Fornminjarannsóknir í Reykholti

Miðvikudaginn 04. desember 1996, kl. 14:07:39 (1787)

1996-12-04 14:07:39# 121. lþ. 34.4 fundur 168. mál: #A fornminjarannsóknir í Reykholti# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., StB
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur

[14:07]

Sturla Böðvarsson:

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. 8. þm. Reykv. fyrir þessa fyrirspurn sem vekur athygli á mikilvægu máli. Hann vitnaði til viðtals í Morgunblaðinu á sínum tíma og sem vakti verulega mikla athygli. Á þessum stutta tíma hér gefst ekki mikið tækifæri til að ræða þetta efnislega. En vegna þess að ég hef nokkuð komið að málum Þjóðminjasafnsins vil ég segja í fyrsta lagi að það er fjarri lagi að þar ríki metnaðarleysi hvað varðar fornleifarannsóknir. Þjóðminjaráð hefur markað þá stefnu að fornleifaskráning sem er auðvitað aðalatriði málsins og mikilvægasta atriðið í fyrstu, og fornleifarannsóknir verði forgangsverkefni á vegum Þjóðminjasafnsins. Í því sambandi var ráðinn sérstakur verkefnisstjóri sem sinnir skipulagi og undirbúningi fornleifaskráningar á vegum Þjóðminjasafnsins. Auk þess koma aðrir að því verki.

Einnig vil ég nefna að á vegum þjóðminjaráðs hefur verið unnið að mjög viðamikilli stefnumótunarvinnu til þess að styrkja m.a. fornleifaskráningu og fornleifarannsóknir.