Mengunarvarnareglugerð

Miðvikudaginn 11. desember 1996, kl. 15:01:31 (2044)

1996-12-11 15:01:31# 121. lþ. 39.3 fundur 188. mál: #A mengunarvarnareglugerð# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur

[15:01]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Út af fyrir sig hef ég ekki miklu að bæta við það svar sem ég hef þegar gefið og ég get ekki heldur að því gert þótt hv. þm. sé ósáttur við svarið. Það verður að vera hans mat sem ég út af fyrir sig ræð ekki við. Ég vísa því á bug að á bak við þessa reglugerðarbreytingu liggi eitthvert tiltekið mál eða einhver tiltekinn atburður eða vegna þess að það eigi að úrskurða í einhverjum málum á næstunni. Auðvitað kemur eitthvað slíkt stöðugt upp á borð hjá ráðherra, en því betur er þó mikið af úrskurðunum sem fer fyrst og fremst í gegnum stofnunina sem slíka og hægt er að vísa til stjórnar stofnunarinnar og síðan hægt að vísa til úrskurðarnefndarinnar þeim málum. En það hefur verið talið ótvírætt af hálfu ráðuneytisins og þeirra manna sem þar hafa fjallað um þetta mál og þeirra lögfræðinga sem hafa fjallað um málið af hálfu ráðuneytisins að það sé óeðlilegt að úrskurðarnefndin komi að þeim málum sem ráðherra á að úrskurða um. Það er grunnurinn að þessari breytingu og í raun ekki mikið meira um það að segja.

Auðvitað er hægt að taka á ákveðnum málum í lagabreytingum ef gera þarf einhverjar breytingar. Af hálfu ráðuneytisins er ekki talið að þetta mál varði lagabreytingu heldur fyrst og fremst hvernig beri að skilja og túlka núverandi lög. En það er svo þessu máli óviðkomandi að verið er að endurskoða lögin um hollustuhætti og heilbrigðseftirlit í heild sinni þannig að það mál á eftir að koma á síðara stigi inn í þingið og þá til hv. þm. ásamt til annarra hv. þingmanna og þeirra sem sæti eiga í umhvn. til þess að fjalla um málið í heild sinni.