Aðgerðir gegn útlendingaandúð

Miðvikudaginn 04. desember 1996, kl. 13:37:29 (1776)

1996-12-04 13:37:29# 121. lþ. 34.1 fundur 91. mál: #A aðgerðir gegn útlendingaandúð# fsp. (til munnl.) frá samstrh., utanrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur

[13:37]

Ráðherra norrænna samstarfsmála (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Átak norrænu ráðherranefndarinnar sem nefnt hefur verið ,,Norðurlönd gegn útlendingaandúð`` og sem fram fór að mestu á árinu 1995 var hluti stærra verkefnis á vegum Evrópuráðsins gegn mismunun og misrétti. Norræna ráðherranefndin veitti í allt á áttunda tug millj. ísl. kr. til þessa átaks sem við Íslendingar nutum góðs af. Til að sjá um framkvæmd átaksins skipaði norræna ráðherranefndin samnorræna nefnd en fulltrúar Íslands í henni voru þau Guðjón Magnússon og Kristín Njálsdóttir. Kristín sat jafnframt í landsnefnd þeirri sem menntmrh. hafði skipað til að hafa umsjón með verkefni Evrópuráðsins hér á landi, en sá háttur var hafður á til að tryggja upplýsingastreymi og samhæfingu í verkefnavali og framkvæmd. Áhersla var lögð á að velja stór verkefni og að virkja eftir mætti æskulýðsfélög og æskulýðssamtök við framkvæmd þeirra.

Helstu verkefni sem ráðist var í hérlendis eru þessi: Rannsókn á högum nýbúa, en þessu verkefni sem unnið er af Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála á að ljúka fyrir árslok 1996. Verkefnið er unnið að frumkvæði íslensku framkvæmdanefndarinnar.

Íslensk ungmenni, 29 talsins á aldrinum 18--22 ára, tóku þátt í evrópskri lestarferð um Evrópu. Verkefnið sem gekk undir nafninu Evrópska ungmennalestin fólst í því að eitt þúsund ungmenni lögðu á svipuðum tíma í lestarferð um Evrópu og áttu lestirnar viðdvöl í ýmsum borgum á leið sinni til Strassborgar þar sem farþegarnir vöktu mikla athygli á verkefninu. Íslensku þátttakendurnir voru með í norrænu lestinni og var för hennar og þátttaka ungmennanna í þeirri evrópsku ungmennaviku sem á eftir fór kostuð af verkefnafé norrænu ráðherranefndarinnar. Markmiðið var að vekja athygli og auka skilning bæði þátttakenda og annarra á jafnrétti og umburðarlyndi gagnvart mismunandi menningu og þjóðerni. Verkefni þetta vakti mikla athygli og þótti takast vel.

Á Íslandi var efnt til ritgerðasamkeppni meðal ungmenna 20 ára og yngri undir kjörorðinu: Með pennann að vopni. Ritgerðirnar skyldu fjalla um kynþáttafordóma, útlendingahræðslu eða togstreitu vegna mismunandi trúarbragða. Sjö ritgerðir hlutu viðurkenningu og var sú ritgerð sem hlaut fyrstu verðlaun birt á sínum tíma í Morgunblaðinu.

Tvær ráðstefnur, önnur fyrir æskulýðsleiðbeinendur og hin fyrir fjölmiðlafólk um vandamál tengd kynþáttafordómum, voru haldnar með þátttöku Íslendinga.

Norræna ráðherranefndin stóð fyrir gerð tveggja sjónvarpsmynda um þetta verkefni sem hafa verið sýndar á Norðurlöndum annars staðar en á Íslandi en Ríkisútvarpið \mbox{-- sjónvarp} hefur því miður ekki enn þá séð sér fært að taka þær til sýningar sem vonandi getur staðið til bóta.

Öll þessi verkefni að undanskilinni rannsókninni á kjörum nýbúa voru kostuð af norrænu ráðherranefndinni. Þetta voru helstu þættir átaksins en áhersla hefur verið lögð á að þar með sé þó afskiptum ráðherranefndarinnar ekki lokið. Samstarfsráðherrar Norðurlanda fólu skrifstofu ráðherranefndarinnar í júní á þessu ári að leggja fram yfirlit um það á hvern hátt sé unnið gegn útlendingaandúð á Norðurlöndunum og tillögur um frekari samnorrænar aðgerðir. Þessarar tillögu er að vænta nú fyrir árslok og verður þá tekin afstaða til hennar.

Ég vænti þess, herra forseti, að með þessu hafi ég svarað því sem að hér var borið fram.