Afhending á niðurstöðum úr samræmdum prófum

Miðvikudaginn 04. desember 1996, kl. 14:32:47 (1801)

1996-12-04 14:32:47# 121. lþ. 34.6 fundur 170. mál: #A afhending á niðurstöðum úr samræmdum prófum# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., PHB
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur

[14:32]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Gæðaeftirlit og samkeppni hefur vantað í menntakerfið. Upplýsingar úr þessari könnun munu leiða til eftirfarandi: Foreldrar munu gera kröfur fyrir hönd barna sinna, en flestum foreldrum er mjög annt um framtíð barna sinna. Skólastjórnendur munu gera kröfur til starfsmanna sinna og bæta skipulag og ná fram virkari vinnubrögðum. Metnaðarfullir kennarar fá umbun verka sinna. Dugmiklir nemendur fá raunhæfan samanburð við aðra nemendur í öðrum skólum.

Herra forseti. Niðurstaða könnunar um kunnáttu íslenskra barna í raungreinum sem rædd var hér í gær, og mér var meinað að taka þátt í, sýnir okkur að breytinga er þörf. Meðalmennskudýrkunin og sú stefna að gera alla Íslendinga jafngáfaða hefur beðið skipbrot.