Mengunarvarnareglugerð

Miðvikudaginn 11. desember 1996, kl. 14:50:50 (2041)

1996-12-11 14:50:50# 121. lþ. 39.3 fundur 188. mál: #A mengunarvarnareglugerð# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi HG
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur

[14:50]

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegur forseti. Á þskj. 209 ber ég fram svohljóðandi fyrirspurn til hæstv. umhvrh.:

1. Hvaða ástæður liggja að baki breytingu á 65. gr. mengunarvarnareglugerðar nr. 48/1994, sbr. reglugerð nr. 394/1996?

2. Hefur breyting ákvæðisins áhrif á málsmeðferðarreglur vegna veitingar starfsleyfis á grundvelli ákvæða mengunarvarnareglugerðar, sbr. ákvæði 26. gr. laga um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, nr. 81/1988?

3. Með hvaða stoð í lögum er reglugerð nr. 394/1996 sett?

Ég veitti því nýlega athygli að hæstv. umhvrh. hafði þann 3. júlí 1996 gefið út breytingar á mengunarvarnareglugerð nr. 48/1994, sem m.a. varða ákvæði 65. gr. reglugerðarinnar um athugasemdir við starfsleyfistillögur fyrirtækja, þar á meðal fyrirtækja í orkufrekum iðnaði. Breytingar þessar eru afar sérkennilegar, svo ekki sé meira sagt, með tilliti til ákvæða þeirra laga sem setning reglugerðarinnar hvílir á, en það eru lög nr. 81/1988, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, með síðari breytingum.

Í 2. lið fyrirspurnarinnar er sérstaklega vísað til 26. gr. þessara laga en fyrri liður hennar er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Rísi upp ágreiningur um framkvæmd laga þessara, heilbrigðisreglugerðar, mengunarvarnareglugerðar, heilbrigðissamþykkta sveitarfélaga og ákvarðana heilbrigðisyfirvalda, annar en skv. 1.--2. tölul. 29. gr. og 31. gr., er heimilt að vísa málinu til stjórnar Hollustuverndar ríkisins til úrskurðar. Séu aðilar ekki sáttir við úrskurð stjórnarinnar er heimilt að vísa málinu til sérstakrar úrskurðarnefndar, er starfar samkvæmt lögum þessum, sbr. 2. tölul. 30. gr. ...``

Þessi ákvæði laganna sýnast mér vera fortakslaus að því er varðar málsmeðferð þannig að ekki verði þeim ákvæðum breytt með reglugerð. Tilvísunin í 26. gr. laganna um undanþegin atriði varðar annars vegar 29. gr. laganna, þ.e. mál út af brotum gegn lögunum og reglugerðum settum samkvæmt þeim, en um þau skal fara að hætti opinberra mála, og hins vegar 31. gr. sem segir:

,,Ráðherra getur að fengnum tillögum Hollustuverndar ríkisins sett nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara í reglugerð.``

Reglugerðin frá 1994 tók mið af þessum ákvæðum laganna og einnig um rétt til athugasemda en með nýju reglugerðinni, um breytingu á þessari mengunarvarnareglugerð, virðist eiga að breyta áður viðteknu ferli í veigamiklum atriðum. Það er greint á milli starfsleyfistillagna sem Hollustuvernd ríkisins gefur út og tillagna hins vegar þar sem ráðherra gefur út starfsleyfi að fengnum tillögum Hollustuverndar ríkisins. Í síðara tilvikinu er í þessari nýju reglugerð ekki minnst á úrskurðarnefnd samkvæmt 26. gr. laganna.

Það eru fleiri atriði sem vekja athygli en ég mun víkja að síðar í umræðu um þessa fyrirspurn.