Niðurstöður alþjóðlegrar könnunar um raungreinamenntun íslenskra skólabarna

Þriðjudaginn 03. desember 1996, kl. 14:15:12 (1710)

1996-12-03 14:15:12# 121. lþ. 33.95 fundur 122#B niðurstöður alþjóðlegrar könnunar um raungreinamenntun íslenskra skólabarna# (umræður utan dagskrár), ÓÖH
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur

[14:15]

Ólafur Örn Haraldsson:

Virðulegi forseti. Ég vil þakka góð svör hæstv. menntmrh. og fagna því að hann nefndi nú þegar nokkur ákveðin atriði sem hann telur líkleg til árangurs þó svo að ég taki undir það líka að við breytum þessu ekki á einni nóttu. Ég vil hvetja til sátta og samstarfs við viðeigandi aðila, kennara, foreldra og skólafólk. Við þurfum einnig að efla rannsóknir í menntamálum og ná þannig frekari tökum á viðfangsefninu.

Ég ítreka það að við skulum líta í eigin barm. Í þessum þingsal er ríkisstjórn, menntmrh. og Alþingi. Frá okkur verður frumkvæðið og upphafið að koma. Við þurfum að gerbreyta viðhorfum okkar til rannsókna í menntamálum. Ríkisvaldið þarf að taka heimili landsins til fyrirmyndar í afstöðu sinni til menntunar hvað fjárveitingar snertir. Jafnvel efnalítil heimili víða um land láta menntamálin hafa forgang með því að senda einn, tvo eða jafnvel þrjá unglinga til náms jafnvel þó svo að það kosti hundruð þúsunda og börnin þurfi að vera fjarvistum frá heimilum sínum. Þjóðarheimilið, sem við höfum nokkuð með að gera á þessum bæ, á að draga ályktanir af þessum skýru og ljósu áherslum heimilanna í landinu.