Tekjuskattur og eignarskattur

Miðvikudaginn 04. desember 1996, kl. 18:08:21 (1811)

1996-12-04 18:08:21# 121. lþ. 35.2 fundur 146. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (rekstrartap, afskriftareglur, hlutabréf o.fl.) frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur

[18:08]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það var vakin athygli á því í dag að bekkur ríkisstjórnarinnar væri nokkuð þunnskipaður. Mér sýnist enn vera svo. Mér finnst tæpast annað við hæfi en a.m.k. hæstv. fjmrh. sé fenginn hingað á fundarstað. Ég beini þeim vinsamlegu tilmælum til hæstv. forseta að hann geri hæstv. fjmrh. aðvart að umræðan fari fram að honum fjarstöddum. Það hlýtur að vera gáleysi hjá hæstv. ráðherra en ekki neitt annað sem veldur.

(Forseti (GÁ): Forseti verður því miður að upplýsa að hæstv. ráðherra er veikur í dag. Hins vegar skal forseti verða við því að hnippa í ráðherra sem munu vera á þingflokksfundum og segja þeim að umræðan sé hafin.)

Herra forseti. Mér var ekki ljóst að þessi umræða færi fram við þær aðstæður að hæstv. fjmrh. væri óvígur og ekki til staðar þannig að það eru nýjar upplýsingar. Ég ætla svo sem ekki að tjá mig um það frekar hvort við hæfi sé að umræðan fari þá fram en lágmark finnst mér nú að viðstaddur sé einhver fulltrúi hæstv. ríkisstjórnar þannig að umræðan fari ekki fram í því tómarúmi að enginn sé til staðar til svara af hálfu hæstv. ráðherra.

(Forseti (GÁ): Forseti upplýsir að hér er mættur hv. formaður efh.- og viðskn.)

Já, mér er það ljóst, herra forseti, og veit að það munar um minna. En engu að síður er það svo að venja er að ekki fari fram umræður um meiri háttar stjórnarfrumvörp án þess að einhver ráðherra sé viðstaddur. En auðvitað legg ég þetta í vald forseta eins og allt annað og veit að ...

(Forseti (GÁ): Forseti hefur þegar gert ráðstafanir til þess að aðvara ráðherra um að umræðan sé hafin.)

Þá hef ég trú á því að úr þessu rætist fljótt, herra forseti.

Um frv. er það að segja, herra forseti, að það telst kannski ekki til stærstu tíðindanna í skattamálum hæstv. ríkisstjórnar, en þó er það auðvitað hluti af þeirri stefnu, ef stefnu skyldi kalla, sem hæstv. ríkisstjórn er smátt og smátt að móta í skattamálum á ferli sínum. Við fengum smjörþefinn af ýmsu á síðasta þingi sem lýtur að skattamálum og áfram er haldið meira og minna á sömu braut á þessum vetri samanber þau frv. sem fyrir liggja um skattamál og önnur, hverra koma er boðuð, m.a. í grg. með þessu frv. Það verður að segja eins og er að allt er þetta heldur dapurlegt miðað við góð orð og fögur fyrirheit, til að mynda annars stjórnarflokksins, Framsfl., sem ætlaði hvers manns vanda að leysa þegar hann kæmist til valda samanber loforðin fyrir síðustu kosningar. Það var ekki síst í skattamálum og hvað varðaði afkomu fjölskyldnanna og fólksins í fyrirrúmi sem þá átti að róa fyrir.

Hér koma svo frumvörpin hvert á fætur öðru. Eins og ágætlega var gerð grein fyrir í framsögu ræðumanns minni hluta, hv. 11. þm. Reykn., Ágústs Einarssonar, er þetta frv. meira og minna allt á aðra hliðina. Að því leyti sem það er til ívilnunar eða hagsbóta fyrir einhvern þá er það undantekningarlaust á fyrirtækjahliðina eða þeirra sem stóreignirnar eiga í landinu, en það litla sem að almenningi snýr er í formi skerðingar á frádráttarheimildum sem hann hefur haft. Þannig snýr það nú og eftir stendur að þessi ríkisstjórn, báðir stjórnarflokkarnir, hafa haft uppi stór orð um að þeir hygðust taka á ýmsu óréttlæti í skattamálum sem mönnum er orðið ljóst og snýr að almenningi, t.d. eins og hinum illræmdu jaðaráhrifum í skattkerfinu og sérstaklega beinast að barnafólki og húsbyggjendum, námsmönnum og öðrum slíkum. En það örlar ekki á neinu af því tagi nema verið er að íþyngja almenningi með breytingum sem víðs vegar eru rökstuddar með því að síðan eigi að nota þá fjármuni til að taka eitthvað af jaðarskattavandanum en það örlar hvergi á efndum á þeirri hlið, hvergi. Það virðist svo að skattapakki ríkisstjórnarinnar fari í gegnum þingið í vetur fyrir áramótin, því að eins og menn þekkja þarf að afgreiða þau mál áður en skattárið hefst, án þess að nokkur skapaður hlutur verði gerður á þessu þingi í þeim efnum. Í fyrra var þó til málamynda örlítið dregið úr tekjutengdri skerðingu barnabótaauka fjölskyldna með fleiri en eitt barn, bara lítillega þannig að það mældist. Það var ekki mikið meira en það. Það var þó lítillega í þá átt en hér er ekki neitt á dagskrá og menn skjóta sér á bak við nefnd sem sé að möndla með þetta úti í bæ og það virðist eiga að drepa tímann meira og minna út þetta kjörtímabil.

Við skulum gera okkur grein fyrir því, herra forseti, að ef við missum þetta skattár fram hjá okkur sem í hönd fer, þá verður kjörtímabil þessarar ríkisstjórnar, sem guð forði okkur frá að sitji nema eitt kjörtímabil, hálfnað þannig að það fer að verða kort um tímann til efndanna á þessum stóru loforðum, að maður tali nú ekki um hinum miklu kosningaloforðum Framsfl. sem er týndur eins og kunnugt er um þessar mundir, herra forseti, og hefur ekki komið fram þrátt fyrir ítrekaðar eftirgrennslanir og auglýsingar í dálkunum Tapað/fundið og annars staðar þar sem venjan er að leita að týndum munum.

Um efni þessa frv. get ég í sjálfu sér haft styttri ræðu vegna ágætrar framsöguræðu fyrir áliti minni hlutans sem var flutt áðan. Ég vil þó ræða um nokkra þætti sem málið varðar sérstaklega og staldra fyrst við 2. gr. frv. Þar er nokkuð sérkennilegt möndl á ferðinni þar sem ákveðið er skyndilega að um útreikninga á svonefndri verðbreytingafærslu verði horfið frá að nota byggingarvísitölu og farið yfir í neysluverðsvísitölu. Það er því verið að leggja hana til grundvallar verðuppreikningum í bókhaldi fyrirtækjanna og má spyrja ýmissa spurninga í því sambandi.

[18:15]

Nú er ekki endilega þar með sagt að byggingarvísitalan sem slík sé heilög og hún eigi að vera einhver viðmiðun eða grundvöllur í skattkerfinu. Það kæmi mjög til greina að til væri einhver skattvísitala eða verðuppfærsluvísitala sem væri sérstaklega færð í því skyni en það hefur heldur verið á þá leiðina að menn væru að banna slíka hluti. Ég man ekki betur en hér væru sérstaklega sett lög um það í fyrra að banna skattvísitöluna, sem einhvern tímann var til og notuð. Hér liggur auðvitað, eins og víðar, fiskur undir steini og ástæðan er ósköp einföld. Það er verið að hlífa fyrirtækjunum við þeirri hækkun á byggingarvísitölu sem orðið hefur að undanförnu. Það er ekkert annað verið að gera. Og í staðinn fyrir að þessi uppfærsla yrði upp á 6%, sem nemur hækkun byggingarvísitölunnar, þá verður hún 2%. Þetta er eins gersamlega tært og nokkuð getur verið. Þeir geta að því er virðist eftir pöntunum frá fyrirtækjahliðinni eða hið háa Vinnuveitendasamband eða að hið háa æruverðuga Verslunarráð mætir á sviðið og pantar eitt stykki breytingu af þessu tagi, þá koma þær umsvifalaust fram í brtt. meiri hlutans ef ekki í frumvarpsformi frá ríkisstjórn. Herra forseti. Ég vildi að þetta væri svona þægilegt fyrir ýmsa aðra í þjóðfélaginu. Ég minni t.d. á að verkalýðshreyfingin hefur barist fyrir því ár eftir ár að fá persónufrádráttinn uppfærðan um áramót eins og var. Þó að ekki sé mikil breyting sem í því felst í lítilli verðbólgu munar samt um það. Það er alveg morgunljóst að með þeirri aðferð sem tekin var upp, að vísu í tíð fyrri ríkisstjórnar en haldið er hér, að hætta að uppfæra persónufrádráttinn um árabót eru skattleysismörkin tekin niður frá því sem ella væri. Það er ljóst. Þannig verkar það. Og halda menn að verkalýðshreyfingin hafi getað mætt á fund í efh.- og viðskn. eða sent eitt stykki bréf og fengið svona beiðnir umsvifalaust teknar inn í frv.? Nei, aldeilis ekki. Þessu hefur ekki verið ansað jafnsjálfsagt leiðréttingar- eða réttlætismál og þar er á ferðinni þ.e. að persónudrátturinn sé færður upp þannig að hann fylgi verðlagi og rýrni ekki af þeim sökum. Að hann sé ekki reiknaður upp fyrr en á miðju ári við álagningu skatta eða festur í krónutölum án tillits til verðþróunar milli skattára. En því er ekki ansað.

Hér er hins vegar á ferðinni ágætisdæmi um möndl af þessu tagi, möndl í skattkerfinu sem er ákveðnum aðilum til hagsbóta. Og auðvitað er þetta allt of algengt að verið sé að hringla með svona hluti, möndla með þá þegar menn vilja koma fram einhverju pólitísku markmiði af þessu tagi, eins og hér er á ferðinni þ.e. að hlífa fyrirtækjunum við þessari uppfærslu, sem ég skal ekkert um segja að væri ekki alveg jafneðlileg út frá aðstæðum að þarna væru notuð 6% en ekki 2%. Ég hygg að byggingarvísitalan mæli jafnvel frekar ýmsa þætti sem mælast í verðlagi til fyrirtækja en neysluverðsvísitalan. Það má um það deila, held ég, hv. þm., formaður efh.- og viðskn., sem nú tjáir sig hér úti í salnum með því að hrista ákaft höfuðið. Ég tel rétt að það komi fram í þingtíðindum af því að það heyrist ekki þar.

Ég held, herra forseti, að þarna sé eitt dæmið af mörgum og það fyrsta í þessu frv. um möndl af þessu tagi. Það er alveg hárrétt sem bent var á í framsöguræðu fyrir minnihlutaáliti að ef farið er yfir pöntunarlista hagsmunagæslumanna, stóratvinnurekenda og fjármagnseigenda frá undanförnum árum og þeir bornir saman við skattbreytingar í tíð þessarar ríkisstjórnar, þá er það einn og sami hluturinn meira og minna. Það má segja að allt sé látið eftir þeim í stóru sem smáu að mestu leyti. Við erum því enn þá á þeirri braut að verið er að búa til skattaparadís gróðafyrirtækja, ekki endilega þeirra fyrirtækja sem eru að byggja sig upp eða eru að fjárfesta í þekkingu og rannsóknum því það eru engar sérstakar ívilnanir í skattalögum til þeirra. En það eru gróðafyrirtækin sem sérstaklega hafa notið breytinganna undanfarin ár þegar aðstöðugjaldið var fellt niður, þegar skattprósentan á hagnaði fyrirtækja var stórlækkuð þannig að hún er til muna lægri en á launum launamanna og enn eru á ferðinni ýmsar lagfæringar, sem ég kem betur að síðar, lagfæringar í þágu þessara aðila. Það er von að þeir uni hag sínum nokkuð vel um þessar mundir. Á því eru að vísu undantekningar, eins og til að mynda það sem snýr að fiskvinnslunni, í frv. til laga um tryggingagjald og verður það væntanlega rætt síðar, herra forseti.

Í öðru lagi í 3. gr. frv. var ætlun meiri hlutans að fella með öllu brott þann frádrátt á skattgreiðslu manna vegna hlutafjárkaupa sem verið hefur í gildi um nokkurra ára skeið. Má segja að mörg efnisrök séu orðin fyrir því að taka þennan frádrátt burtu og þar kemur til sá vísir að skattlagningu fjármagnstekna sem þó komst á hér sl. vor þó skammt gangi. Þá ætti að breyttu breytanda að verða frekar hvatning fyrir hendi fyrir þá sem laust fé hafa til fjárfestinga að setja það yfir í hlutafé en liggja kannski með það á skattfrjálsum reikningum eins og áður var. En eftir stendur að álit margra sem að þessu komu var að óskynsamlegt væri að standa svona að þessari niðurfellingu og jafnvel beinlínis stórvarasamt vegna þess að í eðli sínu væri um afturvirk ákvæði laga að ræða ef sá frádráttur sem verið hefur í lögum með heimild til að dreifa yfir fimm ár væri afnuminn á einu bretti. Á þetta hefur meiri hlutinn fallist að nokkru leyti og er lögð fram brtt. með nál. um að þrepa þetta niður í áföngum. Ég vil strax lýsa ánægju minni með að sú tillaga er þó flutt. Ég tel mun skárra að ganga þannig frá málinu án þess að það eyði endilega réttaróvissu um hvort menn geti hugsanlega á grundvelli gildandi laga keypt fyrir áramótin, áður en lagabreytingin verður, skammt sem dugir til næstu fimm ára og látið síðan reyna á rétt sinn fyrir dómstólum til að draga hann frá skatti næstu fimm ár. Það er margt sem bendir til þess að staða manna væri sterk með slíkt mál fyrir dómstólum.

Þá kemur í 4. gr. að atriði sem ástæða er til að staldra lítils háttar við. Ég vil reyndar áður en ég hverf frá þessu með hlutafjárkaupin minna á að rökstuðningur akkúrat fyrir þeirri breytingu kemur til með að spara ríkinu umtalsverða fjármuni frá því sem verið hefur undanfarin ár, því það er ljóst að þessi frádráttur vegna hlutafjárkaupa hefur kostað ríkið allmörg hundruð milljóna á undanförnum árum. Menn hafa í sjálfu sér verið að láta ríkið borga þetta fyrir sig að miklu leyti, rúmlega 1/3 eða svo. Þetta hefur auðvitað verkað þannig að tiltölulega mikill fjöldi hefur keypt fyrir lágmarksupphæð til að nýta þennan frádrátt og í sjálfu sér er allt gott um það að segja. Úr því að hann er fyrir hendi er ekkert nema gott um það að segja að fjármagn beinist inn í atvinnulífið til uppbyggingar þar. Auk þess sem hluthöfum hefur fjölgað í mörgum almenningshlutafélögum og margt mætti jákvætt um þá þróun segja. En röksemdir ríkisstjórnarinnar fyrir breytingum á þessum lið eru þær helstar, herra forseti, að afla eigi tekna upp í lækkun jaðarskatta og það á að gera það. Það á að afla teknanna. En útgjöldin eiga ekki að fylgja. Það hefur gleymst. Það er ekkert með í þessum málum sem varðar ráðstöfun þessara tekna í það verkefni að lækka jaðarskattana. Ég vil lýsa eftir því, herra forseti. Þess vegna væri gott að ríkisstjórnin færi nú að birtast. Að vísu sé ég hilla undir hæstv. utanrrh. sem er eins og kunnugt er maður afar vel að sér um skattamál þó að hann sérhæfi sig í öðru um þessar mundir --- að maður fengi einhver svör um hvar áform ríkisstjórnarinnar standi um þetta mál. Ætla menn að skjóta sér á bak við þann bjálfadóm, liggur mér við að segja, að einhver nefnd úti í bæ sé að velta þessu fyrir sér ár eftir ár, sömu svör og við fengum í fyrra? Það er ekki mjög frambærilegt. Halda menn að fólkinu þyki það mjög merkilegar skýringar þegar spurt er um efndir í þessum efnum --- að nefnd úti í bæ sé að vinna að málinu, eins og í fyrra og hittiðfyrra? Ég sé að hæstv. forseti er brúnaþungur yfir þessu og það er von. Þetta er ekki mjög merkileg frammistaða.

Herra forseti. Það er enginn vandi tæknilega að verja tilteknum fjármunum í það verkefni að lækka jaðarskatta, ekki nokkur vandi. Fyrir þinginu liggur frv. um það mál þar sem lagt er til að þetta verði gert með ákvæði til bráðabirgða sem bætist við tekjuskattslögin og taki a.m.k. til næsta árs á meðan menn skoða málið betur hvað framtíðarfyrirkomulag snertir. Þetta verði einfaldlega gert með því að forgangsraða hinum tekjutengdu bótaþáttum þannig að þeir séu ekki skertir allir samtímis. Þessa útfærslu hef ég borið undir sérfræðinga í skattamálum víða í kerfinu, bæði í fjmrn. og hjá ríkisskattstjóra og ég hef fengið þau svör að þetta eigi í sjálfu sér ekki að vera neinum sérstökum vandkvæðum bundið hvað framkvæmd snertir. Það er farið að fara í taugarnar á mér, herra forseti, þetta væl um að sumir hlutir séu svo óskaplega tæknilega erfiðir að ekki sé hægt að framkvæma þá. En öðru, sem er kannski mjög flókið og erfitt, er stundum þröngvað í gegnum þingið á nokkrum sólarhringum án nokkurrar skoðunar. Það hef ég oft upplifað, því miður, og þetta eru ekki frambærileg rök. Það er miklu hreinlegra að koma til dyranna eins og menn eru klæddir og segja að því miður sé ekki pólitískur vilji fyrir því, menn telji sig ekki hafa efni á því eða hvað það væri annað sem menn vildu bera fyrir sig. Ég óska eftir því, herra forseti, að einhver talsmaður ríkisstjórnarinnar svari því áður en þessari umræðu lýkur hvar áformin um að lækka jaðarskattana eru á vegi stödd. Ef engin úrlausn verður á þessum málum áskil ég mér allan rétt til að flytja við 3. umr. málsins brtt. þannig að menn standi frammi fyrir því svart á hvítu í umræðunni um þetta megintekjuskattafrv. fyrir árið 1997 hvort pólitískur vilji sé til þess á þingi að gera eitthvað í þessu máli. Það er búið að tala og tala og tala. Málið liggur alveg skýrt fyrir. Það er búið að sýna fram á það með ýmiss konar útreikningum og dæmum hvernig þetta kemur við þúsundir barnafjölskyldna í landinu sem hafa verið að reyna að koma sér upp húsnæði á undanförnum árum. Það hrópar algerlega í himininn að fjölskyldurnar eru í þeirri stöðu í stórum stíl að ekki nema kannski ein króna af hverjum fjórum eða fimm sem aflað er í tekjur á tilteknu launabili verður eftir í umslaginu. Afgangurinn hverfur í þessi jaðaráhrif í skattkerfinu, í tekjuskatt, útsvar, í skerðingu á tekjutengdum barnabótaauka, vaxtabótum, í tekjutengdar afborganir námslána og guð má vita hvað. Staða þessa hóps er því gersamlega óbærileg. Hún er vonlaus. Menn eru fastir í vítahring sem búið er að búa til af kerfinu með misráðnum aðgerðum þar sem eitt hefur lagst ofan á annað.

Tekjutenging getur vel átt rétt á sér sem slík þegar verið er að ráðstafa tilteknum fjármunum til ákveðinna hópa og menn vilja stýra þeim t.d. til tekjulægra barnafólks sérstaklega. Upp að vissu marki getur það verið skynsamleg ráðstöfun en reynslan hefur sýnt okkur annað og það eru menn loksins sem betur fer farnir að viðurkenna. Lengi vel talaði maður fyrir daufum eyrum um þær ógöngur sem við erum komin út í. Ég man eftir því strax snemma á síðasta kjörtímabili þegar ég var að reyna að halda uppi umræðum um þessi mál í sambandi við skattapólitík á þingi eða skrifa um það blaðagreinar, þá fékk það satt best að segja ekki miklar undirtektir en mikil og ánægjuleg breyting hefur orðið þar á síðustu missirin. Menn sjá auðvitað af þeim dæmum sem hafa verið reidd fram hversu óréttlátt þetta ástand er og hættulegt og menn vita að þetta eru þær fjölskyldur sem eru að lenda í mestum erfiðleikunum, eru að lenda í vanskilum með húsnæðislán og ráða ekki við greiðslubyrðina. Þeim mun bjálfalegra er að koma með aumingjalegar afsakanir, fyrst og fremst sér til málsbóta, gagnvart vandamáli af þessu tagi sem allir eru farnir að viðurkenna í raun. Og ekkert er gert. --- Hér kemur hv. þm. Pétur Blöndal og ég skora á hann að tjá sig lítillega um þetta mál því ég hef trú á að hv. þm. kunni eitthvað á þetta.

[18:30]

Þá kem ég, herra forseti, að 4. gr. frv. þar sem fjallað er um tapfrádrátt fyrirtækjanna. Hér er nú ein snilldin á ferðinni, þessi tapfrádráttur fyrirtækjanna. Það er sem sagt þannig að mönnum þykir ekki nóg að mega nota þann tapfrádrátt upp á fimm ár sem ætlunin hefur verið að fyrirtækin hafi á eftir sér á hverjum tíma, heldur þurfi nú að breyta þessu og rýmka sérstaklega. Það er auðvitað alveg ljóst að hér er um mjög stóra ákvörðun að ræða vegna þess að þarna eru miklir fjármunir á bak við. Uppsafnað tap fyrirtækjanna er, samkvæmt upplýsingum sem okkur í minni hlutanum í efh.- og viðskn. tókst að toga út, 80 milljarðar kr. eða tæplega það. Af þeim var gert ráð fyrir, hefði fimm ára reglan gilt, að fella niður 30 milljarða nú um næstu áramót, sem þar af leiðandi hefðu ekki orðið fyrirtækjunum nýtanlegir til að draga frá skattskyldum tekjum.

Þá kemur að því að það hefur borist pöntun frá réttum stöðum um að þessu verði kippt í liðinn. Að sjálfsögðu var ákveðið að verða við henni af meiri hluta ríkisstjórnarinnar af því að hún kom frá vinnuveitendum eða Verslunarráðinu þessi pöntun. Það er athyglisvert að sjá rökin sem færð eru fram, að þetta sé svona fullskammt tímabil, þessi fimm ár og sérstaklega í ljósi íslenskra aðstæðna. Auk þess sé það svo að rekstrartap frá erfiðleikaárunum 1988--1990 nýtist ekki lengur að óbreyttum lögum. En þarna er bara hálf sagan sögð, herra forseti. Það er athyglisvert að þetta er orðað svona vegna þess að sleppt er að skýra frá því í greinargerð, að með þessari lengingu eru í raun endurvakin til frádráttar hjá fyrirtækjunum árin áður en tapsyfirfærsluheimildirnar voru þrengdar. Með þessari breytingu sem hér á að leggja til, er endurvakið það sem var við lýði þangað til 1989 eða 1990, ég man ekki alveg um hvor áramótin það breyttist, að fyrirtæki gátu keypt upp tap frá öðrum fyrirtækjum, þess vegna í alveg óskyldum rekstri. Menn gátu verið í sjávarútvegi og keypt sér tap sem vídeóleigur höfðu orðið fyrir einhvers staðar í Breiðholtinu eða guð má vita hvað. Og fræg eru auðvitað dæmin af því þegar hið glæsilega gjaldþrot Nútímans, hét hann það ekki, herra forseti, Nýi Tíminn, NT, sem fór myndarlega á hausinn með mig minnir eitthvað um 80 millj. gjaldþroti einmitt á þessum árum, var keypt af ónefndu gróðafyrirtæki hér í bænum rétt fyrir áramótin áður en þetta breyttist.

Með þessari breytingu er opnað aftur fyrir það að þau fyrirtæki sem eiga gamalt tap vegna starfsemi í alls óskyldum atvinnurekstri geta nýtt það. Var það sérstaklega það sem vakti fyrir mönnum, að halda þessu opnu? (VE: Nei, það er verið að hjálpa þessum litlu fyrirtækjum sem er verið að setja af stað.) Já, það er verið að gera það já. Er það Vífilfell hf. og slík fyrirtæki? Mig minnir að ýmsir hafi verið býsna athafnasamir við þessi tapkaup þarna fyrir áramótin áður en þetta breyttist. Ætli það hafi verið litlu fyrirtækin sem voru stofnuð nokkrum árum seinna? Ég held ekki, hv. þm. Þau voru ekki mætt á sviðið til að kaupa þá. Og ég er ekkert viss um að það sé gáfulegasta ráðstöfunin til þess að hvetja til nýsköpunar í atvinnulífinu að lokka menn út í slíkt með því að segja: Svo megið þið tapa alveg eins og þið mögulega getið fyrstu árin því þið getið notað það seinna. Er nú ekki heldur betra að segja við menn: Þið skuluð svo reyna að græða og við munum þá frekar taka á málinu frá þeirri hlið.

Ég held að þetta sé mjög sérkennilegt mál, herra forseti. Þarna er ríkisstjórnin allt í einu að leggja til að bakka aftur í fortíðina og opna fyrir að gróðafyrirtæki nútímans geti lækkað skattgreiðslur sínar vegna þess að þau höfðu einhvern tíma fyrr á öldinni keypt sér eitthvert tap. Þetta er sullumbull í skattamálum sem á ekki að sjást. Eða er þetta kannski nútímavæðing à la ríkisstjórn Davíðs Oddssonar, 2. ráðuneyti, sem menn eru þá stoltir af, því að menn taka sér stundum það orð í munn að menn séu að nútímavæða hlutina eins og hæstv. menntmrh. gerði í dag? Það er þá sennilega nútímavæðing að mega nota tapið af NT og Álafossi.

Staðreyndin er sú, herra forseti, að þetta er meinsemd í skattkerfinu í dag. Hún veldur því að fyrirtækin sem hagnast vel skila alls ekki sínum hlut af skatttekjunum í dag og nærtækasta sönnunin er skattskil fyrirtækjanna á líðandi ári. Ég man ekki betur en samkvæmt áætlun Þjóðhagsstofnunar eða endurskoðun á tekjuhlið ríkissjóðs fyrir þetta ár hafi það komið fram í sumar eða haust, að tekjuskattsgreiðslur fyrirtækjanna verða minni en menn ætluðu. Í besta falli standa þær í stað í góðærinu miðju, á sama tíma og tekjuskattur einstaklinganna verður langt umfram áætlun, af því að það hefur vissulega orðið ákveðið skrið og meiri hagvöxtur en spár gerðu ráð fyrir. Það hefur ekki síst komið fram í miklum gróða fyrirtækjanna sem hafa verið að skila ársreikningum fyrir síðasta ár og milliuppgjöri og átta mánaða uppgjöri á þessu ári með verulegum hagnaði sum hver. Þau fyrirtæki skipta núna nokkrum tugum sem eru að gera upp með hagnaði mældum í hundruð millj. kr. og alveg upp undir milljarði kr. þau stærstu. T.d. óskabörn þjóðarinnar sem skiluðu glæsilegri útkomu á síðasta ári og samkvæmt fréttum horfir allvel með á þessu ári ef ég man rétt. Nokkur stærstu sjávarútvegsfyrirtækin eru að hagnast myndarlega og ég sé ekkert að því, þegar svo er komið, að þau leggi þá sitt til samneyslunnar. Ástæðan fyrir því að þau gera það ekki, borga jafnvel minni tekjuskatt á þessu ári en í fyrra, er fyrst og fremst sú að þau eiga í fórum sínum svo ríflega gamla tapfrádrætti. Er það þá eðlileg ráðstöfun við þær aðstæður sem við erum nú stödd í, menn eru að reyna að loka fjárlögunum og stoppa upp í gatið, að bakka þá aftur í fortíðina og endurvekja sem frádráttarheimildir tap sem sum þessi fyrirtæki keyptu á grundvelli heimskulegra reglna sem í gildi voru og heimiluðu þeim að kaupa tap úr alls óskyldum rekstri? Hvers konar skynsemi er það í skattamálum og réttlæti yfir höfuð, herra forseti? Þetta er að mínu mati alveg fráleitt.

Ef menn hefðu viljað lengja þetta tímabil vegna framtíðarinnar, eins og hv. þm. Vilhjálmur Egilsson gaf í skyn í frammíkalli, þá átti að gera það þannig að halda árinu 1990 sem viðmiðun en bæta þá við einu ári á næstu þremur árum til að lengja tímabilið, þannig að tapi frá og með tímanum sem búið var að ákveða og því sem myndast á næstu árum, yrði hægt að jafna yfir lengra tímabil, ef mönnum er þessi regla svona heilög og mikilvæg. Þetta auðvitað alltaf spurning um hvernig skattamálum eigi að skipa almennt og þarna er eitt af því sem er svo himinhrópandi ólíkt skattalegri meðferð einstaklinganna annars vegar og fyrirtækjanna hins vegar. Ég er ansi hræddur um að margur launamaðurinn mundi þiggja það að mega t.d. færa ónýttan persónuafslátt milli ára, er það ekki? Ég er hræddur um að það gæti komið sér víða vel ef menn verða fyrir skyndilegu tekjufalli, áföllum og óhöppum. Í raun væri það alveg sambærileg aðgerð gagnvart einstaklingunum og lögaðilunum, að þeir gætu dreift áföllum í tekjum sínum eða afkomu sinni yfir eitthvert lengra tímabil, en væru ekki gerðir miskunnarlaust upp á hverju ári eins og launamennirnir eru. Svo maður tali nú ekki um, að þeir gætu yfirleitt dregið tapið sitt frá í sköttum, t.d. tapreksturinn á heimilum sínum ef hann er fyrir hendi. En því er nú ekki aldeilis að heilsa, herra forseti.

Það er mjög merkilegt að ríkisstjórnin skuli vera það óforskömmuð liggur mér við að segja að koma hér með aðgerð sem mun lækka tekjuskatt gróðafyrirtækjanna í landinu eftir allt sem á undan er gengið gagnvart þeim. Eftir lækkun á prósentunni, eftir niðurfellingu aðstöðugjaldsins á sínum tíma um nokkur hundruð millj., sennilega a.m.k. hálfan milljarð, því það er farið mjög vægt í sakirnar þegar verið er að meta þetta af sérfræðingum ríkisstjórnarinnar. Hún lækkar sem sagt þessa 4--5 milljarða sem fyrirtækin þó eru að borga í tekjuskatt af hreinum hagnaði sínum, á sama tíma og einstaklingarnir eru að borga hátt í 20 milljarða í tekjuskattinn einan. Þarna er satt best að segja um mjög sláandi og lýsandi dæmi að ræða, herra forseti, um það hvar samúð ríkisstjórnarinnar liggur, hvar ríkisstjórnin sér breiðu bökin í þjóðfélaginu annars vegar, hjá hinum almenna launamanni, barnafjölskyldunum og húsbyggjendunum, og hins vegar hverjum hún telur að þurfi alveg sérstaklega að hlífa um þessar mundir. Það verður fróðlegt að fara yfir það þá á næsta ári við skattauppgjörið hvernig þessi breyting hefur til að mynda lækkað tekjuskatt ýmissa einstakra greiðenda, hverjum er verið að gefa gjafirnar hér, hverjir fá mest af þessum hálfa milljarði sem ríkisstjórnin hefur ákveðið að færa gróðafyrirtækjunum í landinu sem viðbótarjólapremíu, færa þó þeim fyrirtækjum sem yfirleitt eru einhvern tekjuskatt að borga eða gætu lent í því að borga einhvern tekjuskatt.

Svo er það eitt enn, herra forseti, sem er rétt að nefna í þessu sambandi, að ákvæði af þessu tagi hefur þann ókost að menn fara að spila á þessa hluti. Það er auðvitað opinbert leyndarmál að fjöldinn allur af fyrirtækjum hefur verið að spila á þetta ákvæði núna síðustu eitt, tvö árin vegna þessarar fimm ára takmörkunar. Hvernig hana menn gert það? Menn hafa búið sér til mikinn hagnað með ýmsum aðferðum, t.d. eignasölu í fyrirtækinu á meðan tapið væri nýtanlegt. Síðan ætla þeir í fjárfestingar á nýjan leik þegar komið væri út fyrir tímabilið og mynda þá afskriftarstofn og jafnvel færa afkomuna úr fyrirtækjunum úr hagnaði yfir í tap. Þetta sjá menn vel ef þeir skoða t.d. að sum fyrirtæki hafa verið að gera upp með bókhaldslegum miklum hagnaði á undanförnum einu, tveimur árum, þó að hagnaður úr rekstri væri ekki mikill. Þá er verið að spila á þetta. Þá er verið að búa sér til innstæður í raun, forsendur til þess að greiða lægri skatta í heild á tilteknu tímabili. Þannig að það má vel segja að það orki verulega tvímælis að hafa svona reglur í raun og veru mjög rúmar í skattkerfinu yfir höfuð. Ég er þeirrar skoðunar að það sé að mörgu leyti miklu æskilegra að hafa þau ákvæði, sem menn vilja búa um í skattalögum gagnvart fyrirtækjum og eiga að hvetja til nýsköpunar og fjárfestingar og auðvelda þeim þá hluti eða til sveiflujöfnunar, hafa þau með pósitífum hætti. Þá á ég fyrst og fremst við það að menn fái sérstaka frádrætti vegna slíks kostnaðar, menn fái jafnvel flýtifyrningar vegna nýfjárfestinga og/eða menn geti lagt í varasjóði að einhverju leyti áður en til skattgreiðslna kemur og sveiflujöfnunin sé á því formi en ekki hinu að menn geti dregið með sér eldgamalt tap misjafnlega vel fengið endalaust inn í framtíðina. Það er heldur ógeðfellt að mér finnst og ekki jákvæð nálgun í málinu.

Herra forseti. Hvernig gengur þetta með ríkisstjórnina? Er henni svipað komið og þessu tapi sem hér er til umræðu, mikill halli á ríkisstjórninni? Hún er alla vega ekki hér í salnum. Ég vek athygli á þessu, herra forseti. Það er nokkuð umliðið síðan forseti af myndugleik sínum sendi út skilaboð um að það væri lýst eftir ríkisstjórninni. (SvG: Það er tekið frekar lítið mark á forsetanum.) Ja, það getur ekki verið, myndugleiki forseta hlýtur að vera óumdeildur hér gagnvart þessu.

(Forseti (GÁ): Forseti upplýsir að það eru þrír hæstv. ráðherrar í húsinu og skal nú enn og aftur ítrekuð sú beiðni, ekki rétt, að þeir gangi í salinn.)

Ég þakka forseta mjög og aftur fyrir góð viðbrögð. Ég veit að forseti getur ekki meira aðhafst en mælast til þess að ráðherrarnir mæti. Honum er ekki heimilt að beita öðrum aðferðum en þeim að þeir komi hingað sjálfviljugir.

[18:45]

Herra forseti. Það eru nokkur önnur atriði sem ég ætla lítillega að nefna og hlaupa þá yfir margt sem ég sé ekki ástæðu til að gera að miklu umtalsefni, eins og afskriftareglurnar sem hér er lítillega verið að möndla við. Það er ekki stórt mál og má segja að þar sé um eðlilegar lagfæringar að ræða. Vissulega er sitthvað í þessu frv. og fleiri skattamálum af slíkum toga að þar er um eðlilegar tæknilegar lagfæringar að ræða eins og gengur og ekkert nema gott um það að segja.

Í 6. gr. er ákvæði sem rétt er að nefna bara til að fagna því að þar er í samræmi við aðrar breytingar sem hér hafa verið gerðar á þingi að undanförnu á réttarstöðu einstaklinga í staðfestri sambúð, samkynhneigðra sem búa saman, ákvæði sem felur í sér að heimilt verði eftirleiðis að skattleggja þá eins og um hjón væri að ræða. Að sjálfsögðu er það eðlileg og löngu tímabær breyting og þó fyrr hefði verið. En hana hefur tæplega verið hægt gera fyrr en málin voru komin í það horf sem þau eru nú loksins.

Þá vil ég lítillega nefna það, herra forseti, að það er boðað í athugasemdum með frv. að til standi að fella niður skattgreiðslur af arði, það litla sem eftir er af þeim, þ.e. þessi 10%. Rökin eru að mér skilst þau að þá eigi að vísu að fella niður frádráttarbærni arðgreiðslnanna hjá fyrirtækjunum en hún hefur verið séríslenskt fyrirbæri --- að það væri heimilt að draga frá sköttum þann arð sem borgaður væri út til eigendanna áður en til slíks kæmi. Þess vegna gætu menn lækkað skatt sinn eða myndað yfirfæranlegt tap jafnvel við þær aðstæður. Hér er bara á ferðinni enn ein ívilnunin af þessum toga sem ég hef gert hér áður að umtalsefni. Þær eru að verða býsna margar þegar það er lagt saman hér í frv. þar sem verið er að lagfæra hitt og þetta gagnvart fyrirtækjunum, en það sem snýr að launamönnunum er íþyngjandi. Og af því að hæstv. ráðherrar eru komnir hér í gættina þá vil ég endurtaka það að ég lýsti áðan eftir áformum ríkisstjórnarinnar hvað varðaði það að lækka jaðaráhrifin í skattkerfinu, vegna þess að það er beinlínis fært fram hér sem röksemdir fyrir tiltekinni tekjuöflun á kostnað almennra skattgreiðenda að það eigi að nota þær tekjur og þá fjármuni til að draga úr jaðaráhrifum í skattkerfinu. Það bólar hins vegar hvergi á efndunum og það er ekki líðandi að ríkisstjórnin komist í gegnum þessa umræðu annað árið í röð án þess að svara nokkru til um það hvar þessi áform eru á vegi stödd, hvort sem það verður hæstv. dómsmrh., hæstv. utanrrh. eða einhver annar sem verður til svara, skal ég taka það gott og gilt, svo lengi sem einhver angi ríkisstjórnarinnar er hér til staðar, svona eins og 10% af henni að minnsta kosti. Þá meina ég í tölum talað en ekki endilega í þyngd, ekki í líkamsþyngd endilega því þá gæti það orðið mjög snúið mál að finna út hver það ætti að vera, hver væri akkúrat meðalþyngd. (Gripið fram í: Gæti orðið brot úr ráðherra.) Já, gæti kallað á hluti sem við viljum helst ekki ræða hér í þessum stól.

Í nál. minni hlutans er, að gefnu tilefni, herra forseti, farið nokkuð ítarlega yfir skýrslu Þjóðhagsstofnunar um tekju- og eignadreifingu í þjóðfélaginu. Af hverju erum við að gera þetta að umtalsefni? Jú, það er auðvitað vegna þess að þar eru dregnir fram hlutir sem maður skyldi ætla að hefðu haft einhver áhrif á þá stefnu sem hæstv. ríkisstjórn tekur með þessi skattamál. Að mönnum hefði t.d. verið einhver alvara í því að reyna að taka eitthvað á málum, við skulum segja lakast settu 10% sem þar eru dregin fram, hvað varðar afkomu, eignastöðu og stöðu í skattkerfinu, stöðu gagnvart hinum margnefndu jaðarsköttum o.s.frv. En það er nú aldeilis ekki. Það er eins og hæstv. ríkisstjórn viti ekki af því ef eitthvað er alveg þveröfugt. Hafi ákveðið að snúa hlutunum á haus og gera eitthvað sem frekar veldur því að þarna mun enn draga í sundur. Bilið milli ríkra og fátækra mun halda áfram að aukast í landinu. Launamunurinn mun halda áfram að aukast eða ráðstöðunartekjumunurinn, milli t.d. vel stæðra eignahjóna á góðum aldri sem eru búin að koma börnum sínum á legg, ef einhver hafa verið, og bera ekki lengur kostnað af húsnæðisskuldbindingum. Þau þurfa að hafa hátt í 500 þús. kr. á mánuði til að reka sig upp í hið lága hátekjuskattþrep sem að nafninu til er í skattkerfinu. Þessi hjón eru á löngu launabili skattlögð mun vægar í heldur en önnur, t.d. með börn og húsnæðisskuldbindingar á sínum herðum, sem hafa miklu lægri tekjur. Svona er íslenska skattkerfið. Eignakönnunin sem nú hefur verið gerð og afkomukönnunin sýnir þetta auðvitað mjög vel. Hún endurspeglar akkúrat hvernig þarna er að draga í sundur milli þeirra sem sitja uppi með allar sínar skuldbindingar, verðtryggðar á háum vöxtum, og verða fyrir barðinu á jaðarsköttunum. Og vantar þó enn að mestu leyti inn í mælingarnar þann hóp sem mun eiga allra erfiðast á næstu árum. Það er fólkið sem er að koma úr námi. Það þarf ekki flókna útreikninga til að sýna fram á að sá hópur mun lenda í enn vonlausari stöðu en nokkur hefur gert fyrr þegar hann kemur heim og fer að reyna að koma undir sig fótunum og þræla sjálfum sér út myrkranna á milli, vinna hérna 1 1/2--3 mánuði umfram það sem menn gera í nágrannalöndunum til þess að reyna að lifa og missa svo frá 7--8% og upp í 11--12% ráðstöfunartekna sinna í tekjutengda afborgun námslána einna. Það leiðir af endurgreiðslukröfunum í námslánakerfinu eins og þær eru núna. Þegar menn eftir tiltekinn árafjölda hækka úr 5 í 7% af brúttótekjum þýðir það augljóslega fyrir fólk, sem er farið að greiða skatta, skerðingu á ráðstöfunartekjum sem þessu nemur. Þetta er auðvelt að reikna út en við þessu er ekkert gert. Og ætla menn að bíða eftir því að þetta fólk brotni niður því það getur að mínu mati ekkert annað gerst. Það getur hver sem er sem á sæmilega vasatölvu og kann nokkurn veginn margföldunartöfluna og samlagningu, frádrátt og deilingu, sest niður og tekið svona fjögurra, fimm manna fjölskyldu sem er á 4., 5. eða 6. ári eftir langskólanám með full námslán, með brúttótekjur heimilis einhvers staðar á bilinu 150--200 þús. kr. á mánuði og reiknað það dæmi. Það er alveg augljóslega þannig að það gengur ekki upp. Ég held að það sé ekki skynsamlegt að bíða þangað til slík mál eru farin að valda hruni hjá þúsundum heimila í landinu heldur eigi menn, þegar þeir sjá hlutina fyrir, þegar blasir við hvað mun gerast, þá eigi menn að taka á þeim. Af hverju þarf þetta alltaf að vera þannig hér hjá okkur að menn geri aldrei neitt í málunum fyrr en komið er í hreinasta óefni og þúsundir fjölskyldna eru komnar í þrot? Sagan segir því miður, t.d. í endurteknum kollsteypum í húsnæðiskerfinu, að þannig hefur þetta viljað gerast hjá okkur. Það er ekki fyrr en mörg þúsund manns eru komin í bullandi vanskil, komin á nauðungaruppboð, að menn vakna til lífsins og fara þá að reyna að klóra í bakkann. Er nú ekki skynsamlegra að reyna að hafa kerfið þannig frá byrjun að menn eigi einhverja möguleika, geti bjargað sér?

Ég lýsi alveg sérstaklega eftir því að farið verði yfir þá stöðu sem blasir nú við þeim árgöngum námsmanna sem eru núna akkúrat á þessu ári og hinu næsta fyrstu hóparnir sem koma heim og taka til við að borga af námslánum með fullum þunga á grundvelli hinna nýju endurgreiðslureglna. Það mun fara mjög illa fyrir þeim kynslóðum ef ekkert verður að gert. Og hver er staðan í því máli? Jú, það er í nefnd. Það situr allt fast hjá stjórnarflokkunum og það var ekki að heyra hér á hæstv. menntmrh. í gær í utandagsskrárumræðum að það væru neinar góðar fréttir af því að færa. Auðvitað mætti laga þetta mál þeim megin og það er kannski nærtækast að gera það í gegnum endurgreiðslurnar sjálfar hjá lánasjóðnum en ekki lagfæra á móti því í skattkerfinu. En eitthvað verður að gera í öllu falli, herra forseti, það er alveg á hreinu.

Herra forseti. Að lokum þetta. Það sem mér finnst mjög einkenna framgöngu þessarar ríkisstjórnar í skattamálum, eins og hún hefur birst okkur það sem af er þessa kjörtímabils, er tvennt. Það er annars vegar það sem við höfum farið nokkuð rækilega yfir, ég og hv. þm. Ágúst Einarsson, sem snýr að algjörri undirgefni þessarar ríkisstjórnar undir fjármagnseigendurna og fyrirtækin í landinu hvað varðar skattamál, þar sem farið hefur verið yfir listann frá Verslunarráðinu og vinnuveitendum nánast eins og eftir pöntun og allt látið eftir þeim. Hins vegar er það mjög tætingsleg skattstefna, mjög tætingslegar aðgerðir á víð og dreif í skattkerfinu. Ég þykist hafa sæmilega aðstöðu til að dæma um það mál því ég hef auðvitað fylgst með því og vegna vinnu minnar í efh.- og viðskn. fengið flesta þessa pappíra til meðferðar á þessum vetri og hinum síðasta. Mér finnst vinnubrögðin vera tætingsleg og ekki vera þar á ferðinni nein heildarsýn eða samræmd stefna, a.m.k. ekki hvað varðar það sem snýr að launamönnum og almenningi, en hann er jú eins og kunnugt er sá sem ber hitann og þungann af skattbyrði í landinu. Því það er satt best að segja ekki mjög merkilegt sem aðrir borga --- fjármagnseigendurnir og fyrirtækin.

Það er þess vegna þannig, herra forseti, að við viljum ekki, sem minni hlutann skipum, bera ábyrgð á þessari skattstefnu. Við vísum því frá okkur og styðjum ekki það frv. sem hér er til umræðu.