Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 09. desember 1996, kl. 16:49:14 (1933)

1996-12-09 16:49:14# 121. lþ. 37.12 fundur 67. mál: #A stjórn fiskveiða# (framsal veiðiheimilda) frv., 108. mál: #A stjórn fiskveiða# (úrelding fiskiskipa) frv., Flm. GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur

[16:49]

Flm. (Guðmundur Hallvarðsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka þeim hv. þm. sem hér hafa lagt fram þetta frv. til laga um breyting á lögum um stjórn fiskveiða, hvað áhrærir stækkun fiskiskipastólsins.

Það er athyglisvert að sjá í grg., sem ég reyndar vissi fyrir, hve fiskiskipaflotinn er orðinn aldraður. Það er alvarlegt og mikið íhugunarefni og áhyggjuefni sjómannasamtakanna þegar það liggur ljóst fyrir að meðalaldur loðnuskipaflotans er nú 26 ár og elsta skipið í þeim hópi er 38 ára gamalt. Það er svipaður aldur og elsta varðskipið okkar og er löngu talin ástæða til að fara að endurnýja það. Þegar horft er á aðbúnaðinn um borð í skipunum og litið á aldur flotans með tilliti til öryggis sjómanna, þá verð ég að viðurkenna, virðulegi forseti, að ég spyr mig hvers vegna við erum að stíga þessi skref, sem hér er gerð tillaga um, í þessum fetum. Og maður veltir vöngum yfir því, ja --- er þetta bara ekki mál útgerðarinnar? Er ekki eðlilegt að hún hafi bara fullt vald yfir því hvað hún vill byggja stór skip? Hvers vegna ættum við yfir höfuð að hafa áhyggjur af því ef útgerðin getur rekið stærri skip og öflugri og betur búin en þau eru í dag? Það er bara hennar mál.

Í annan stað er líka komið inn á íslenskan skipasmíðaiðnað. Ég get alveg heils hugar tekið undir það með flutningsmönnum. Það er auðvitað mikið áhyggjuefni hve íslenskur skipasmíðaiðnaður er illa staddur og maður spyr líka sjálfan sig: Ber ekki útgerðin skyldur gagnvart íslensku atvinnulífi? Við afhendum þeim auðlindina og þeir hljóta að bera einhverja ábyrgð gagnvart íslensku atvinnulífi. Að þeir séu ekki bara að koma í höfn ef þeir þurfa að láta gera við skipin og þá eigi járniðnaðarmenn að vera tilbúnir til þess að gera við. Það hlýtur líka að vera skylda þeirra að leita leiða um að nýsmíði skipa fari hér fram. Og ég endurtek að mér finnst umhugsunarefni hvort við eigum yfir höfuð að vera með nokkra hömlur á því hversu stór skip þeir vilja smíða með tilliti til öryggis, áhafnar og aðbúnaðar.