landsvirkjun til ...`` o.s.frv. Síðar segir: ,,Skv. 5. gr. gildandi laga greiðir Landsvirkjun eigendum sínum einungis arð af sérstökum eiginfjárframlögum.``

Þessi athugasemd er til að draga það fram að menn ætla að reikna arðinn af stærri tölu en hingað til hefur verið gert vegna þess að arðurinn er aðalatriði málsins. Og þetta er enn undirstrikað í niðurlagi athugasemda með 2. gr. þessa frv. þar sem er verið að gera grein fyrir annarri breytingu. Í greinargerð stendur, með leyfi forseta:

,,Loks felst í greininni sú breyting að auk þess sem arðgreiðslur skulu ákveðnar með hliðsjón af afkomu Landsvirkjunar eins og nú er skal hafa hliðsjón af yfirfærðum hagnaði frá fyrri árum.``

Þetta er viðbótin: Skal hafa hliðsjón af yfirfærðum hagnaði frá fyrri árum. Síðan segir, virðulegi forseti:

,,Verður því eins og í fyrirtækjum almennt unnt að taka ákvörðun um arðgreiðslur, þótt fyrirtækið hafi verið rekið með tapi árið á undan, ef hagnaði fyrri ára hefur í nægjanlegum mæli verið haldið eftir í fyrirtækinu.``

Hæstv. iðnrh. sagði í andsvörum áðan og lagði höfuðáherslu á að það ætti ekki að borga arð ef það væri tap á rekstrinum. Það stendur bara allt annað hér. Það stendur að það eigi stundum að gera það, þ.e. ef til er gamall hagnaður sem menn geta brúkað til þess að lyfta tapi ársins upp fyrir núllið, þá skulu menn borga arð. Hver er áherslan með þessari grein? Hún er auðvitað ekkert önnur en sú að borga eigendunum peninga, meiri peninga en þeir hafa fengið hingað til. Og til að tryggja að það sé unnt, er greint frá því að fyrirtækið ætlar ekki eða á ekki að lækka gjaldskrá sína fyrr en eftir árið 2000 þannig að allar breytingar sem þetta mál hefur að geyma lúta að þessu eina atriði, tryggja framgang þess.

Þetta eru ekki réttar áherslur að mínu viti, virðulegi forseti. Þetta eru ekki áherslur sem við viljum sjá sem tölum fyrir því að það beri að jafna lífskostnað hér á landi og þar með talinn kostnað í orkuverði. Ef menn ætla sér að láta orkusölufyrirtæki innheimta meiri pening, rukka meiri pening af orkukaupendum, þá teljum við að það beri að verja þeim peningum sem innheimtir eru aukalega til þess að lækka orkureikninginn hjá þeim sem bera hann hæstan fyrir. Það teldi ég vera orkuverðsjöfnun. En það er ekki tilgangurinn með þessu þingmáli. Það er ekki stefna ríkisstjórnarflokkanna að lækka orkuverð þar sem það er hæst. (Gripið fram í: Það er í stjórnarsáttmála.) Það er í stjórnarsáttmála, er upplýst, en það er ekki í þessu stjfrv. Það væri fróðlegt ef hæstv. iðnrh. upplýsti þingheim um það hvenær hann muni leggja fram þingmál um að auka orkuverðsjöfnunina og fullnægja ákvæðum stjórnarsáttmálans. Hvenær er von á því? Er það þegar ,,eigendur fyrirtækisins``, þ.e. sjóðirnir þrír, ríkissjóður, borgarsjóður og bæjarsjóður Akureyrar verða sammála um að þeir vilja ekki meira að sinni og samþykkja að fyrirtækið megi verja eitthvað af sínum peningum til að lækka reikninginn hjá þeim sem kaupa orkuna? Hvenær þóknast fyrirtækinu og hæstv. iðnrh. að láta það koma til framkvæmda, sem þeir hafa gefið út að eigi að verða, að lækka orkuverðið? Það er ekki það sem hér er verið að leggja til. Það má eiginlega segja að það sé þvert á móti, verið að koma í veg fyrir að það verði orkuverðsjöfnun á næstu árum. Framsfl. gengur til síns landsþings með það á bakinu að tilkynna sínum 600 þingfulltrúum að þeir ætli ekki að lækka orkuverðið á landsbyggðinni næstu fjögur árin. Það eru skilaboðin sem þeir senda frá sér héðan í dag úr þessari umræðu til síns þingheims á morgun.

Virðulegi forseti. Ég hefði gjarnan viljað að í þessu frv. hefði verið fjallað um það sem ég tel vera brýnna að takast á við í orkumálum og það er hvernig menn vilja þróa þessi mál frá því sem nú er. Mér er það alveg ljóst að miklar breytingar hafa orðið í íslensku þjóðlífi frá þeim tíma er menn leystu vandamál sín og þjóðarinnar með sameiginlegu átaki í gegnum fyrirtæki og stofnanir sem störfuðu á landsvísu. Og þó að slíkar hugmyndir haldi enn að mörgu leyti gildi sínu, er mér vel ljóst að það er mikill andróður við það sjónarmið. Ég held að menn verði að vera tilbúnir til að hugleiða breytingar frá núverandi fyrirkomulagi eins og það er með skipan Landsvirkjunar. Ég er ekki viss um að breytingar séu í alla staði óhollar fyrir landsbyggðina. Þvert á móti get ég vel séð fyrir mér breytingar sem væru líklegar til að gagnast fólki og atvinnurekstri þar ekkert síður en núverandi fyrirkomulag.

Ég tel hins vegar að sú breyting sem menn eiga að gera fyrst sé að greina stóriðjuþáttinn frá annarri virkjun, dreifingu og orkusölu. Það er áhættuþáttur og þó að það sé sjálfsagt að ríkið standi að því, eigum við að sjálfsögðu að leitast við að fá aðra aðila með okkur til þess að fjármagna og kosta og eiga með okkur slík áhættufyrirtæki. Ég tel að reynslan sýni okkur að það er líklegra að heimilin hafi verið að borga niður raforku fyrir stóriðju heldur en hitt sem menn lögðu upp með, að stóriðjan gagnaðist heimilunum með því að skila peningum í púkkið. Ég er því kominn á þá skoðun að betra sé að halda almenningssölunni sér og aðskilinni frá stóriðjunni.

Ég er líka á þeirri skoðun að verðjöfnun eigi mjög undir högg að sækja í íslensku þjóðlífi. Ég tel að pólitískir vindar sem blása um þessar mundir séu andstæðir því sjónarmiði að það beri að jafna. Og ég óttast að menn muni eiga mjög í vök að verjast að verja verðjöfnunarsjónarmið hvort heldur það er í gegnum Landsvirkjun eða á öðrum sviðum, eins og reyndar má segja að dæmin sanni. Ég hygg því að þeir sem vilja verðjöfnun, jafna stöðu milli fólks, eigi að huga að öðrum úrræðum sem geti dugað eða menn trúa að geti dugað nokkuð vel til þess að þjóna sama tilgangi.

Ég bendi á að ætli menn að virkja hér á landi, þá verða menn að sækja þann virkjunarrétt út á land. Það er ekkert óhugsandi að mínum dómi að rétturinn til að nýta land, og þar með talinn virkjunarréttur, sé ekki hjá ríkinu heldur hjá öðrum aðilum í þjóðfélaginu. Þar er ég fyrst og fremst með í huga héraðsstjórnir eða fylkisstjórnir. Væri það fyrirkomulagið, yrðu aðilar sem vildu virkja og koma upp stóriðju að semja um það við þá sem ættu réttinn. Þeir yrðu væntanlega að borga fyrir þann rétt og það gæfi mönnum stöðu til þess að sækja sér lífskjör að mínu viti til jafns við það sem núverandi fyrirkomulag býður upp á.

Þá er ég tiltölulega hlynntur því að veita fleiri aðilum heimild til að virkja, frá því sem nú er. Ég er ekki sannfærður um að þetta einokunarfyrirkomulag með gífurlega stóru fyrirtæki eins og Landsvirkjun er, sé það besta og er alveg tilbúinn að ræða hugmyndir um breytingar á þeim þætti.

Það er hins vegar ekki viðfangsefni þessa frv., því miður, að fjalla um stefnuna í þessum veigamikla þætti. Ég hefði kosið að hæstv. iðnrh. hefði komið með frv. um það mál fyrst áður en farið væri að útdeila þeim peningum sem finnast kunna í þessu fyrirtæki með öðrum hætti en verið hefur. Það er að mínu viti ekki forgangsatriði í þessum málaflokki að tryggja að eigendur þess eða svokallaðir eigendur þess geti sótt sér aukið fé frá því sem nú er til sinna þarfa sem sjálfsagt eru allar margar og merkilegar og er ekkert nema gott eitt um það að segja. En tilgangurinn með Landsvirkjun var ekki sá að tryggja eigendum skotsilfur. Hann var sá að tryggja þjóðinni rafmagn. Og það á ekki að taka fyrir það rafmagn hærra verð en þarf til þess að sinna þessu hlutverki.