Fornminjarannsóknir í Reykholti

Miðvikudaginn 04. desember 1996, kl. 14:05:55 (1786)

1996-12-04 14:05:55# 121. lþ. 34.4 fundur 168. mál: #A fornminjarannsóknir í Reykholti# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., KÁ
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur

[14:05]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég efast um að nokkur sjálfstæð þjóð sé jafnskammt á veg komin að kanna fornleifar í sínu landi og við Íslendingar. Eftir því sem ég best fæ séð vantar hér algerlega alla stefnumótun í þeim málum. Mér finnst nokkuð furðuleg sú stefna sem fram kom í bréfi þjóðminjavarðar um að sögustaðirnir væru ekki það sem skipti mestu máli. Fræðimenn getur auðvitað greint á um það hvar beri að byrja, en að mínum dómi skiptir það mjög miklu máli, til þess að hægt sé að byggja upp á sögustöðunum þjónustu við ferðamenn og tengja þá við sögu þjóðarinnar, við skólana o.s.frv., að þessir staðir séu kannaðir og því lýsi ég furðu minni á þessu. Við eigum mjög mikið eftir í að kanna alla helstu sögustaði þjóðarinnar. Það er sama hvort við tökum Skálholt, Hóla, Reykholt, Þingvelli, það er nánast sama hvað er, við eigum þetta allt eftir. Því vil ég skora á hæstv. menntmrh. að beita sér fyrir því að móta stefnu í fornleifarannsóknum. Ég held að það sé algerlega nauðsynlegt að það verði sett upp forgangsröð. Það er ágætt að fornleifafræðingar myndi sín eigin fyrirtæki og sinni rannsóknum, t.d. fyrir sveitarfélög, en ríkisvaldið á að móta stefnu í þessum efnum, herra forseti.