Lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 03. desember 1996, kl. 15:47:12 (1727)

1996-12-03 15:47:12# 121. lþ. 33.4 fundur 180. mál: #A lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins# (nýtt réttindakerfi) frv., ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur

[15:47]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. að veita nokkur svör við ýmsu af því sem ég spurði. Ég nefndi sérstaklega þessa aðferð, þ.e. að fara þá leið að hækka laun nýrra starfsmanna og skerða lífeyrisréttindi. Ég spurði hvort hún hefði verið skoðuð og spurði álits á ummælum aðstoðarmanns hans. Kannski var ekki svarað skýrt. Ég geri mér alveg fulla grein fyrir að menn fóru aðra leið í þessu frv. Ég hefði kosið að fá aðeins skýrari svör við spurningu minni um þau ummæli sem þarna voru höfð eftir, en þau geta komið síðar.

Það sem ég vildi hins vegar nefna og minni á að hæstv. ráðherra svaraði því ekki --- hann gerir það e.t.v. síðar í umræðunni --- eru áhrif frv. á Alþýðusambandið og á þá sjóði sem þar eru og mat hans á áhrifum á lögfestingu þessa frv. á kjarasamningagerð almennt á vinnumarkaðinum. Ég held að það sé mjög mikilvægt að menn skoði alla þætti sem hér liggja til grundvallar. Það þarf vitaskuld að fara vel yfir þá tryggingafræðilegu útreikninga sem þarna eru lagðir til grundvallar. Ég vil að upplýsa að hv. efh.- og viðskn. hefur beinlínis ráðið tryggingafræðing til starfa við að fara yfir þetta mál vegna þess að menn taka þetta í fullri alvöru. Hér er um eitt mikilvægasta mál þingsins að ræða og ég tel nauðsynlegt að ráðherra upplýsi nú eða síðar mat hans á því hvort þetta kerfi eða þessi útfærsla geti hugsanlega orðið leiðin að því samræmda lífeyriskerfi sem við höfum verið að glíma við og kannski óskað eftir í mörg ár, þ.e. hvort hér sé þá komið það líkan sem hann ætli að tala fyrir gagnvart öðrum stéttarfélögum í landinu.