Alþjóðadagur fatlaðra

Þriðjudaginn 03. desember 1996, kl. 13:35:18 (1693)

1996-12-03 13:35:18# 121. lþ. 33.91 fundur 124#B alþjóðadagur fatlaðra# (aths. um störf þingsins), SvG
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur

[13:35]

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir orð hv. 9. þm. Reykv. Ég tel eðlilegt að á þessum degi fari fram umræða um málefni fatlaðra og ég tel að við eigum að halda þannig á málum á næstu þingum að það verði með þeim hætti. Það er sérstaklega brýnt líka að taka umræðulotu á málefnum fatlaðra núna eins og hagar til í þeim málaflokki sem er vægast sagt mjög umdeildur eins og staðan er um þessar mundir og ætla ég ekki að fara út í að hér í umræðum um störf þingsins. Ég vil þess vegna taka undir þá ósk sem fram kom hjá hv. þm. um að fram fari umræða um málefni fatlaðra utan dagskrár sem fyrst og helst í þessari viku. Þá er ég að tala um umræðu sem yrði í tvo tíma eða svo þannig að það gæfist kostur á því að fara dálítið rækilega yfir málaflokkinn jafnframt því sem menn hljóta að ræða þessi mál ef frv. til laga um breytingu á lögum um málefni fatlaðra kemur hingað inn einhvern tíma á næstunni. Mitt erindi í ræðustólinn var því að taka undir óskir hv. þm. og undirstrika það að ég tel að það sé brýnna nú en það hefur lengi áður verið að ræða um málefni fatlaðra í þessari virðulegu stofnun.