Rannsóknir á náttúrufræðikennslu í grunnskólum

Miðvikudaginn 11. desember 1996, kl. 15:14:29 (2049)

1996-12-11 15:14:29# 121. lþ. 39.4 fundur 212. mál: #A rannsóknir á náttúrufræðikennslu í grunnskólum# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur

[15:14]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Þessar umræður hafa náttúrlega snúist um annað en fyrirspurnina í sjálfu sér því að eins og fram kom í svari mínu hefur menntmrn. nýtt sér þær niðurstöður sem liggja fyrir í rannsóknum Allyson Macdonald með þeim hætti sem ráðuneytið hefur talið skynsamlegt og að álasa ráðuneytinu eða Sjálfstfl. í þessu efni er náttúrlega út í hött því að enginn flokkur hefur á undanförnum árum beitt sér fyrir eins miklum breytingum á íslenska skólakerfinu og einmitt Sjálfstfl. Undir forustu hans er núna verið að vinna að því að stokka upp námskrárnar, bæði fyrir grunn- og framhaldsskólann og er það í fyrsta sinn í sögunni sem þannig er tekið á málum. Það er því algjörlega ástæðulaust að vera að álasa sjálfstæðismönnum sérstaklega í þessu efni. Hér er um málefni að ræða sem er alveg rétt hjá hv. fyrirspyrjanda að á ekki að koma mönnum sérstaklega á óvart enda hef ég ekki notað önnur orð um þetta mál en þau að ég tel að hér sé um áhyggjuefni fyrir þjóðina að ræða sem eigi að taka á og ég tel að við höfum þegar gert ráðstafanir til þess að skipulega verði tekið á málinu í því skyni að ná betri árangri í íslenska skólakerfinu.