Niðurstöður alþjóðlegrar könnunar um raungreinamenntun íslenskra skólabarna

Þriðjudaginn 03. desember 1996, kl. 14:11:50 (1708)

1996-12-03 14:11:50# 121. lþ. 33.95 fundur 122#B niðurstöður alþjóðlegrar könnunar um raungreinamenntun íslenskra skólabarna# (umræður utan dagskrár), EKG
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur

[14:11]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Við ræðum hér mjög mikilvæga niðurstöðu sem hefur fengist í alþjóðlegri könnun á stöðu íslenskra nemenda í raungreinum. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við gerum okkur grein fyrir því hvernig við ætlum að vinna úr þessari könnun. Í fyrsta lagi er mikilvægt að menn átti sig á því um hvað þessi könnun snerist. Þetta var ekki heildstæð athugun á árangri nemenda í öllum námsgreinum. Þetta var eingöngu athugun á árangri nemenda í raungreinum. Það þurfum við í fyrsta lagi að dvelja við. Við skulum ekki láta sem svo að þetta sé allsherjaráfellisdómur yfir íslensku menntakerfi. Það kom fram í máli hæstv. menntmrh. áðan að Íslendingar standa sig vel á ýmsum öðrum sviðum og við höfum heldur ekki þekkingu til þess að fullyrða um það hvernig við komum út á ýmsum öðrum sviðum. Þessu þurfum við að átta okkur á.

Í öðru lagi er það mjög mikilvægt að við höfum í huga að staða okkar er mjög svipuð og staða annarra Norðurlandaþjóða. Það vekur ákveðnar spurningar. Getur verið að við höfum verið að leita okkur fyrirmynda á röngum stöðum? Það er kunnara en frá þurfi að segja að við höfum mjög leitað fyrirmynda meðal annars í uppbyggingu skólakerfisins til Norðurlanda. Þess vegna vekur staða Norðurlandanna athygli. Þrátt fyrir að menn hafi flutt mikinn lofgerðaróð um uppbyggingu menntamála á Norðurlöndunum þá er staða Norðurlandanna á þessu sviði alls ekki mikið betri heldur en hjá okkur.

Síðan er það stóra spurningin: Hvaða ríki eru það sem skara fram úr? Jú það eru ríki Suðaustur-Asíu. Þá þurfum við að velta því fyrir okkur hvort við viljum stefna í nákvæmlega sömu átt og ríki Suðaustur-Asíu hafa verið að stefna. Hvað vitum við um þessi skólakerfi? Þekkjum við það hvort því fylgja einhverjir fylgikvillar sem okkur eru ekki ljósir? Mér er sagt að skólakerfi Suðaustur-Asíu byggi fyrst og fremst á tveim atriðum. Í fyrsta lagi aga og í öðru lagi samkeppni. Þetta hvort tveggja er nauðsynlegt að sé til staðar í skólakerfinu. (Forseti hringir.) En því geta líka fylgt fylgikvillar sem við ekki þekkjum. Ég held að það sé mikilvægt að við byggjum á þessari könnun til frambúar og reynum að kalla til sérstaklega starfandi kennara á þessu sviði til leiðsagnar inn í framtíðina.