Alþjóðadagur fatlaðra

Þriðjudaginn 03. desember 1996, kl. 13:32:51 (1692)

1996-12-03 13:32:51# 121. lþ. 33.91 fundur 124#B alþjóðadagur fatlaðra# (aths. um störf þingsins), ÁÞ
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur

[13:32]

Ásta B. Þorsteinsdóttir:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs um störf þingsins í tilefni af því að í dag er um allan heim þess minnst að 3. des. er alþjóðadagur fatlaðra. Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna árið 1992 var helgað fötluðum um allan heim og þar var samþykkt að 3. des. ár hvert skyldi helgaður þessu málefni. Þar voru einnig kynntar grundvallarreglur Sameinuðu þjóðanna þar sem aðaláherslan er lögð á jafnrétti fatlaðra, jöfn lífsskilyrði og jafna þátttöku á öllum stigum þjóðlífsins. Þessar grundvallarreglur voru síðan samþykktar í aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna árið 1993 og eru bundnar vonir við að þær verði undanfari alþjóðalaga um málefni fatlaðra á svipaðan hátt og barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna er.

Hagsmunasamtök fatlaðra um allan heim líta á þær sem mikilvægt baráttutæki. Það styrkir einnig stöðu fatlaðra að sérstakur umboðsmaður þeirra var skipaður á vettvangi Sameinuðu þjóðanna í því skyni að kanna aðbúnað þeirra og koma með tillögur um með hvaða hætti megi bæta lífskjör fatlaðra um allan heim. Um grundvallarreglur Sameinuðu þjóðanna var fjallað á sérstakri og fjölmennri ráðstefnu um málefni fatlaðra sem haldin var af Sameinuðu þjóðunum, íslenskum stjórnvöldum og hagsmunasamtökum fatlaðra á Íslandi í júní 1994.

Herra forseti. Sameinuðu þjóðirnar hafa beint þeim tilmælum til þjóðþinga aðildarríkja sinna að þau taki málefni fatlaðra til umræðu og skoðunar á þessum degi ár hvert þannig að hægt sé að meta stöðuna og leggja fram raunhæfar áætlanir til að jafna stöðu þessa fjölmenna þjóðfélagshóps. Kjörorð Sameinuðu þjóðanna er eitt samfélag fyrir alla. Hvatt er til þess að aðildarríki vinni að því að gera samfélagið sem aðgengilegast fyrir alla og stefnt að því að koma á samfélagi sem er laust við mismunun og fordóma. Hagsmunasamtök hafa beint því til hæstv. félmrh. að hann gefi Alþingi skýrslu um stöðu málaflokksins sem og áform ríkisstjórnarinnar til úrbóta í málefnum fatlaðra. Þótt ekki hafi tekist að verða við þessari ósk í dag er mikilvægt að kalla eftir umræðu um þessi mikilvægu mál hér á Alþingi og hvetja hæstv. ráðherra og alþingismenn til að gefa þessum málum enn frekari gaum með ítarlegri umfjöllun síðar í þessari viku.