Almenn hegningarlög

Fimmtudaginn 05. desember 1996, kl. 14:54:04 (1908)

1996-12-05 14:54:04# 121. lþ. 36.14 fundur 29. mál: #A almenn hegningarlög# (barnaklám) frv., Frsm. SP
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur

[14:54]

Frsm. allshn. (Sólveig Pétursdóttir):

Virðulegi forseti. Allshn. hefur fjallað um 29. mál, frv. til laga um breyting á almennum hegningarlögum, um barnaklám, og mæli ég fyrir nál. hennar á þskj. 256 og meðfylgjandi brtt. Allir nefndarmenn allshn. standa að þessu áliti.

Við meðferð málsins fékk nefndin á sinn fund Þorstein A. Jónsson, skrifstofustjóra í dóms- og kirkjumálaráðuneyti, Ágúst Þór Árnason frá Mannréttindaskrifstofu Íslands, Kristínu Jónasdóttur frá Barnaheillum og Þórhildi Líndal, umboðsmann barna. Þá bárust nefndinni erindi frá Lögmannafélagi Íslands, umboðsmanni barna, Barnaheillum og Mannréttindaskrifstofu Íslands, auk þess sem stuðst var við umsagnir frá 120. löggjafarþingi.

Með frv. er lagt til að bætt verði nýrri málsgrein við 210. gr. hegningarlaganna en í því ákvæði er m.a. birting, sala og dreifing á klámi lýst refsiverð. Í frv. er lagt til að bætt verði við 210. gr. ákvæði þar sem varsla barnakláms er sérstaklega gerð refsiverð þannig að hver sem hefur í vörslu sinni ljósmyndir, kvikmyndir eða sambærilega hluti sem sýna börn á kynferðislegan eða klámfenginn hátt skal sæta sektum.

Einnig varðar það sektum að hafa í vörslum sínum eitthvað sem sýnir börn í kynferðisathöfnum með dýrum eða nota hluti á klámfenginn hátt. Með lögfestingu ákvæðisins er jafnframt mótuð afstaða gegn hvers kyns og hvers konar kynferðislegri misnotkun á börnum.

Árið 1994 var lögfest í Danmörku ákvæði er gerir vörslu á myndefni með barnaklámi refsiverða. Svipaðar reglur voru lögfestar í Noregi árið 1992 þar sem m.a. varsla og innflutningur á myndum, kvikmyndum, myndböndum eða sambærilegu efni, þar sem einhver sem er eða virðist vera yngri en 16 ára er sýndur á kynferðislegan eða klámfenginn hátt. Samkvæmt sænskum lögum er ekki refsivert að hafa rit eða annað efni sem sýnir barnaklám í vörslu sinni. Þó er sá refsiábyrgur sem sýnir barn í klámmynd sem dreifa á eða dreifir slíkri mynd ef verknaðurinn telst ekki forsvaranlegur.

Mál þetta var ítarlega rætt í allshn. og beindist umræðan m.a. að því við hvaða aldursmörk ætti að miða í þessu sambandi. Í texta frv. er talað um börn án þess að aldur þeirra sé tilgreindur. Var rætt um það hvort setja ætti ákveðin aldursmörk inn í frumvarpstexta. Varð niðurstaðan sú að slíkt yrði ekki gert. Einnig urðu nokkrar umræður um hvort miða ætti við 16 eða 18 ára aldur. Niðurstaðan varð að eðlilegast væri að miða við 16 ára aldur sem er sjálfræðisaldur. En í athugasemdum með frv. er miðað við lög um vernd barna og ungmenna en þar er skilgreinilng á börnum miðuð við 16 ár.

Ljóst er að upp geta komið erfið sönnunarvandamál þegar ákvarða á hvort einstaklingur á mynd er 16 ára eða yngri. Verður sönnunarstaða þessi enn erfiðari ef aldur er miðaður við 18 ár. Það sem mestu máli skiptir er þó að alvarlegustu tilfellin falla án efa undir þessi aldursmörk. Í tengslum við umræðu um aldursmörk er einnig rétt að minna á önnur ákvæði hegningarlaga er lýsa kynferðisbrot gegn börnum refsiverð og almenn ákvæði laganna um bann við birtingu, sölu og dreifingu á klámi. Því er ljóst að á þessu sviði er það ekki refsilöggjöfin sem er ófullnægjandi heldur frekar að refsiramminn er ekki fullnýttur.

Í nefndinni var einnig rætt nokkuð um dreifingu barnakláms, vörslu þess og friðhelgi einkalífsins. Ljóst er að mikið er af barnaklámi á internetinu og við athugun í sumar kom fram að þar fundust tæplega 5.500 atriði tengd barnaklámi en þetta var upplýst á ráðstefnu Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna sem haldin var í Stokkhólmi í sumar. Er ljóst að leita þarf allra leiða til að koma í veg fyrir dreifingu barnakláms á netinu, en jafnframt stöndum við frammi fyrir því að erfitt er að koma lögum yfir hvað er sett inn á internetið.

Þá hafa þær gagnrýnisraddir heyrst að rannsóknir á brotum gegn ákvæðum frv. geti gengið nærri grunnreglunni um friðhelgi einkalífsins. Þarna er m.a. komin ein ástæða fyrir því að ekki hafa verið sett lög í Svíþjóð sem banna vörslu barnakláms. Þegar ákvörðun er tekin um að gera vörslu barnakláms refsiverða byggist hún á mati á hagsmunum og er það niðurstaðan að verndun barna gegn kynferðislegu ofbeldi er talin mikilvægari og ganga framar öðrum hagsmunum. Þetta er mikilvægt að hafa í huga.

Nefndinni barst ábending frá Barnaheillum um mikilvægi þess að lagasetningu þessari verði fylgt eftir með stuðningi og fræðslu við löggæslumenn og dómstóla og að lögð sé áhersla á alþjóðlega samvinnu um þessi efni. Taka verður undir þessi sjónarmið og leggja þarf áherslu á að talað sé opinberlega um málefni eins og barnaklám og að árvekni almennings sé efld hvað varðar þessi mál.

Nefndin leggur til að gerðar verði tvær breytingar á frv. Annars vegar er lögð til sú breyting á 1. gr. frv. að orðin ,,grófan`` er fellt brott þannig að það varði refsingu að sýna börn nota hluti á klámfenginn hátt, en slíkt verði ekki bundið við grófan klámfenginn hátt. Þannig verður ákvæðið víðtækara án þess þó að ná yfir eðlilegar myndir af börnum. Hins vegar leggur nefndin til að gerð verði breyting á gildistöku laganna þannig að þau öðlist gildi 1. janúar 1997 í stað 1. júlí sama ár. Telur nefndin að það sé nægilegur frestur.

Allshn. leggur til að frv. verði samþykkt með ofangreindum breytingum.