Kennsla í iðjuþjálfun á háskólastigi

Fimmtudaginn 12. desember 1996, kl. 17:37:19 (2110)

1996-12-12 17:37:19# 121. lþ. 42.96 fundur 138#B kennsla í iðjuþjálfun á háskólastigi# (umræður utan dagskrár), menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur

[17:37]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég vil aðeins í lok þessarar umræðu, um leið og ég þakka fyrir þau sjónarmið sem hér hafa komið fram og get tekið undir það að æskilegt sé að nám í iðjuþjálfun komist hér á háskólastig og tel að ráðuneytið hafi unnið með það að leiðarljósi, láta það koma fram að í sjálfu sér er kannski of fast að orði kveðið að segja að Háskóli Íslands hafi ekki áhuga á málinu. Hann hefur hins vegar ekki viljað forgangsraða þessu máli eins og við höfum lagt til í menntmrn. og hann hefur sagt eins og fram kom í minni ræðu, að fái hann aukið fé, þá ætli hann að láta það renna til þeirrar starfsemi sem fyrir er í skólanum þannig að hann hefur þess vegna ekki ákveðið að forgangsraða þessu verkefni miðað við þær fjárveitingar sem skólinn fær, en þær eru hækkaðar á næsta ári. Og það er rangt sem hefur komið fram í umræðunum að lagt sé til í fjárlagafrv. að lækka fjárveitingar til háskólans. Þvert á móti er lagt til að fjárveitingar á næsta ári verði hækkaðar. Það liggja fyrir um það tillögur og staðfest viðhorf háskólans líka að um hækkun á fjárlögum og fjárveitingu til háskólans er að ræða. En háskólinn hefur sagt: Allt það nýja fé sem við fáum fer til þess að styrkja þá starfsemi sem fyrir er en ekki til þess að taka upp nýja. Það er þetta sem liggur fyrir. Ég notaði ekki það orð að áhugaleysi væri innan háskólans á málinu en hins vegar er hann ekki tilbúinn til þess að setja það í forgang og nota nýja peninga til þess að taka upp þessa kennslu. Það liggur ljóst fyrir.

En það hefur einnig komið fram í umræðunum sem lá fyrir í menntmn. þegar við fjölluðum um þá þáltill. sem ég tel að hafi verið hrundið í framkvæmd af ráðuneytinu og formlega skýrt frá í bréfi til fjárln. í desember í fyrra eða fyrir réttu ári, þ.e. að þá lá fyrir að Háskólinn á Akureyri telur að iðjuþjálfanám falli mjög vel að þeirri starfsemi sem þar er stunduð og ég hef orðið var við það hér í umræðunum að þingmenn telja rétt að kanna þann möguleika til hlítar.