Virðisaukaskattur

Miðvikudaginn 04. desember 1996, kl. 19:40:43 (1826)

1996-12-04 19:40:43# 121. lþ. 35.4 fundur 144. mál: #A virðisaukaskattur# (málsmeðferðarreglur o.fl.) frv., Frsm. minni hluta SJS
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur

[19:40]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti minni hluta efh.- og viðskn. Undir það skrifar ásamt mér hv. þm. Ágúst Einarsson og auk þess er áheyrnarfulltrúi Kvennalistans, hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir, aðili að því áliti eða samþykk því.

Efni þessa frv. er má segja í aðalatriðum tvíþætt. Það er annars vegar tæknilegs eðlis og hins vegar pólitískt. Tæknilegi hlutinn lýtur að ýmsum breytingum, m.a. á málsmeðferðarreglum í virðisaukaskattslögum eins og hér var rakið af frsm. meiri hluta áðan. Að hinu leytinu til er þetta frv. tengt þeirri pólitísku ákvörðun ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar frá sl. vetri að lækka endurgreiðslu á virðisaukaskatti til byggjenda íbúðarhúsnæðis vegna vinnu manna á byggingarstað og vegna viðhalds og endurbóta úr 100% niður í 60%.

Hvað fyrra atriðið snertir, sjáum við í minni hlutanum ekki ástæðu til að gera athugasemdir við þær breytingar sem leiða beint af breytingum á öðrum skattalögum eða eru hreinar tæknilegar lagfæringar. Segja má að þar sé ýmislegt sjálfsagt og annað jafnvel til bóta, eins og til að mynda ákvæði 2. gr. um bætta málsmeðferð hvað varðar svonefndar virðisaukaskattsbifreiðar.

Efh.- og viðskn. bárust erindi frá Sambandi ísl. sveitarfélaga og Sambandi sveitarfélaga á Norðurl. v. sem lúta að lagfæringum á virðisaukaskattsuppgjöri sveitarfélaganna. Ég vil fara fáeinum orðum um það, herra forseti, hvað þar er á ferðinni. Þar er annars vegar um að ræða óskir sveitarfélaganna um að breytt verði skilgreiningu á endurgreiðslu virðisaukaskatts sem sveitarfélögin fá vegna söfnunar, meðhöndlunar, flutnings og förgunar úrgangs. Þannig er að gildandi túlkun ríkisskattstjóra er þröng og viðurkennir eingöngu neysluúrgang en ekki allan úrgang sem sveitarfélögin bera lögum samkvæmt ábyrgð á að farga. Þar af leiðandi koma upp ankannaleg dæmi þegar þetta mál er skoðað eins og ágætlega er rakið í umsögn Sambands sveitarfélaga á Norðurl. v. og birt er með áliti okkar.

Það getur sem sagt orðið þannig að mismunandi förgunarleiðir sama úrgangs valdi því að í öðru tilvikinu sé um endurgreiðslu að ræða en í hinu tilvikinu ekki. Frá umhverfissjónarmiðum séð hlýtur það að teljast heppilegra að notuð sé skattaleg hvatning, ef á annað borð er fyrir hendi, til þess að bætt sé framkvæmd förgunarmála og ýtt undir til að mynda hluti eins og endurvinnslu plasts eða brotmálma. Ástandið eins og það er í dag gerir það ekki. Við í minni hlutanum teljum að það hefði verið skynsamlegt að skoða miklu betur en gert var, hvort ekki væri unnt að verða við þessu erindi sveitarfélaganna. Fyrir því eru mörg rök, þó svo að fjmrn. eða þeir sem halda utan um kassann kunni að segja að þetta sé hluti af tekjusamskiptum ríkis og sveitarfélaga og það eigi ekki að raska því, þá er það ansi hart ef ekki má taka afstöðu til svona hluta eða skoða þá út frá efni máls. Ég hygg að þeir sem kynna sér þessi erindi frá sveitarfélögunum, bæði Sambandi ísl. sveitarfélaga og Sambandi sveitarfélaganna á Norðurlandi vestra, hljóti að fallast á að það séu veruleg málsrök fyrir hendi eins og þau eru þar fram sett.

[19:45]

Að hinu leytinu óska sveitarfélögin eftir því að virðisaukaskattur af slökkvi- og björgunarbúnaði verði endurgeiddur. Það er fyrst og fremst rökstutt með því að mjög mikil þörf sé á að endurnýjan slíkan búnað um allt land. Hann er kostaður af sveitarfélögunum og er mörgum þeirra þungur baggi að ráðast í þær fjárfestingar sem þarf að gera. Sömuleiðis teljum við í minni hlutanum að þessa ósk hefði átt að athuga mjög vandlega a.m.k. hvort ekki væri unnt að koma eitthvað til móts við sveitarfélögin í þessu efni.

Ég minni á að okkur í efh.- og viðskn. hefur einnig borist í þessu sambandi samþykkt eða upplýsingar frá svonefndri tækjakaupanefnd Félags slökkviliðsstjóra, Sambands ísl. sveitarfélaga og Brunamálastofnunar. Það er í framhaldi af því að slökkviliðsstjórar um land allt hafa snemma á þessu ári sent þingmönnum, að ég hygg úr öllum kjördæmum áskorunarskjal og í framhaldinu hefur þessi tækjakaupanefnd starfað. Í henni sitja Hrólfur Jónsson, slökkviliðsstjóri í Reykjavík, bæjarstjóri Borgarbyggðar, deildarstjóri hjá Brunamálastofnun og er þá e.t.v. upptalið. Þessi ágæta nefnd hefur farið á fund fjmrh. og kynnt honum áherslur sínar, eins og rakið er í erindinu. Þetta erindi styður að sjálfsögðu þær óskir sveitarfélaganna að virðisaukaskatturinn af þessum kostnaði sé endurgreiddur. Enda hlýtur það eðli málsins samkvæmt að orka nokkuð tvímælis að búnaður af þessu tagi hjá sveitarfélögunum sé að fullu virðisaukaskattskyldur.

Því miður, herra forseti, var það svo að meiri hlutinn í efh.- og viðskn. ákvað að verða við hvorugri ósk sveitarfélaganna, slökkviliðsmanna og Brunamálastofnunar. Það gagnrýnum við í minni hlutanum.

Hið stóra pólitíska mál þessa frv., herra forseti, eru hins vegar ákvæði 9. gr. Það er hluti þeirrar ákvörðunar ríkisstjórnarinnar að lækka endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna vinnu á byggingarstað og vegna viðhalds og endurbóta á húsnæði, eins og áður sagði, úr 100% niður í 60%. Þetta mál var til meðferðar á síðasta þingi og minni hlutinn barðist þá hart gegn þessum áformum og varaði mjög við þeim og sú afstaða stendur óhögguð. Ákvörðun ríkisstjórnarinnar var á sínum tíma, eins og menn eflaust muna, tekin í tengslum við breytingar á vörugjöldum og í raun til þess að fjármagna tiltekna lækkun á þeirri hlið. Með því var skattbyrði flutt yfir á þann hóp sem er að byggja eða endurbæta húsnæði. Sú ráðstöfun almennt í skattapólitísku tilliti hlýtur að teljast fráleit. Það eru engar vísbendingar um það af neinum toga, herra forseti, að húsbyggjendur í landinu séu öðrum landsmönnum færari um að taka á sig skattahækkanir. En verst er þó kannski það að þessi lækkun virðisaukaskattsins er mjög líkleg, og nánast öruggt, að hún kemur til með að koma fram í stórauknum undanskotum frá skatti og aukinni svartri atvinnustarfsemi. Reynslan sýnir það svo ekki verður um villst. Það er reyndar mat þeirra sem til þekkja að nú þegar sjái þess stað í verulegum mæli að tekið sé að draga úr því að reikningum sé skilað. Og þar með hverfa að sjálfsögðu ekki einungis virðisaukaskattskilin af þessum hluta heldur og launatekjur sem myndast í tengslum við viðkomandi starfsemi og þar fram eftir götunum. Þetta mál er reyndar allt hið vandræðalegasta fyrir meiri hlutann, herra forseti, vegna þess að breytingin sem er á ferðinni er í raun afleiðing af því að málinu var algjörlega klúðrað við lagasetninguna á Alþingi á sl. vori. Þó Alþingi allt beri þar sameiginlega ábyrgð hvað varðar vinnubrögð þá hlýtur að skoðast að brtt. meiri hlutans, sem meiri hlutinn einn greiddi atkvæði, reyndust síðan svo meingallaðar að vilji ríkisstjórnarinnar gekk ekki eftir. Menn treystu sér ekki eftir að úrskurðir sérfræðinga í skattamálum lágu fyrir, annað en að halda áfram að endurgreiða virðisaukaskatt vegna viðhalds og endurbóta að fullu út allt þetta ár. Af því að breytingunum var klúðrað á Alþingi á síðasta vetri. Þess vegna verður að grípa til þess að bæta um betur og koma þessari endurgreiðslu úr 100% niður í 60% hvað varðar endurbætur og viðhald húsnæðis einnig. Eftir stendur það að við teljum þessa ráðstöfun óskynsamlega og óréttláta og við leggjumst eindregið gegn henni. Við munum því greiða atkvæði gegn þessu ákvæði frv. og frv. í heild verði það engu að síður samþykkt með þetta ákvæði inni.

Það er rétt að vekja athygli á því, herra forseti, að efh.- og viðskn. fékk umsagnir frá ýmsum aðilum sem varða þetta mál og má þar nefna að Bandalag starfsmanna ríkis og bæja leggst eindregið og mjög hart gegn þessari breytingu og varar við henni með sömu rökum að mestu leyti og við höfum flutt og sama má segja um Samtök iðnaðarins. Þar er því mótmælt mjög ákveðið sem fyrr að gera þá breytingu sem felst í 9. gr. frv. Samtök iðnaðarins segja fullum fetum að þessi breyting auki mjög hættuna á svartri atvinnustarfsemi og leiði þess vegna alls ekki til betri stöðu ríkissjóðs eins og höfundar frv. virðast reikna með. Því er með öðrum orðum haldið fram af Samtökum iðnaðarins að þessi ráðstöfun sem slík hafi alls ekki jákvæð tekjuáhrif fyrir ríkissjóð þegar upp er staðið þannig að það hafist ekkert upp úr krafsinu. Það sem gerist er fyrst og fremst það að hluti þessarar starfsemi hverfur undir yfirborðið og er þá að sjálfsögðu miklu verr af stað farið en heima setið og breytingin öll til óþurftar og óheilla.

Herra forseti. Að öðru leyti er í sjálfu sér ekki mikil ástæða til að fjölyrða um þetta mál. Í því er ekki margt annað en þetta tvennt sem hér hefur verið rakið. Annars vegar þessar tæknilegu lagfæringar og ýmsar breytingar á málsmeðferðarreglum og hins vegar þetta pólitíska atriði sem við leggjumst eindregið gegn og veldur andstöðu okkar við þetta frv.