Móttöku- og hlustunarskilyrði Ríkisútvarpsins á Vesturlandi

Miðvikudaginn 04. desember 1996, kl. 14:22:25 (1797)

1996-12-04 14:22:25# 121. lþ. 34.5 fundur 169. mál: #A móttöku- og hlustunarskilyrði Ríkisútvarpsins á Vesturlandi# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur

[14:22]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Að sjálfsögðu hlýtur það að vera markmið Ríkisútvarpsins að sendingar þess náist um landið allt og þarf ekki að árétta það frekar. Ég hef hins vegar viljað beita mér fyrir því að Ríkisútvarpið hætti sjálft að reka dreifikerfið og það liggja fyrir hugmyndir um að Póstur og sími taki að sér þetta dreifikerfi og tryggi landsmönnum aðgang að sendingum jafnt frá Ríkisútvarpinu sem öðrum útvarpsstöðvum hvar sem er í landinu. Það held ég að sé markmið sem við eigum að vinna að að Ríkisútvarpið verði þá viðskiptavinur Pósts og síma eða þess aðila sem sér um dreifikerfið og það eigi ekki endilega að vera hluti af Ríkisútvarpinu. Ég held að það séu starfshættir sem ekki ber að ýta undir heldur að þarna sé um verkaskiptingu að ræða og Ríkisútvarpið kaupi þá þessa þjónustu í stað þess að reka þetta kerfi sjálft. Að því mun ég vinna og að því hef ég verið að reyna að vinna og koma í framkvæmd, en viðræðurnar milli þessara tveggja ríkisstofnana hafa staðið í langan tíma án þess að niðurstaða hafi fengist. Ég gerði mér vonir um að það lægi ljósar fyrir núna í haust heldur en raun ber vitni, en þetta er málefni, held ég, sem mundi leysa þetta til frambúðar. Einnig hef ég verið sannfærður um það að önnur tækni en sú sem beitt er núna við útsendingu á útvarps- og sjónvarpsefni ætti betur við fyrir okkur hér á mörgum stöðum í landinu heldur en þær stöðvar sem nú eru reknar. Mig brestur tækniþekkingu til þess að leggja endanlegan dóm á það en mér finnst að í þessu máli öllu hafi þróunin verið mjög hæg og það hljóti að vera unnt að taka upp nýja starfshætti að þessu leyti.