Varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum

Þriðjudaginn 10. desember 1996, kl. 23:15:20 (2021)

1996-12-10 23:15:20# 121. lþ. 38.17 fundur 141. mál: #A varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum# (gjöld af innlendri framleiðslu) frv., Flm. SJS
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur

[23:15]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 28/1985, um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum. Flm. ásamt mér eru þingmenn úr öllum þingflokkum, hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir, Sighvatur Björgvinsson, Kristín Ástgeirsdóttir og Stefán Guðmundsson.

Frv. er einfalt að gerð. Það varðar fyrst og fremst breytingu á einu ákvæði 12. gr. laganna og er lagt til að hún orðist svo:

,,Fella skal niður eða endurgreiða aðflutningsgjöld og virðisaukaskatt af efni og tækjum sem framleidd eru innan lands eða flutt sérstaklega til landsins til varna gegn ofanflóðum.``

Í ljós hefur komið að gildandi lög, þessi téða 12. gr. er þannig úr garði gerð að hún mismunar innlendri og erlendri framleiðslu efnis og tækja til ofanflóðavarna. Í 12. gr. laganna nú er ákvæði um að fella skuli niður eða endurgreiða aðflutningsgjöld og sölugjald, eins og það er reyndar þar orðað, af efni og tækjum sem flutt eru sérstaklega til landsins til varna gegn ofanflóðum. Þetta er hins vegar túlkað svo, samanber meðfylgjandi bréf fjmrn., sem er fylgiskjal, að ekki sé heimilt að innlend vara, efni eða tæki, fái sömu meðferð. Þar snýr að sjálfsögðu að sölugjaldinu sem svo var kallað, nú virðisaukaskatti, og fjmrn. hefur úrskurðað eða tekið þá afstöðu að lögin heimili ekki að endurgreiddur sé virðisaukaskattur af tækjum eða búnaði til ofanflóðavarna ef hann er framleiddur á Íslandi. Það er hins vegar ótvírætt að slíkan virðisaukaskatt ber að endurgreiða ef varan er flutt inn til landsins. Og það hljóta allir menn að sjá, herra forseti, að þetta er alveg fráleit staða í lögunum og kemur einfaldlega til af því að mönnum hefur yfirsést sá möguleiki á sínum tíma þegar lögin voru sett að til þess kæmi yfir höfuð að Íslendingar sjálfir framleiddu efni, tæki eða búnað sem notaður væri í þessu skyni.

Það er mjög í tísku um þessar mundir, herra forseti, að rjúka upp til handa og fóta ef nokkurs staðar hallar á innflutning til landsins og erlenda framleiðslu og á hún sér þá yfirleitt fjölmarga fylgismenn sem eru jafnan tilbúnir að krefjast breytinga á, jafnvel kæra Ísland fyrir erlendum dómstólum ef innflutningur eigi ekki jafngreiða leið inn í landið og innlend framleiðsla á. Í þessu tilviki snýr málið öfugt. Við höfum í lögum ákvæði sem mismunar gróflega innlendum framleiðendum þeim í óhag í þessu efni. Og ég held að allir hljóti að sjá að það getur ekki gengið. Til viðbótar er svo frá því að segja, herra forseti, að á þetta ákvæði hefur reynt nýlega þ.e. innlend framleiðsla hefur liðið fyrir það þegar Veðurstofan hugðist kaupa ákveðin tækjakost eða búnað til að gera tilraunir með tiltekin varnarmannvirki þá kom í ljós að fjmrn. taldi ekki heimilt að endurgreiða af þeim virðisaukaskatt ef keyptur væri innlendur búnaður. Þannig standa þau mál að innlendur framleiðandi hefur orðið fyrir barðinu á þessari mismunun sem er auðvitað aldeilis fráleitt. Og af því ég sé nú að hér kemur einn af ágætum nefndarmönnum úr hv. iðnn. þá vil ég leyfa mér að vekja athygli hv. iðnn. á þessu fráleita máli, að innlendum iðnaði er þarna gróflega mismunað í samanburði við innflutning. Og ég vísa til fylgiskjals með málinu, herra forseti.

Ég vil leyfa mér að vona að þetta mál fái skjóta afgreiðslu af því að á það reynir um þessar mundir. Ég fer fram á það, herra forseti, að því verði veittur sá atbeini að það nái hér afgreiðslu og lögfestingu fyrir áramót. Ég get ekki ímyndað mér að á því sé nokkur minnsta hætta að um þetta mál geti orðið ágreiningur jafnsjálfsagt og það er, eðli sínu samkvæmt, og bendi á að það hefur einnig stuðning flm. úr öllum þingflokkum.

Að lokinni þessari umræðu, herra forseti, legg ég til að málinu verði vísað til 2. umr. og það mundi vera hv. allshn., ef ég veit rétt, sem ætti að fjalla um málið.