Afhending á niðurstöðum úr samræmdum prófum

Miðvikudaginn 04. desember 1996, kl. 14:36:48 (1805)

1996-12-04 14:36:48# 121. lþ. 34.6 fundur 170. mál: #A afhending á niðurstöðum úr samræmdum prófum# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur

[14:36]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Það sem við erum hér að ræða um er réttur fólks til upplýsinga. Við erum að ræða um rétt til upplýsinga. Við erum að ræða um það að fólk fái upplýsingar um það hvernig ástandið er í skólunum þar sem börnin þeirra stunda nám. Ef menn telja að með því að veita slíkan rétt sé vegið að menntun og verið að gjörbreyta og kollvarpa öllu skólakerfinu í landinu, þá held ég að fyrir löngu hefði átt að upplýsa fólk um þetta. Ef menn eru svo hræddir við þær upplýsingar sem munu út úr þessu koma að það verði til þess að byggðaþróun verði með allt öðrum hætti heldur en hún hefur verið og svo fram eftir götunum eins og hér hefur verið sagt, þá segi ég: Því fyrr því betra sem við getum upplýst fólk um þessa hluti. Og ég dreg ekki þá ályktun af þessu að við séum að skaða byggðir, að við séum að vega að börnum, að við séum að vega að fjölskyldum. Við erum að veita upplýsingar um það hvernig skólar standa í samanburði hver við annan og um það hvaða starf fer fram í skólunum. Og ef þetta er slík bylting í þjóðfélaginu að það muni raska allri byggð í landinu þá finnst mér nú fólk seilast heldur langt í umræðum, eins og svo oft þegar skólamálin ber hér á góma, og draga upp þá dökku mynd að breytingar frá núverandi skipan muni leiða af sér einhverjar gífurlegar hörmungar. Ég held að svo verði ekki. Það er liður í nútímavæðingu okkar þjóðfélags að veita þessar upplýsingar, að fólk hafi aðgang að þeim og sjái hvernig skólarnir standi sig.