Fornminjarannsóknir í Reykholti

Miðvikudaginn 04. desember 1996, kl. 14:11:50 (1790)

1996-12-04 14:11:50# 121. lþ. 34.4 fundur 168. mál: #A fornminjarannsóknir í Reykholti# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur

[14:11]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég vil andmæla því að metnaðarleysi ríki hjá þjóðminjavörslunni eða Þjóðminjasafni Íslands á þeirra starfsvettvangi. Hitt er ljóst að þegar við ræðum um þessa staði og þegar við ræðum um sögustaðina og veltum fyrir okkur forræði á þessum stöðum og hver á að hafa frumkvæði í málefnum þeirra, þá er ekki unnt að kasta ábyrgðinni að öllu leyti yfir á Þjóðminjasafnið eða þjóðminjavörsluna. Kirkjan fékk Skálholt afhent. Þingvellir eru undir sérstakri nefnd, Þingvallanefnd, sem er að velta fyrir sér hvernig hún getur staðið að þessu og Hólar eru með sínum hætti o.s.frv. Við sjáum að þegar Reykjavíkurborg tók við Viðey og fékk hana að gjöf, þá var ráðist í mjög skipulegar fornleifarannsóknir þar. Við sjáum líka að þegar uppbygging fer fram á Bessastöðum, hefur verið ráðist í mjög yfirgripsmiklar fornleifarannsóknir þar. Það þarf líka að velta fyrir sér hug forráðamanna staðanna í hverju tilviki, þ.e. hvaða hug þeir bera til þess að efna til slíkra rannsókna og hvernig þeir vilja byggja staðina upp. Og við vitum að í Reykholti hefur á undanförnum árum verið lögð áhersla á annað en fornleifarannsóknir í uppbyggingu þess staðar.

En það gefast tækifæri til þess kannski á næsta ári að endurskoða hlutverk Reykholts almennt og hvaða starfsemi þar á að fara fram. Minn hugur stendur til þess, ef þau tækifæri gefast, að tengja starfsemina í Reykholti betur hinni fornu menningu sem þar var og nafni Snorra Sturlusonar og þá liggur í augum uppi að menn munu einnig leggja aukna rækt við fornleifarnar og það sem í jörðinni er falið.