Þátttaka Íslendinga í alþjóðasamstarfi

Þriðjudaginn 10. desember 1996, kl. 23:10:14 (2020)

1996-12-10 23:10:14# 121. lþ. 38.16 fundur 132. mál: #A þátttaka Íslendinga í alþjóðasamstarfi# þál., SJS
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur

[23:10]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég vil aðeins bæta fáeinum orðum við þessa ágætu umræðu sem hér hefur orðið um þarfa tillögu sem lúta að því að ef eitthvað er þá þurfi þetta verkefni að mínu mati að vera enn víðtækara en það sem hér er lagt til, þ.e. að taka til gagngerrar endurskoðunar og endurskipulagningar hvernig þátttaka okkar í alþjóðlegu samstarfi verði sem markvissust einfaldlega með tilliti til getu okkar til þess að sinna öllum þeim fjölþættu verkefnum sem þarna eru á ferðinni og ört vaxandi.

Staðreyndin er sú að aðili eins og til að mynda Alþingi eitt og sér og svo stjórnkerfið í heild sinni, hefði að mínu mati fulla þörf fyrir að setja vinnu í að fara rækilega yfir þetta svið og reyna að endurskipuleggja og gera þátttöku okkar sem allra markvissasta í þessu víðtæka alþjóðlega samstarfi sem ég dreg ekkert úr og er alveg sammála þeim sem hér hafa talað um að er okkur mjög mikilvægt að vera fullgildir þátttakendur í. Það liggur hins vegar algerlega í hlutarins eðli að möguleikar okkar til þess að vera alls staðar til staðar og taka þátt í t.d. ýmsu undirstarfi á vegum alþjóðlegra stofnana eru mjög takmarkaðir. Við höfum hvorki mannafla, tíma né fjármuni þess að manna allar nefndir og ýmiss konar undirstarf sem er á vegum stærri alþjóðlegra samtaka og stofnana. Eftir sem áður er mjög mikilvægt að við reynum eftir bestu getu að skipuleggja þátttöku okkar og gera hana markvissa. Þó að ég sé síður en svo að draga úr því að þetta sé skoðað út frá þeim sjónarhóli sem tillagan leggur upp, þar á meðal og ekki síst þeim að taka nýja tækni og nýja möguleika til athugunar sérstaklega í þessu sambandi, þá hef ég oft talað fyrir því á undanförnum árum, m.a. í mínum þingflokki að þörf væri á því að Alþingi og eftir atvikum stjórnkerfið allt, ráðuneytin og jafnvel stærstu hagsmunaaðilar sem í einhverjum mæli eru að reyna að gæta hagsmuna sinna eða fylgjast með þróun mála á erlendri grundu með fulltrúum, tækju þessi mál sameiginlega til skoðunar þannig að fyrirtækið Ísland hf. ef svo má að orði komast skipulegði þessa alþjóðadeild sína sem markvissast. Ég tek það skýrt fram að ég er alls ekki að tala út frá einhverjum heimóttarlegum sjónarhóli um að við eigum að draga lappirnar eða draga af okkur í þessum efnum, heldur þvert á móti með því hugarfari að við reynum að vera sem allra víðast til staðar og taka eftir föngum og eins og okkur er mögulegt þátt í alþjóðlegu samstarfi en gera það markvisst til að ná árangri. Ef eitthvað er, þá vildi ég, herra forseti, leyfa mér að mælast til þess við hv. þingnefnd að það yrði skoðað að fara enn rækilegar yfir þessi mál heldur en jafnvel tillagan leggur þau upp, og hugsanlega að Alþingi taki það upp á sínum vegum og eftir atvikum í samstarfi við aðra aðila í stjórnkerfinu að farið yrði í rækilega úttekt á allri þátttöku okkar allra Íslendinga í alþjóðlegu samstarfi út frá þessum sjónarhóli.

Það er rétt að minna á í þessu sambandi að lokum að nú líður varla svo ár að ekki bætist við a.m.k. einn alþjóðlegur vettvangur sem Ísland ætlar sér að reyna að vera aðili að. Bara núna á síðustu tveimur, þremur, fjórum árum hafa þeir bæst við a.m.k. jafnmargir og árin og nú síðast má nefna nýstofnað heimskautaráð og jafnvel fyrirhugaða samvinnu þinganna í tengslum við það og nýjar stofnanir hafa litið dagsins ljós í evrópsku samstarfi.