Afhending á niðurstöðum úr samræmdum prófum

Miðvikudaginn 04. desember 1996, kl. 14:31:41 (1800)

1996-12-04 14:31:41# 121. lþ. 34.6 fundur 170. mál: #A afhending á niðurstöðum úr samræmdum prófum# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., SJóh
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur

[14:31]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Um það er ekki deilt að nauðsynlegt er að leggja fyrir nemendur í grunnskólum samræmd könnunarpróf svo kennarar geti áttað sig á hvar þeir standa með sinn hóp miðað við heildina og einkum hvaða atriði það eru sem þarf að fara betur í. En slík próf sem hér um ræðir og alltaf eru lögð fyrir í sömu fögum hljóta að virka mjög stýrandi á kennsluna þegar það er jafnframt yfirlýst að meðaltal úr skólum skuli gert opinbert og því gefið undir fótinn að þar með geti foreldrar og fjölmiðlar þá líka borið saman gæði skóla. Þessi áform eru vægast sagt mjög óréttlát þar sem nemendur koma úr mjög mismunandi umhverfi og það vita allir skólamenn að nemendur, sem koma upp til hópa af heimilum vel menntaðra foreldra sem eru efnahagslega vel stæðir, stunda skólanám af meiri marksækni en hinir sem koma af heimilum sem verr standa að þessu leyti.