Landsvirkjun

Fimmtudaginn 21. nóvember 1996, kl. 22:43:19 (1609)

1996-11-21 22:43:19# 121. lþ. 30.4 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur

[22:43]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Nokkrar spurningar hafa vaknað síðari hluta umræðunnar. Menn hafa verið með vangaveltur um það hvort svo gæti farið að verðjöfnun yrði ekki tryggð þegar þetta frv. hefur orðið að lögum. Það er alveg ótvírætt í núgildandi lögum um Landsvirkjun í 13. gr. þar sem stendur, með leyfi forseta:

,,Sama gjaldskrá skal gilda um afhendingu rafmagns til almenningsrafveitna á afhendingarstöðum Landsvirkjunar.``

Á þessu eru engar breytingar gerðar þannig að verðjöfnunin er algerlega tryggð og menn eiga ekki að þurfa að velkjast í vafa um það.

Þá er spurning um í hvaða röð menn raða þessum markmiðum sem menn hafa mikið velt fyrir sér. Það er ákvörðun aðalfundar hverju sinni hver sá arður verður sem greiddur verður út úr fyrirtækinu. Með þessu samkomulagi er þessi verðlækkunarstefna eigenda fyrirtækisins mótuð. Arðkröfurnar eru líkar settar fram og leikreglur settar um það hvernig arðurinn skuli reiknaður og hvernig hann skuli greiddur út. Í mínum huga er það því alveg ljóst að verðlækkunarstefnan og verðlækkunarsjónarmiðið kemur fyrst þessara markmiða og ástæðan er auðvitað sú að það kemur öllum landsmönnum til góða.

Hv. þm. Svavar Gestsson spurði: ,,Af hverju er þá ekki farið í að lækka strax?`` Það hélt ég að hv. þm. væri alveg kunnugt um vegna þess að eitt af því sem hann gerði að umtalsefni í þessari umræðu, sem er alveg eðlilegt, er að fyrirtækið er mjög skuldugt og það er full ástæða til að hafa áhyggjur af því. En árið 2000 er gert ráð fyrir því, ef öll þessi áform ganga eftir, að hreint veltufé af heildarskuld verði orðið meira en 12% og það er þá fyrst sem menn geta tekið fyrsta skref í að lækka sem leiðir af því að menn hafa þá greitt niður skuldir. Það er þess vegna sem ekki er hægt á þessu stigi að fara strax í að lækka verðið, en að því er stefnt.

[22:45]

Ég ætla ekki frekar að elta ólar við þessa umræðu um af hverju stjórn fyrirtækisins hafi ekki verið höfð með í ráðum þegar eignaraðilar tóku þá ákvörðun að setja málið í þessa skoðun í þeirri nefnd sem skipuð var. Ástæðan er ekki sú að ég hafi ekki fullt traust á þeim mönnum sem sitja í stjórn Landsvirkjunar heldur hin að það er hlutverk stjórnar Landsvirkjunar að bera ábyrgð á rekstri fyrirtækisins, sjá um að rekstur fyrirtækisins sé í samræmi við sameignarsamninginn og í samræmi við lög. Það er síðan ákvörðun eigendanna sjálfra með hvaða hætti þeir taka ákvörðun um rekstrarfyrirkomulag fyrirtækisins.

Varðandi það að Þjóðhagsstofnun komi ekki lengur að ákvörðun eða umsögn um gjaldskrá þá held ég að menn séu sammála um að það sé ekki eðlilegt eftir að þessi stefna hefur verið mótuð um verðlækkun og arðgreiðslurnar og þá hlýtur það að vera stjórnar fyrirtækisins að taka þær ákvarðanir í samræmi við stefnu eigenda. En eftir sem áður hefur Samkeppnisstofnun alla burði og alla möguleika á því að fylgjast með rekstri fyrirtækisins vegna þess að fyrirtækið er einokunarfyrirtæki og það er m.a. hlutverk Samkeppnisstofnunar.

Hverju eru menn þá að breyta með þessum lögum? Er það nema eitt atriði sem snýr bara að stjórnarkjörinu? Jú, ef menn fara yfir frv. þá er verið að breyta ákveðnum atriðum með öllum greinum frv. Í 1. gr. er verið að auka heimildir fyrirtækisins til starfsemi. Á öðrum stað er verið að ákveða hvernig stjórn fyrirtækisins skuli skipuð. Í þriðja lagi er verið að skilgreina eigendaframlögin þannig að arður sé reiknaður af ákveðnum eigendaframlögum. Í fjórða lagi er verið að færa stjórn fyrirtækisins og rekstur til samræmis við rekstur hlutafélaga með aðalfundi. Eftir sem áður verður haldinn eigendafundur og kynningarfundur fyrir þá aðila sem mestra hagsmuna hafa að gæta. Verkaskipting stjórnar fyrirtækisins og framkvæmdastjóra fyrirtækisins eru skilgreind í þessu frv. Þannig að allar greinar frv. eru nauðsynlegar til þess að tryggja það samkomulag sem eignaraðilar hafa orðið sammála um að stefnt skuli að með sameignarsamningnum.