Fiskveiðar utan lögsögu Íslands

Fimmtudaginn 12. desember 1996, kl. 17:55:12 (2113)

1996-12-12 17:55:12# 121. lþ. 42.4 fundur 57. mál: #A fiskveiðar utan lögsögu Íslands# (heildarlög) frv., GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur

[17:55]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Vegna síðustu orða ræðumanns vil ég taka skýrt fram það sem ég hef áður sagt um afstöðu mína varðandi framsal á aflaheimildum. Hér liggur fyrir frv. sem hefur verið afgreitt til hv. sjútvn. hvar málið verður rætt þannig að afstaða mín til þessa framsals og framsalsheimilda fer ekki milli mála.

Ég verð að segja, virðulegi forseti, að það er mjög sérkennilegt og ekki í fyrsta skipti sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson kemur inn á mál sem eru mjög sérkennilega loðin svo ég segi ekki annað og talar rósamál í þessum stól um að það sé ekki í fyrsta skipti sem 10. þm. Reykv. hlaupist undan merkjum eða sé tvíátta. Líklega er það nú svo að engir eru álíka tvíátta og flestir alþýðuflokksmenn og er hann þar í fararbroddi. En ekki meira um það.

Vegna orða síðasta ræðumanns vil ég taka það skýrt fram að afstaða mín er algjörlega óbreytt gagnvart þessu máli. Ég veit að þetta mál sem við hv. þm. Guðjón Guðmundsson höfum lagt fram mun væntanlega ná fram að ganga og mun fá mikla umræðu í þinginu og í nefndum þess. Ég veit að alþýðuflokksmenn munu að sjálfsögðu fylkja sér um málið. Ég trúi ekki öðru miðað við það sem þeir hafa sagt áður.

En að lokum. Ég taldi ekki ástæðu til að gera sérstaka fyrirvara á nefndarálitinu varðandi þetta mál af þessari einu ástæðu að afstaða mín er alveg ljós. Og svo ég noti orð hv. þm., Guðmundar Árna Stefánssonar: Þetta mál er alveg kýrskýrt og á þess vegna að vera nokkuð ljóst, a.m.k. í hugum alþýðuflokksmanna.