Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 09. desember 1996, kl. 17:48:34 (1941)

1996-12-09 17:48:34# 121. lþ. 37.12 fundur 67. mál: #A stjórn fiskveiða# (framsal veiðiheimilda) frv., 108. mál: #A stjórn fiskveiða# (úrelding fiskiskipa) frv., Flm. SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur

[17:48]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef ekki miklu við þetta að bæta öðru en því að ég held að nauðsynlegt sé að gera mjög skýran greinarmun á því hvers konar aðstæður liggja til grundvallar því að ekki næst að veiða úthlutaðar veiðiheimildir í tegundum. Það getur verið mismunandi. Í sumum tilvikum getur það verið vegna þess að ástand stofnsins er kannski lélegra en menn ætla eða fiskurinn gefur sig alls ekki til, eins og dæmin hafa sýnt t.d. um ýsu og ufsa á köflum á undanförnum missirum. En í öðrum tilvikum er alveg ljóst að ástæðan er þveröfug. Ástæðan er sú að stofninn er í svo góðu ásigkomulagi, úthlutaður kvóti er svo mikill að í raun og veru er ekki veiðigeta í landinu eða afkastageta til að nýta hann til fulls. Sérstaklega ekki vegna þess að hún er að hluta til dempuð niður með kvóta, óþörfum kvóta sem ekki eru fiskifræðileg rök fyrir að viðhalda. Þá komum við að því sem rætt var um, að grunnurinn undir þessu var að sjálfsögðu sá að fiskifræðilegar forsendur kölluðu á vernd fiskstofnsins. Það yrði að draga úr sókninni í hann og þess vegna yrði að setja á kvóta.

Ég tel einnig að hollt sé fyrir Alþingi, löggjafann, að velta því fyrir sér hvort það valdaframsal sem í raun er innbyggt í lögin og gefur sjútvrh. alræðisvald gagnvart því hvort og þá hvenær skuli kvótasetja tegundir. Hvort það sé í raun og veru samrýmanlegt t.d. nýjustu hæstaréttardómum þar sem varað er mjög við því að menn gangi án leiðbeiningar svo langt út á þá braut að fela sjútvrh. slíka hluti eða öðrum ráðherrum eftir atvikum.

Herra forseti. Ég held að mjög brýnt sé og þarft að skoða þessa hluti ásamt ýmsu öðru sem hér hefur verið nefnt og sjútvn. mun að sjálfsögðu gera.