Tekjuskattur og eignarskattur

Miðvikudaginn 04. desember 1996, kl. 19:06:32 (1817)

1996-12-04 19:06:32# 121. lþ. 35.2 fundur 146. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (rekstrartap, afskriftareglur, hlutabréf o.fl.) frv., Frsm. meiri hluta VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur

[19:06]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að enginn ágreiningur sé milli okkar hv. þm. að íslensk fyrirtæki ættu að geta greitt sambærileg laun og erlendir keppinautar. Helst ættu íslensk fyrirtæki að geta staðið betur. Ég er alveg tilbúinn til að taka höndum saman með hv. þm. til að finna leiðir þannig að það geti orðið. Ég vil, hæstv. forseti, upplýsa hv. þm. um að sú lækkun tekjuskatts sem var gerð fyrir nokkrum árum, þá er ég að tala um tekjuskatt fyrirtækjanna, hefur orðið til þess að fyrirtækin í landinu skila meiri tekjum af tekjuskatti inn í ríkissjóð en áður. Það tel ég vera til marks um hvað þessi ákvörðun var skynsamleg á sínum tíma.

En varðandi jaðarskattana þá liggur fyrir að þær aðgerðir sem þing og ríkisstjórn hafa verið að gera á undanförnum árum, fyrst og fremst til að koma til móts við þá sem hafa lægstar tekjur, hafa búið til of stífar tekjutengingar og það er ekki einfalt mál að komast út úr slíkum vanda. Þetta er ekki bara vandi sem við glímum við á Íslandi heldur er þetta sígilt vandamál þar sem menn eru að reyna að styðja þá sem lægstar tekjur hafa. Það er víðar en hér sem menn velta þessum jaðaráhrifum fyrir sér. Aðilar vinnumarkaðarins hafa komið að þessu starfi í nefnd á vegum ríkisstjórnarinnar og ég hygg að menn vilji ræða eitthvað um þau mál í tengslum við gerð næstu kjarasamninga. Ég deili að sjálfsögðu með hv. þm. fullri trú á efh.- og viðskn. (Forseti hringir.) en ég held við ættum líka að sjá til hvaða innlegg kemur í málið frá jaðarskattanefndinni.