Móttöku- og hlustunarskilyrði Ríkisútvarpsins á Vesturlandi

Miðvikudaginn 04. desember 1996, kl. 14:17:42 (1793)

1996-12-04 14:17:42# 121. lþ. 34.5 fundur 169. mál: #A móttöku- og hlustunarskilyrði Ríkisútvarpsins á Vesturlandi# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., GuðjG
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur

[14:17]

Guðjón Guðmundsson:

Herra forseti. Móttökuskilyrði útvarps og sjónvarps eru víða afleit á Vesturlandi, t.d. í sveitunum sunnan jökuls, í Dalasýslu, Grundarfirði, uppsveitum Borgarfjarðar og víðar. Þessi mál voru ítarlega rædd á aðalfundi Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi í hittiðfyrra þar sem útvarpsstjóri sat fyrir svörum og hann hafði það eitt að segja að úr þessu yrði ekki bætt nema Ríkisútvarpið fengi meira fé á fjárlögum. Þetta finnst mér ekkert svar vegna þess að Ríkisútvarpið hefur úr miklum fjármunum spila og það er spurning um forgangsröð hvernig menn raða verkefnum á þeim bæ. Ég lít á það sem algert forgangsverkefni hjá Ríkisútvarpinu að sjá til þess að allir landsmenn sitji við sama borð hvað varðar útsendingar útvarps og sjónvarps og reyndar einnig þeir sem starfa á fiskimiðunum í kringum landið. Þar horfa mál að vísu til betri vegar þegar nýi langbylgjusendirinn á Gufuskálum verður tekinn í notkun í byrjun næsta árs, en eftir stendur að mikill fjöldi Vestlendinga og annarra landsmanna verður að sætta sig við það ár eftir ár að vera annars flokks borgarar hvað varðar möguleika á að njóta útsendinga útvarps og sjónvarps og það er með öllu óviðunandi.